10.11.1982
Efri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

73. mál, stjórn flugmála

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég taldi mig reyndar hafa svarað spurningu hv. 4. þm. Vestf. Ég vísaði í ummæli hæstv. utanrrh. og tjáði mig sammála honum um að ekkert væri því til fyrirstöðu að flugmálastjóri væri undir yfirstjórn utanrrh. yfirmaður flugmála á Keflavíkurflugvelli. Ég sagði hins vegar, að flugmál á Keflavíkurflugvelli heyrðu undir hæstv. utanrrh. Þess vegna verður hæstv. utanrrh. að ákveða hvaða skipan hann vill hafa að þessu leyti og hann yrði þá að beita sér fyrir slíkri breytingu. Ég upplýsti að ákvæðið til brb. er samið í fullu samráði við hæstv. utanrrh.

Út af því sem hv. 3. landsk. þm. sagði, vil ég aðeins ítreka það, að að sjálfsögðu er ekkert því til fyrirstöðu að flugumsjón fyrir Reykjavíkursvæðið kom frá Keflavík, en ég endurtek að það getur ekki bara verið að ósk flugmálastjóra, heldur verður sá starfsmaður að vera undir hans stjórn.