11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2962 í B-deild Alþingistíðinda. (3013)

248. mál, samkomudagur Alþingis

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég er einn af flm. þessarar till. og mér þykir rétt að segja nokkur orð um hana, einkum og sér í lagi vegna þess að hér hefur margt orðið fallið sem ekki er hægt að láta ósvarað.

Ég var satt að segja ákaflega undrandi þegar ég varð var við þá miklu óánægju sem var meðal þm. Framsfl. með flutning þessarar till. Ég vissi ekki betur en það væri klappað og klárt að þm. þriggja flokka mundu flytja þessa till. sér á parti og að hún yrði afgreidd hér fyrir þinglokin. Ég veit ekki betur en þingflokkur Framsfl. gerði sér fulla grein fyrir því að á þessu væri von og að það væri vilji mikils meiri hl. þingheims að það efni, sem í þessari till. felst, yrði staðfest af Alþingi og þá yrði við það að una. En það kom í ljós að þessi litla till. um það að Alþingi verði kvatt saman eigi síðar en 18 dögum eftir næstu alþingiskosningar — reyndist mesta stórmál sem Framsfl. hefur staðið frammi fyrir á því kjörtímabili sem nú er senn á enda. Að þing skuli eiga að koma saman eftir kosningar er fáheyrt hneyksli, svo stórt að það hlaut að varða stjórnarslitum, ekkert meira og ekkert minna. (Gripið fram í: Þurfti að flytja till. um það?) Jú, vissulega má spyrja eins og hv. þm. gerir: (Gripið fram í: Vegna hvers?) Vegna þess að við sem sitjum á þessu þingi höfum ekki neina tryggingu fyrir því að þing komi saman fljótlega aftur eftir næstu kosningar til þess að fjalla um stjórnarskrármálið, ef við reynum ekki að fá það staðfest að þingvilji sé fyrir því nú, á því þingi sem er að afgreiða stjórnarskrána. (Gripið fram í.) Nei, það þarf auðvitað fyrst og fremst vilja þeirrar ríkisstj. sem er starfandi á hverjum tíma. Það er hún sem kveður þingið saman og ef þar er einn aðili inni, sem hyggst beita neitunarvaldi gagnvart því að þing sé kvatt saman, þá kemur það ekki saman. Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að þá er eðlilegra að kanna það hér á Alþingi, hvort ekki er mikill meirihlutavilji fyrir því að þing komi saman.

En þá er spurningin þessi: Hvers vegna þarf þing að koma saman? Hvers vegna er eðlilegt að þing komi saman? Ástæðan er ósköp einfaldlega sú, að við sem stöndum að breytingu á stjórnarskránni teljum nauðsynlegt að staðfesta það samkomulag, sem tekist hefur um stjórnarskrármálefnin, fljótlega eftir næstu kosningar. Við viljum ekki að það bíði kannske í hálft eða eitt ár. Við óttumst að ef mjög langur tími líður frá því að um málið er fjallað hér á Alþingi í fyrra sinn og þar til það er tekið til umr. aftur í seinna sinn, þá gæti það samkomulag, sem nú hefur blessunarlega tekist hér í þinginu, verið í hættu. Eftir þær ítarlegu og miklu umr., sem hafa orðið um hvernig kosningalögum skuli skipað, viljum við að sú niðurstaða sé staðfest af þinginu hið fyrsta eftir næstu kosningar.

Hitt málið, sem hér hefur svo aftur verið gert að umtalsefni hvort kosningar verða þar á eftir, er allt annað mál. Það er hvergi minnst á það í þessari till. Það er mál, sem ríkisstj. tekur ákvörðun um, þegar þar að kemur. Það má vel vera að eftir næstu kosningar verði mynduð ný ríkisstj. og hún vilji koma fram efnahagsaðgerðum eða hafa uppi það prógramm í þjóðmálum sem kostar nokkurn tíma að framkvæma. Þá er það hennar ákvörðun hvenær hún vill efna til næstu kosninga.

Það er svolítið lævís áróður fólginn í þessu kosningatali þeirra framsóknarmanna. Vegna þess að það verður að hafa kosningar strax eftir að stjórnarskráin hefur verið samþykkt einu sinni kunna ýmsir að halda að svo þurfi að vera eftir að stjórnarskráin hafi verið samþykkt öðru sinni. Það er ekki. Það er skylda samkv. stjórnarskránni, ef henni er breytt, að rjúfa þing og boða þegar til kosninga. Síðan getur þing komið saman á nýjan leik og breytt stjórnarskránni endanlega með því að staðfesta þá fyrri breytingu sem Alþingi hefur samþykkt. Svo er hægt að fresta þingi og þarf ekki að hafa kosningar fyrr en mönnum sýnist og sú stjórn sem þá tekur við ákveður. Það er ekkert samband þarna á milli.

