11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2975 í B-deild Alþingistíðinda. (3021)

Um þingsköp

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil nú mótmæla því að hæstv. félmrh. er hér að endurflytja ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar frá í gær. Þá úrskurðaði forseti með hvaða hætti þetta mál skyldi ræða hér á Alþingi. Það er búið að fara þinglegar leiðir og er undarlegt að þm. skuli ekki geta sætt sig við það. Hvers konar lýðræðishugsanir eru það að geta ekki sætt sig við það að mál séu rædd hér á Alþingi? Það eru undarlegar hugsanir.

Ég ætla ekki að svara hér þeim aðdróttunum sem komu fram í máli hæstv. félmrh. Ég get gert það síðar varðandi þetta mál, enda á ekki að ræða efnislega um mál um þingsköp. En ég vil mótmæla því að einstakir þm. komist upp með það dag eftir dag að hafa hér langt mál undir liðnum þingsköp og fara út í efnislega umr. Það mætti halda að Alþb.-menn væru að koma í veg fyrir það að hæstv. iðnrh. gæti tekið hér til máls og við fengið að hlýða á hann nokkra stund.