11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2955 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

248. mál, samkomudagur Alþingis

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég tek það skýrt fram, að flutningur þessarar þáltill. þýðir alls ekki, af hendi Alþfl., að verið sé að samþykkja tvennar kosningar á þessu ári. Alþfl. telur, eins og Framsfl., að myndun nýrrar ríkisstj. strax að kosningum loknum sé bráð nauðsyn. Ríkisstj. sem þorir að takast á við þann mikla efnahagsvanda sem nú er við að etja.

Aftur á móti telur Alþfl. að samkoma Alþingis sé nauðsynleg til þess að auðvelda myndun ríkisstj. og til þess að ráðast strax að efnahagsvandanum. Ef ekki tekst að mynda ríkisstj. að kosningum loknum, þá og þá fyrst er nauðsynlegt að taka ákvörðun um nýjar kosningar.

Ég endurtek, herra forseti: Frá hendi Alþfl. þýðir framlagning og samþykkt þessarar þáltill. alls ekki ákvörðun um tvennar kosningar á þessu ári.