Þegar hv. þm. Framsfl. eru að reyna að tengja þetta mál við hugsanlegar nýjar kosningar, þá er það ekkert annað en áróður. Ég er hins vegar ekkert að útiloka það, að næsta stjórn kynni að vilja hafa nýjar kosningar og kjósa eftir hinni nýju kjördæmaskipun. Og ég get vel skilið að Framsfl. sé ekkert spenntur fyrir því að láta kjósa eftir þessari nýju kjördæmaskipun vegna þess að forustumenn hans vita og hafa alltaf vitað að þeir koma heldur lakar út úr þessu nýja kosningafyrirkomulagi heldur en því gamla. Þeir vilja kannske fresta því í lengstu lög að láta kjósa í annað sinn. Þetta er ósköp skiljanleg afstaða og þarf ekkert að fara í launkofa með hana. Við skiljum það allir þm., að framsóknarmenn eru ekkert æstir í það að láta kjósa öðru sinni og verða að taka á sig það tap sem þeir óhjákvæmilega verða fyrir með nýju fyrirkomulagi. (SV: Ertu alveg viss um það?) Ég er alveg viss um það, já, og ég veit að forustumenn Framsfl. hafa ekki heldur sjálfir dregið neina dul á það, að auðvitað er nýja fyrirkomulagið þess eðlis að þeir tapa á skiptunum. En þó að svo sé, þá er ekkert sem segir það í dag, hvenær næstu kosningar fara fram. Það getur orðið í júnímánuði, ef ný stjórn ákveður það, ef hún vill frekar stjórna með seinni kosningarnar að baki. Það getur líka orðið næsta haust, ef ný stjórn vill hafa nokkurra mánaða frest til að gera ráðstafanir og vill svo boða til kosninga með haustinu, en það getur líka allt eins orðið eftir eitt ár. Það er ný stjórn sem ákveður það.

Það er ekkert í þessari till., ekki nokkur skapaður hlutur sem felur það í sér að verið sé að taka ákvörðun um seinni kosningarnar. Það hefur bara ósköp einfaldlega legið fyrir að þrír flokkar hér á Alþingi hafa viljað tryggja það, að þing kæmi fljótlega saman aftur. (SV: Það er engin trygging fyrir því.) Jú, ég hygg nú að það sé nokkur trygging fyrir því, ef þær tillögur verða samþykktar sem hér liggja fyrir. Ég hygg að hinn ágæti þm. Stefán Valgeirsson, 2. þm. Norðurl. e. geri sér fulla grein fyrir því, að ef Alþingi hefur samþykkt með miklum meiri hl. atkv. að þing skuli koma saman 18 dögum eftir næstu kosningar, þá getur engin ríkisstj., hvernig sem hún er skipuð, staðið að neinu öðru en því að fara að þeim vilja þingsins. Það má að vísu segja eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson er kannske að hugsa: Það er engin 100% trygging. Það er alveg rétt. Það er hægt að sniðganga það. En það verður enginn meiri maður af því. Hver stjórn hlýtur að vilja virða þingviljann, vilja virða lýðræðið í landinu. Það er ljóst að hinir nýkjörnu þm. verða ekki spurðir að því hvort þing verður kallað saman. Það er ríkisstj., sem þá situr, sem tekur þá ákvörðun. Og ef hún hefur að leiðarljósi þessa ákvörðun Alþingis, að vilja kalla saman þing 18 dögum eftir kosningar, þá hlýtur hún að fara eftir því.

Það lá fyrir að þrír flokkar vildu að þing kæmi saman. Einn flokkurinn var á móti. Þetta var staðfest í stjórnarskrárnefndinni. Við lýstum yfir þeim vilja okkar þar að flytja till. af þessu tagi og ég vissi ekki betur en að þá væri fullt samkomulag um að við gerðum það. Þeir sem væru á móti þessari till. greiddu þá atkv. á móti henni en hinir samþykktu hana. Að það þyrfti að verða þetta einkennilega uppþot og hótanir um úthlaup úr ríkisstj. vegna þess að menn óska eftir því að þing komi saman, það kom mér heldur betur í opna skjöldu og áreiðanlega mörgum fleiri landsmönnum. Ég er viss um að það eru þúsundir og tugþúsundir kjósenda Framsfl. um allt land, sem botna ekki upp né niður í þeirri afstöðu Framsfl., að það sé orðið mikilvægasta málið, sem Framsfl. hefur staðið frammi fyrir í þrjú ár, hvort þing komi saman eða ekki. Og þó vita allir að það verða ekki gerðar neinar efnahagsráðstafanir á komandi sumri eða komandi vori öðruvísi en þing komi saman. Þingið verður að lögfesta flestar þær aðgerðir sem ríkisstjórnir grípa til. Þar af leiðandi er nokkurn veginn sjálfgert að þing hlýtur að koma saman.

