11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2956 í B-deild Alþingistíðinda. (3008)

248. mál, samkomudagur Alþingis

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í þeirri till. sem hér er á dagskrá er ekki verið að ákveða neitt annað en það að Alþingi lýsi yfir þeim vilja sínum, að þing verði kallað saman eigi síðar en 18 dögum eftir að næstu kosningar hafa farið fram. Það er gersamlega út í hött að leggja nokkra aðra meiningu í till. en í þessum orðum stendur. Þess vegna eru yfirlýsingar formanns Framsfl. hér áðan gjörsamlega út í hött. Úr því að hann hins vegar kýs að haga málum með þeim hætti sem hann hér gerir, þá get ég alveg eins óskað honum til hamingju með nýja álmeirihlutann, sem Framsfl. virðist vilja vera aðili að hér á hv. Alþingi, og er lítill sómi að þeim meiri hluta, verð ég að segja.

Hér er auðvitað um það að ræða að Alþingi lýsi því yfir, að þing verði kvatt saman eigi síðar en 18 dögum eftir að næstu kosningar hafa farið fram, svo að Alþingi geti tekið á þeim efnahagsvanda sem hér er uppi í þjóðarbúinu. Alþingi fjalli um vanda atvinnuveganna og Alþingi fjalli um vanda efnahagslífsins. Hér er ekki verið að gera tillögur um neitt annað. Sá meiri hluti, sem hugsanlega er fyrir þessari till. hér, er heldur ekki um neitt annað en það að þingið fái að fjalla um vanda efnahagslífsins. Það er sérkennilegt af flokki eins og Framsfl. að rísa með þeim hætti gegn því að Alþingi fjalli um efnahagsvandamál þjóðarinnar.