11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2974 í B-deild Alþingistíðinda. (3020)

Um þingsköp

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér er verið að ræða 16. mál, viðræðunefnd við Alusuisse, þáltill., 231. mál Sþ., þskj. 467. Og samkv. þingsköpum er það auðvitað þannig, að — eða ég hef talið að það væri lítið þannig á, að hér væri um að ræða sjálfstæða till. Hins vegar kemur það ekki fram á þskj. með hvaða hætti flutningur þess er að öðru leyti en því, að þar stendur að hér sé um að ræða till. frá meiri hl. atvmn. Meiri hl. nefndar flytur nál. en þm. taka upp mál með sjálfstæðum hætti. Hér virðast flm. ætla að gera hvort tveggja í senn: að vera meiri hl. n. og líka að taka mál upp með sjálfstæðum hætti. Mig undrar það að jafn þingvanir menn og sumir þeirra eru, sem að þessu máli standa, skuli grauta svo í þingsköpum sem þessi málatilbúnaður ber vitni um. Hef ég ekki heyrt hjá hæstv. forseta hvernig hann hugsar sér að meðhöndla þetta mál, þegar það bætist svo við að hér í dagskránni stendur að hér sé um að ræða till. frá meiri hl. atvmn. frh. fyrri umr. eða er hér um að ræða nýja umr.? Hvort er hér um að ræða? Eru menn að tala um það að hér sé framhald umr. sem hófst fyrir nokkru um allt annað mál? Frh. fyrri umr., stendur hér. Hvaða umr. er það, sem áður hefur farið fram um þetta mál? (Gripið fram í: Á síðasta fundi.) Það er þá verið að skírskota til síðasta fundar í þeim efnum. Ég vona að það sé það sem átt er við í þessum texta, eins og hann er settur hér fram. (FrS: Augljóslega.) En málatilbúnaður er allur í þessu máli sérkennilegur. Fyrir utan það að málið er hneyksli, þá er málatilbúnaðurinn hinn grautarlegasti í einu og öllu. Og hæstv. forseti Sþ. hefur ekki kveðið upp úr með það hvort hér er um að ræða sjálfstæða till. né heldur um það hvort hér er um að ræða till. frá meiri hl. n. og þar með meirihlutaálit.

Nú háttar þannig til með upptalningu á flm. að þeir eru taldir í þessari röð innan sviga í þessu snubbótta þskj.: EH, það mun standa fyrir hv. þm. Eggert Haukdal. FrS mun standa fyrir hv. þm. Friðrik Sophusson. ÓÞÞ mun standa fyrir hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson. Síðan kemur hv. þm. Halldór Ásgrímsson, varaformaður Framsfl., sem slæst í þessa undarlegu för. Þá kemur hér hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og síðan kemur hér hv. þm. Sverrir Hermannsson. Hérna er því framkvæmdastofnunardúettinn mættur bæði í bak og fyrir. Fyrst er það hv. þm. Eggert Haukdal og svo lýkur þessari föngulegu sveit með hv. þm. Sverri Hermannssyni. Síðan kemur hér hv. þm. Friðrik Sophusson og mælir fyrir þessari till. og kemur þó hvergi fram í málatilbúnaði að hann eigi að vera fremstur þeirra sem málið bera upp.

Það finnst mér afar sérkennilegt að hv. þm. Halldór Ásgrímsson, sem ég vona að hafi verið að kveðja sér hljóðs einmitt núna, skuli slást í þessa för undir forustu hv. þm. Friðriks Sophussonar. Af hverju hefur hann ekki forustu hv. þm. Eggerts Haukdals, sem þó er leiðtogi þeirra samkv. þessum pappír, sem hér liggur fyrir á þskj. 467, Tillaga til þingsályktunar um viðræðunefnd við Alusuisse.

Ég óska, herra forseti, eftir úrskurði um það hvort hér er um að ræða sjálfstæða till. eða nál. eða hvers lags pappír þetta yfir höfuð er, sem hér er á dagskránni, áður en umr. er lengra haldið. Ég vænti þess að úrskurður geti legið fljótlega fyrir, svo að umr. um þetta mikilvæga mál þurfi ekki að tefjast mjög mikið af þessum sökum, en ég óska eindregið eftir því að hæstv. aðalforseti Sþ. svo og aðrir forsetar komi sér saman um það hvers lags till. það er sem hér er verið að ræða.