Nei, nú virðist ýmislegt annað, sem áður hefur verið efst í huga manna, eins og verðbólga, erlend skuldasöfnun, samdráttur í þjóðarframleiðslu eða annað þess háttar, ekki vera stóra málið, sem þjóðin stendur frammi fyrir, heldur aðeins það hvort nýkjörið þing fær að koma saman. Ég vil taka það skýrt fram að allt tal minna ágætu samstarfsmanna, sem gripnir eru mjög sérkennilegum eldmóði hér í dag, að ekki sé meira sagt, allt tal þeirra um að hér sé verið að ákveða nýjar kosningar er gersamlega úr lausu lofti gripið, gersamlega út í bláinn.

Hitt er svo þess háttar brandari að maður eyðir ekki orðum að því, að með flutningi þessarar till. hafi skapast einhver nýr þingmeirihluti hér á Alþingi, að þingið megi ekki lýsa yfir þeim vilja sínum að næsta þing skuli koma saman fljótlega eftir næstu kosningar, þá sé bara kominn nýr þingmeirihluti hér á Alþingi. Ég verð að segja. alveg eins og er, að ég hélt að menn færu ekki að nefna snöru í hengds manns húsi, menn sem sækja á hér öllum stundum að koma fram till., sem flutt er af Framsfl., Alþfl. og Sjálfstfl. og felur það í sér að taka eitt stærsta mál ríkisstj. úr hennar höndum, eitt stærsta málið sem við stöndum frammi fyrir og iðnrh. hefur farið með fram til þessa, taka það úr höndum hans og fela það nefnd, þar sem stjórnarandstaðan á að sjálfsögðu að vinna í góðu samkomulagi við Framsfl. að nýrri stefnumótun í því máli, menn sem sækja það af ofurkappi að koma slíku fram hér. Það er þó efnisatriði sem um er að ræða. Það er verið að taka stóran málaflokk úr höndum ríkisstj. með aðstoð stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Menn, sem flytja mál af þessu tagi og búa sig nú undir að halda margra klukkutíma fund í nótt út af þessu máli, kannske til morguns — (Gripið fram í: Ætlar þú að tala í því máli?) Ég ætla að tala í því máli og ég ætla að tala lengi, það er rétt. Ég ætla að gera það. Ég ætla ekki að horfa á það sitjandi hér að Framsfl. standi að því með stjórnarandstöðunni að taka stóra málaflokka út úr höndum ríkisstj. Mér dettur ekki í hug að sitja þegjandi undir því. Ég ætla að halda hér langa ræðu og það ætla áreiðanlega margir fleiri að gera, því að hér er virkilegt stórmál á ferðinni. Hér er efnislegt mál á ferðinni. Hér er nefnilega verið að mynda nýjan meiri hl. um mál, um eitthvert efni sem stjórnmálin snúast um. Þetta sjá auðvitað allir skyni bornir menn.

En að þetta litla mál hér, sem fjallar um það hvenær þing eigi að koma saman, sé eitthvert stjórnarmyndunarmál, það er auðvitað þess háttar fjarstæða að engum heilvita manni dettur í hug að taka undir það utan þingsala. (SV: Hvers vegna þessa feimni?) Hvers vegna þessa feimni? Ég er ekki feiminn maður. En ég skil fyrr en skellur í tönnum. Ég skil það, að þegar hv. þm. Framsfl. eru óðfúsir til að ganga til samninga við Alusuisse ásamt stjórnarandstöðunni og taka þau mál úr höndum ríkisstj., þá er hér eitthvað á ferðinni, þá er hér eitthvað á seyði. Og ég þarf ekkert að vera feiminn til þess að benda á það. Ég vil segja að hér er lítið mál á ferðinni, afskaplega lítið mál, mál sem ekki þarf að valda neinum hávaða hér í þinginu, mál sem er einfaldlega þess eðlis, að það er vilji mikils meiri hl. þm. að þing komi saman.

Á það hefur verið bent af hálfu minna ágætu samstarfsmanna, framsóknarmanna, að það þurfi að mynda stjórn eftir næstu kosningar. Og þeir gefa í skyn að ekki sé hægt að mynda stjórn ef Alþingi er kvatt saman. Þetta mun almenningur í landinu eiga dálítið bágt með að skilja, að það sé ekki hægt að mynda stjórn ef Alþingi hefur komið saman. Auðvitað má til sanns vegar færa að þingfundir taka nokkurn tíma. Auðvitað má til sanns vegar færa að ef umr. eru miklar hér í þinginu hafa forustumenn flokkanna eitthvað minni tíma til að ræða saman. Því er það kannske ekki alveg út í bláinn, að það geti verið skynsamlegt að bíða einhverjar vikur með að þing komi saman. Ekki skal ég hafa neitt á móti því. Mér finnst það sjálfsagt og eðlilegt að forustumenn stjórnmálaflokkanna fái svo sem eins og þrjár vikur til þess að reyna að mynda stjórn áður en Alþingi kemur saman og er þá líklegt til að trufla þá. Ef mönnum hins vegar nægja ekki þessar þrjár vikur, þá má kannske bæta þeirri fjórðu við ef það gæti orðið til samkomulags. Ég er viss um að menn væru alveg tilbúnir til samkomulags um að þetta væru allt upp í fjórar vikur, ef menn leggja svona mikla áherslu á að stjórnarmyndunarviðræður geti átt sér stað.

