11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2968 í B-deild Alþingistíðinda. (3015)

248. mál, samkomudagur Alþingis

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. var undrandi á því að við værum óánægðir með að þing yrði kallað saman strax eftir kosningar. En þó ræddi hann það mál alveg sérstaklega, hvað fyrir okkur mundi vaka, og viðurkenndi að þetta hefði verið lítið hugsað, sem er ekkert undarlegt. Þetta er línan að ofan, línan frá hv. Ólafi Ragnari Grímssyni.

Það hefur komið í ljós að hann lagði hér fram till. löngu áður en till. kom frá þeim mönnum sem flytja þessa till. í Nd. Ég held að við, sem erum búnir að vera nokkuð lengi hér á Alþingi, höfum þá reynslu að það er ekki þægilegt að vera í stjórnarmyndunarviðræðum á sama tíma og Alþingi situr. Það hefur tekið meira en tvo mánuði enda þótt þing sæti ekki, hvað þá þegar þing situr. Svo er hæstv. fjmrh. að segja að það sé ekkert samkomulag um það og það liggi ekkert fyrir um að það eigi að fara strax út í aðrar kosningar. En hv. þm., þeir nafnar Ólafur Einarsson og Ólafur Ragnar Grímsson hafa ekkert farið í felur með þetta að undanförnu. Þeir hafa ekki farið í felur með það hvað fyrir þessari nýju fylkingu vaki þó að sumir þm. vilji sverja þetta af sér í bak og fyrir. (Grípið fram í: Þetta hvað?) Þetta með kosningarnar 2. júlí eins og þeir hafa verið að ræða um að væri markmiðið. Það er langt síðan hv. þm. heyrðu þetta og vissu um þetta. Nú eru menn feimnir. Nú neita þeir og þræta enda þótt allir viti sannleikann. (Gripið fram í: Þeir þora ekki.) Nei, þeir þora ekki. Málið er svona einfalt. Kjarkurinn er ekki meiri.

En ég er dálítið hissa á hæstv. fjmrh. því að ég hef reynt hann að öðru en að vera kjarklítinn. Yfirleitt er hann hreinskiptinn í öllum samskiptum og ég verð að segja það, að mér hefur ekki líkað betur við aðra þm. en hæstv. ráðh. Þess vegna er ég ennþá meira undrandi á þessum viðbrögðum, vegna þess að auðvitað vitum við báðir og allir aðrir hvað fyrir þessari nýju fylkingu vakir.

Svo taldi hæstv. ráðh. að það væri komin einhver ný samfylking í sambandi við álmálið og hann vildi halda því fram, að sú till. sem hér liggur fyrir fæli það í sér að taka ætti það úr höndum iðnrh. Ég er að vísu ekki lögfræðingur, en ég stend í þeirri trú að það sé ekki hægt að taka það með þessari till. úr höndum ráðh. Það sé sannleikurinn í málinu. Þetta er því fyrirsláttur, ekkert annað en tilbúningur. (Fjmrh.: Er þetta bara dellutillaga?) Ja, það er víst, og það veit hæstv. fjmrh., að þetta mál verður ekki tekið úr höndum iðnrh. né önnur mál sem undir hann heyra. Hitt er annað mál, að það er verið að tala um að setja nefnd í málið til þess að taka þátt í samningum við Svisslendingana. En málið verður ekki tekið úr höndum iðnrh. Það er alveg þýðingarlaust. fyrir hæstv. fjmrh. að halda slíku fram.

Hæstv. ráðh. sagði að þessi dagur hefði nýst illa. Hverjum skyldi það vera að kenna? Er það okkur framsóknarmönnum að kenna að þessi dagur hefur nýst illa? Var ekki búið að boða fund í Sþ. kl. 4? Stóð til að slíta honum vegna funda í deildum? Var um það rætt? Ég held að hæstv. fjmrh. ætti að rifja það upp, hvernig dagurinn hefur liðið. Var það ekki formaður þingflokks hans sem var hér með málatilbúnað og langar ræður um þingsköp? Það færi betur að hæstv. ráðherrar Alþb. hefðu stjórn á sínum mönnum. En það virðist ekki vera.

Hæstv. fjmrh. vildi halda því fram að till. sem hér er nú til umr. væri bindandi fyrir forsrh. eftir kosningar. En þáltill. er aðeins viljayfirlýsing og hefur ekki lagagildi. Þess vegna er hún óþörf og marklaus og á að taka hana þannig.

Ég ætla mér ekki að fara að halda hér uppi málþófi. Mér fannst rétt og nauðsynlegt að ræða þetta fullum hálsi fyrst verið er með svona málatilbúnað hér á Alþingi. En það væri hægt að ræða um margt fleira í þessu sambandi. Það væri t.d. hægt að rifja það upp alveg í hreinskilni hvernig hefur gengið að fá þessa hv. þm., þingflokk Alþb. til að taka á efnahagsmálunum í þau þrjú ár sem liðin eru síðan stjórnarsamstarfið hófst. (Gripið fram í.) Nei, ég ætla ekki að gera það. Ég ætla að lofa hv. þm. Ólafi Einarssyni að komast hér að og ræða þessi mál ef hann vill. (ÓE: Ég hef ekki beðið um orðið.) Nei, ég geri ráð fyrir því að það sé alveg eins gott að þegja.