11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2954 í B-deild Alþingistíðinda. (3006)

248. mál, samkomudagur Alþingis

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Satt að segja er þessi till. um samkomudag Alþingis í sjálfu sér hin ómerkilegasta og varla pappírsins virði, því að þetta hv. Alþingi getur vitanlega á engan máta bundið hendur þess þings sem kjörið verður væntanlega 23. apríl n.k. Ég vil vekja athygli á því, að það er á valdi forseta Íslands að kveðja saman aukaþing, og til þess þarf hann að sjálfsögðu að hafa uppáskrift forsrh. Þess vegna væri í raun ekki ástæða til að ræða þessa till. Hitt er miklu merkilegra, sem að baki liggur og kemur fram m.a. í því, að þessi till. er flutt af fulltrúum þriggja flokka hér á Alþingi.

Talsmenn sumra þessara flokka hafa ekki farið leynt með þá skoðun sína, að Alþingi eigi að koma saman eins fljótt og kostur er og kosningar aðrar að fara fram um mitt sumar eða svo. Þessi skoðun kom fram á fundum formanna stjórnmálaflokkanna og m.a. af þeirri ástæðu var um það rætt af sumum formönnum að taka inn ákvæði til bráðabirgða í frv. um stjórnlagabreytingu, sem kvæði á um slíkan framgang mála. Við framsóknarmenn lögðumst gegn þessu af ástæðum sem ég kem að síðar. Sömuleiðis hefur þessi vilji komið fram í ræðum t.d. formanns Alþb. og formanns Sjálfstfl. Þeir hafa ekki farið leynt með þá skoðun sína, að aðrar kosningar ætti að heyja nú þegar í sumar.

Við framsóknarmenn höfum út af fyrir sig ekkert á móti því, að aðrar kosningar fari fram svo fljótt sem aðstæður leyfa. Við teljum hins vegar að efnahagsástand þjóðarinnar og erfiðleikar atvinnuveganna séu slíkir, að þjóðin hafi alls ekki efni á því að standa í kosningabaráttu hálft árið án þess að á þeim málum sé tekið af fullkominni festu. Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég mundi fagna því, ef sá stóri meiri hl., sem stendur að baki þessari till., væri tilbúinn til þess að taka á efnahagsmálum þjóðarinnar þannig að vit sé í. Ég mun ekki standa í vegi fyrir því. Og þá getur vitanlega sá meiri hl. ákveðið aðrar kosningar og þær gætu jafnvel orðið fljótlega, ef þannig væri tekið á þessum mikilvægu málum að traust vekti.

Ég vil jafnframt segja það að fyrir okkur framsóknarmönnum vakir ekki að tefja fyrir öðrum kosningum. Við værum tilbúnir að taka þátt í aðgerðum í efnahagsmálum, sem gætu þá tryggt að aðrar kosningar færu fram, án þess að valda stórtjóni, sem ég tel að annars yrði í atvinnu- og efnahagsmálum þessarar þjóðar. Ég vek hins vegar athygli á því, að hér á Alþingi hefur undanfarnar vikur virst vera samstaða um að gera sem minnst í þeim málum. T.d. hefur verið samstaða með Alþb.-mönnum og stjórnarandstöðunni um að koma í veg fyrir lagfæringu á vísitölukerfinu, sem m.a. hefði frestað þeirri holskeflu sem yfir þjóðina gekk 1. mars s.l., sem kostar t.d. sjávarútveginn 670 millj. á ársgrundvelli. Sú samstaða þessara þriggja flokka kemur því fram á fleiri sviðum en í flutningi þessarar till.

Ég vara mjög við að ota þjóðinni út í tvennar kosningar eins og nú er ástatt. Það er að sjálfsögðu engin launung að eftir slíkar holskeflur eiga atvinnuvegirnir í stórkostlegum greiðsluerfiðleikum. Á þeim málum þarf að taka og samstöðu þarf að ná um aðgerðir í efnahagsmálum, sem snúa við þeirri þróun, sem nú er orðin í verðbólgu hér á landi og efnahagslífinu almennt. Ég endurtek: Ég mundi fagna því að sjá tillögu frá þessum flokkum á því sviði. (HBI: Hvar eru tillögur stjórnarinnar?) Við höfum lagt fram tillögur, m.a. um vísitölumálið, ég rakti það hér áðan, og fleira. Hv. þm. getur eflaust fengið orðið hér á eftir, og ég bið forseta að vera jafnröggsamur í stjórn og hann hefur stundum verið þegar ritari á í hlut. (Gripið fram í: Þegar þinn ritari á í hlut.) En hann snýr sér sjaldan að þessum.

Um þetta mætti flytja langt mál, en það er ekki ætlun okkar framsóknarmanna að tefja framgang þessarar till. Það er ekki ætlun okkar framsóknarmanna að standa á nokkurn máta í vegi fyrir þeirri samstöðu, sem virðist liggja að baki þessari till., né sýna andstöðu við önnur góð mál hér á hinu háa Alþingi. Ég fyrir mitt leyti og við framsóknarmenn teljum sjálfgert að ríkisstj. segi af sér eftir kosningar. Ljóst er að samstaða hefur myndast með þremur flokkum öðrum. Þeir eiga að taka við stjórn ef þeir eru reiðubúnir að gera það strax. Munum við heldur ekki standa í vegi fyrir því. En ég vil fullvissa hv. alþm. um það, að við munum leggja áherslu á að sú ríkisstj. sem nú situr segi af sér eftir kosningar, þannig að þessir þrír flokkar geti tekið við. Og að sjálfsögðu er þessum flokkum í lófa lagt að ákveða kosningar þegar þeim sýnist. Þeir hafa mikinn meiri hl. hér á hinu háa Alþingi.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, enda tíminn sem við höfum nú brátt útrunninn. Eins og ég sagði áðan er það ekki ætlun okkar framsóknarmanna að standa í vegi fyrir samþykkt þessarar till. Ég vil ljúka orðum mínum með því að óska Sjálfstfl. og Alþb. til hamingju með samstarfið.