Því hefur verið lýst yfir af forustumönnum Framsfl. og af ráðh. Sjálfstfl. í ríkisstj. að eðlilegt sé að núv. ríkisstj. segi af sér að loknum næstu kosningum. Ég hygg að það sé að flestu leyti eðlilegt að haga vinnubrögðum með þeim hætti. Ég álít að hvernig sem kosningaúrslitin verða sé eðlilegt að reynt verði við stjórnarmyndun á frjálsum grundvelli og þar af leiðandi segi þessi ríkisstj. af sér þegar kosningum er lokið og stjórnarmyndunarviðræður hefjast. Það getur verið álitamál hvað menn vilja ætla langan tíma til þess. Í till. sem við flytjum hér er stungið upp á því að menn geri þá tilraun í t.d. 18 daga og síðan komi þing saman. Ég segi fyrir mig að ef það væri eitthvert mál af hálfu framsóknarmanna að hafa þennan tíma lengri, við skulum segja þrjár vikur eða jafnvel fjórar, þá mundi ég persónulega vera til viðtals um það, þó að ég tali auðvitað ekki fyrir munn allra flm. þessarar till., sem kunna að hafa misjafnar skoðanir á þessu atriði. En ég legg á það áherslu að sá aðili sem síðan tekur ákvörðun um hvort nýjar kosningar fari fram er ekki þeir sem standa að þessari till. og sennilega ekki heldur núv. ríkisstj. Það hlýtur að vera ný ríkisstj., sem tekur við af þeirri sem nú er að störfum, ellegar Alþingi ákveður það sjálft þegar þar að kemur. Það er líka hugsanlegur möguleiki.

Ég tel að sá dagur sem nú er að kvöldi kominn en er þó langt frá því lokið hjá okkur alþm., að því er mér skilst, hafi nýst heldur illa og ekki liggi mikið eftir okkur eftir þennan dag. Það hefur mikið verið talað hér á Alþingi í dag, en fáu verið ákveðið. Senn líður að þingrofi og við eigum eftir að fjalla um fjöldamörg mál. Ég vek á því athygli að við eigum eftir að afgreiða vegalög frá þessari hv. deild. Þegar þau hafa verið afgreidd héðan þurfa þau að fara til Ed. Síðan þarf að fjalla hér um vegáætlun. Hugsanlega er aðeins eftir einn þingdagur, mánudagurinn. Til viðbótar þessu þarf sjálfsagt að afgreiða hér nokkra tugi annarra mála, þ. á m. lánsfjárlög, sem eru aðeins komin til nefndar í síðari deild og á eftir að ræða við tvær umr. í Ed. Ég álít að hv. þm. ættu að taka höndum saman um að semja um framgang mála á mánudaginn kemur, ljúka þeim málum sem allir hljóta að vera sammála um að verði að ljúka og þá um leið að semja um það hvernig þessu máli verði fyrir komið, vegna þess að ég trúi ekki öðru en hægt sé að semja við þá ágætu framsóknarmenn, sem hér eru æstastir á móti þessu máli, um einhverja skaplega niðurstöðu sem allir geta við unað. Ég trúi ekki öðru en að þeir geti fallist á það að eftir næstu kosningar segi þessi stjórn af sér og stjórnarmyndunartilraunir hefjist, en að eðlilegt verði talið að þing komi saman að einhverjum ákveðnum tíma liðnum eftir að kosningar hafa farið fram. Það hlýtur að verða talið ósanngirni af þeirra hálfu, ef þeir eru ekki til nokkurra samninga um þetta mál, og ég hef ekki trú á því, miðað við framgöngu þeirra í álmálinu svokallaða, að þeir verði ýkja margir utan þessara þingsala sem trúa þeirri furðusögu þeirra að með flutningi þessa þingmáls hafi skapast nýr þingmeirihluti á Alþingi. Svo fjarstæðukennd er sú fullyrðing, að jafnvel æstustu stuðningsmenn þeirra um allt land eru áreiðanlega sammála okkur hinum um að þetta er með meiri háttar fjarstæðum sem hér hafa heyrst á Alþingi.