11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2934 í B-deild Alþingistíðinda. (2964)

249. mál, samkomudagur Alþingis

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Samkvæmt skýlausu ákvæði í 22. gr. stjórnarskrár Íslands er sú verkaskipting ákveðin að forseti Íslands ákveður hvort nauðsyn beri til að kveðja Alþingi saman til aukafundar. Eftir okkar stjórnskipun þýðir þetta auðvitað að slík ákvörðun er tekin að fenginni till. forsrh. og á hans ábyrgð. Þegar kosningar hafa farið fram hér á landi hefur það alloft gerst að Alþingi hefur ekki verið kallað saman strax eða skjótlega að loknum kosningum, heldur hafa viðræður verið teknar upp á milli flokka og stjórnmálamanna um stjórnarmyndun, og ef' skjótlega hefur skapast nokkuð skýr meiri hluti, sem vill mynda stjórn, hefur hann alloft óskað eftir að hafa þann hátt á að Alþingi verði ekki kallað saman alveg á næstunni til þess að ný ríkisstjórn fengi betri tíma til að undirbúa mál undir Alþingi. Ég tel ástæðu til í sambandi við þessa till. að rekja nokkuð, ekki aðeins hvernig stjórnarskrárákvæðið er heldur hver háttur hefur verið hafður hér á. Þegar þessum kosningum, sem fara fram 23. apríl, er lokið kemur það vafalaust til athugunar hjá forseta Íslands og forsrh. hvern hátt skuli hafa á i þessu efni og veltur þá náttúrlega mjög á því hvort meiri hl. kann að skapast þá skjótlega eftir kosningar og vitanlega mundi sá meiri hl. gera sína till. í því efni. Að þessu athuguðu. sem ég hef sett hér fram, og með hliðsjón af því eins og nú horfir, þá geri ég ráð fyrir að það falli í minn hlut að kosningum loknum að gera till. til hæstv. forseta í þessu efni. Miðað við allar aðstæður tel ég ekki rétt að greiða atkv. um þessa till.