11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2944 í B-deild Alþingistíðinda. (2978)

230. mál, almannatryggingar

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég skil þessa áminningu en tek hana ekki til mín. Ég vil aðeins koma hér til þess að vekja athygli á ummælum hæstv. heilbrmrh., þar sem hann viðurkennir að engir samningar eru til, engir samningar eru í gildi við Tannlæknafélag Íslands. Þetta er ákaflega viðamikið atriði og spilar alveg inn í framhald þessa máls, hvort sem greiðslurnar eru staðfestar með frv., eins og hér er verið að leggja til, eða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins.

Ég tel að það sé nauðsynlegt að við meðferð þessara mála sé beitt aðhaldi og föstum reglum. Þess vegna tel ég ekki eðlilegt að auka niðurgreiðslur og tannlæknakostnað frá því sem nú er, því að við erum allir sammála um að það er nauðsynlegt að lækka þennan kostnað, og eins og gildandi lög gera ráð fyrir, þá kemur þessi niðurgreiðsla þeim mest til góða sem mesta hafa þörfina, eins og það er í gildandi lögum. En mér finnst að aukning í þessu formi geti alls ekki verið skynsamleg fyrr en búið er að setja aðgengilega samninga við starfandi tannlækna í landinu, þar með Tannlæknafétag Íslands. Og þá sé hægt að fara út í frjálsræði um það að auka niðurgreiðslur á þessum kostnaði, ef menn á annað borð telja að nægjanlegt fjármagn sé til til~ess að framkvæma þá hluti.

Ég get vel skilið að hv. þm. nokkrir, sem hér hafa komið upp í ræðustól, séu viðkvæmir fyrir fæðingarorlofsmálum. Ég er ekkert hissa á því, vegna þess að þegar lögin um fæðingarorlof voru sett var framið eitthvert mesta óréttlæti sem gerist í slíkum málum hér í sölum Alþingis. Ég er ekkert hissa á því að hv. 5. þm. Suðurl. og hv. 8. landsk. þm. séu viðkvæmir fyrir þessum málum og hv. 1. landsk. þm. En ástæðulaust er að draga það í þessa umr. Ég vil benda þessum hv. þm. á það, að samkv. 22. gr. tryggingalaganna greiða atvinnurekendur 2% gjald til Tryggingastofnunarinnar, sem ég loksins fékk upplýsingar um í fjmrn. nú fyrir nokkrum dögum að nemi á s.l. ári hvorki meira né minna en 170 millj. kr., og samkv. sömu gr. tryggingalaga er ríkissjóður skyldugur að láta jafnháa upphæð á móti. Þarna er því um að ræða 340 millj. kr., sem fara í endurgreiðslu á ýmsum atriðum sem tryggingalöggjöfin á að fjármagna, þar með fæðingarorlofið. Hækkunin við það að láta heimavinnandi húsmæður eða foreldri, sem fæða barn samkv. læknisvottorði, fá jafnháar bætur og þeir sem núna fá þær í þriðja þrepi er um 22 millj. kr. miðað við upplýsingar ársins 1982. Það er allt og sumt. Ég lagði áherslu á það í minni framsögu fyrir þessu frv. að þarna væri fjármagnið til, hvort sem þarf að færa til aðrar bætur almannatrygginga til þess að koma þessu fyrir, það skal ég láta ósagt, en hér er ekki um óþarft mál að ræða.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. meir en ég hef gert, en ég taldi ástæðu til að benda á þungamiðju þessa máls, að opinberir samningar til þess að eiga möguleika á því að vita hvaða upphæð er verið að tala um í sambandi við tannlæknakostnað, eru ekki til í landinu.