11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2943 í B-deild Alþingistíðinda. (2977)

230. mál, almannatryggingar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna afgreiðslu þessa máls í þeirri nefnd sem ég veiti forstöðu. Mér finnst menn vera að tala hér út og suður um þetta mál. Hv. formaður fjh.- og viðskn., Halldór Ásgrímsson, sem menn hafa hér hamast við að hrósa fyrir aðgætni í fjármálum, hefur látið að því liggja að nefndin hafi afgreitt þetta mál með forgangshraði og að lítt athuguðu máli. Um þetta get ég haft ýmislegt að segja. Það þarf ekkert endilega að vera að menn eigi að vera fyrst og fremst hér til að sýna aðgætni í fjármálum. Menn eru á Alþingi Íslendinga til að taka pólitískar ákvarðanir um meðferð fjármagns. Það eru engin meðmæli með nokkrum þm. að hann sé almennt aðgætinn í fjármálum. Spurningin er: Við hvaða meðferð fjármagns er hann aðgætinn? Það vill svo til að það er pólitísk ákvörðun hvernig skattpeningar þjóðarinnar eru notaðir.

Ég er formaður í heilbr.- og trn. og hlýði hér almennt á umr. Hæstv. félmrh., heilbr.- og trmrh. lýsir því hér yfir, að ríkisstjórn Íslands hafi þá um morguninn tekið þá pólitísku ákvörðun að greiða 20% af tannlækningum allra landsmanna, þ.e. þeirra hópa sem ekki njóta þegar meiri fríðinda. Hvernig á þm., sem situr hér í salnum, að bregðast við þegar ríkisstj. tekur ákvörðun um svo ágætt mál? Þá er tæpast annað að gera en samþykkja það.

Menn hafa spurt hér, eins og þeir hafi aldrei heyrt skýringar á því, hvaðan á að taka þessa peninga? Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, að til þessara nýju hlunninda landsmanna yrði notaður greiðsluafgangur ríkissjóðs. Það hefur legið fyrir frá fyrstu byrjun að þetta eigi að gera og hvaðan peningarnir eigi að koma. Það er þess vegna aldeilis með ólíkindum að undrast það að slíkt frv. skuli svo afgreitt. Ekki ætla ég að standa í vegi fyrir því að landsmenn fái nú einu sinni dálítið nýtileg hlunnindi fyrir það sem þeir greiða í skatta.

Ég vil minna hv. formann fjh.- og viðskn. á að ef ég man rétt greiddi hann því atkv. að ríkissjóður Íslands ábyrgist 50 millj. kr. til þess að grafa upp handónýtt mörg hundruð ára gamalt skip austur á söndum. Það kann að vera að hv. formaður fjh.- og viðskn. sé að vona að þar finni hann gullið í tennur landsmanna. Ég er ekki eins viss um það.

Ég vil minna hv. þm. enn einu sinn á að pólitík snýst um það að veita málum forgang. Þau mál sem varða beina hagsmuni landsmanna eiga að hafa forgang. Við greiðum hér árlega hundruð milljóna í vitlausar fjárfestingar. Nægir að minnast á Kröflu. Svo ætlar að líða yfir hv. fjh.- og viðskn. ef eyða á nokkrum tugum milljóna í það sem veldur íslenskum fjölskyldum hvað mestum útgjöldum.

Ég vil enn og aftur standa við það, að ég mun mæla með að þetta frv. verði samþykkt, og þá geri ég engan mun á því sem virðist nú fara fyrir brjóstið á ýmsum hv. þm. að stjórnarandstöðuþm. flytur þetta frv. Ég legg ekki í vana minn að standa gegn góðum málum hér á hinu háa Alþingi Íslendinga af því að það séu pólitískir andstæðingar mínir sem flytja þau. Ef mál eru góð, þá greiði ég þeim atkv.