11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2939 í B-deild Alþingistíðinda. (2971)

230. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson gat þess, að hann teldi líklegt að kostnaður við framkvæmd þeirrar yfirlýsingar sem ég gaf hér fyrir nokkrum dögum væri svona 100–200 millj. kr. Af því að hv. þm. Halldór Ásgrímsson er þekktari fyrir það en ýmsir aðrir menn hér að vera talnaglöggur, þá tel ég ástæðu til að mótmæla þessu. Þetta getur ekki verið.

Heildarkostnaður ríkisins af tannlækningum á árinu 1983 er 100 millj. kr. á fjárl. eins og er. Það liggja engar upplýsingar fyrir um það, sem haldbærar eru, hverjar heildartekjur tannlæknastofa í landinu eru. Rn. hefur þó leyft sér að giska á að þær séu alls á bilinu 250–300 millj. kr. Það er hrein ágiskun, vegna þess að við höfum engar nægilega traustar upplýsingar í þessu efni, en ég hygg að efri talan sé í rauninni hámark. Og ég er að segja þetta að vandlega yfirveguðu máli.

Nú skulum við hugsa okkur það, að hér verði tekin upp sú regla að greiða allan kostnað, viðbótarkostnað umfram þessar 100 millj. kr. sem þegar eru greiddar. Þá gæti ég trúað því að það næðist þessi hámarkstala hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, þó mjög ólíklegt. Í þessu efni hefur verið gert ráð fyrir því að undanskilja kostnað við gullfyllingar, krónur eða brýr, sem er mjög verulegur hluti af tannlæknareikningum um þessar mundir og vaxandi hluti eftir því sem aldur viðskiptamanna tannlæknastofanna fer hækkandi, þannig að þessi tala hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar er að mínu mati víðs fjarri. Ég vil leyfa mér að giska á að talan sé á bilinu 20–30 millj. kr. Ég hef lýst því hér yfir, að ég telji að heilbr.- og trmrn. hafi heimild til þess að taka inn viðbótarhópa. Ég hef einnig lýst því yfir, bæði hér og í blaðaviðtölum, að rn. sé nú að undirbúa það hvernig að þessu verður staðið. Ég held að það sé ekki skynsamlegt af Alþingi að rígbinda fasta reglu í þessu efni, vegna þess að við þurfum að líta aðeins betur á hlutina, m.a. með tilliti til útgjaldanna og með tilliti til samninga við tannlæknana.

Hér voru nefndir samningar við Tannlæknafélag Íslands og það er auðvitað víðs fjarri öllu lagi að setja málið upp eins og hv. þm. Alexander Stefánsson gerði hér áðan, að tanntæknar geti hækkað sinn taxta svo og svo mikið og síðan sé ríkið dæmt til að borga það. Auðvitað geta ríkið og sveitarfélögin neitað að greiða slíka taxta, auðvitað er það hugsanlegt. Að sjálfsögðu er það þannig, að einhliða taxtar af hálfu tannlæknanna geta ekki gilt. Hins vegar hefur það verið þannig, að tannlæknataxtar undanfarinna ára hafa byggst á þeim samningum sem gerðir voru fyrir nokkrum árum og tannlæknar hafa ekki farið fram úr því. Við höfum reynt að ná nýjum samningum við Tannlæknafélagið. Það hefur gengið mjög illa. Þar hefur Tryggingastofnunin í raun og veru verið ákaflega sein við að koma hlutunum á að mínu mati. Af þeim ástæðum lýsti ég því yfir í fyrra, og ég endurtek það núna, að ég get vel hugsað mér að samþykkja það ákvæði, sem er í 2. gr. frv. eins og það lítur hér út á þskj. 575, þar sem segir: „Skylt er tannlæknum að leggja fram greiðslukvittun í því formi, sem Tryggingastofnun ríkisins óskar eftir, þegar greiðsla er innt af hendi. Framvísa ber þessari kvittun við sjúkrasamlög, þegar sótt er um endurgreiðslu.“

Það sem ég tel að væri hugsanlegt að samþykkja er þetta ákvæði, vegna þess að þar með er verið að lögbinda tegund greiðslukvittunarinnar, og ég tel að það sé ákaflega mikill fengur að því að fá slíkt fram. Hins vegar hefur mér verið sagt hér aftur og aftur, m.a. hér á hv. Alþingi af þeim sem sæti eiga í tryggingaráði, að samningar séu að nást alveg á næstunni við þá aðila sem hér er um að ræða. Ég er orðinn mjög langeygður eftir því. Og ef samþykkt þessa ákvæðis gæti orðið til þess að reka trippin og ganga frá niðurstöðum í þessu efni, þá yrði ég manna fegnastur. Ég tel hins vegar ekki ástæðu til þess að fallast á 1. gr. frv. eins og hún lítur hér út. Ég mun ekki taka þátt í atkvgr. um það mál eins og ég gerði hér grein fyrir í gær.