11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2987 í B-deild Alþingistíðinda. (3026)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Kl. 4 í dag var haldinn fundur þar sem forsetar þingsins og formenn þingflokka ræddu um vinnu hér í þinginu. Á þessum fundi kom fram formleg ósk frá fulltrúum þriggja þingflokka, þingflokks Alþb., Alþfl. og Sjálfstfl. um að síðar í dag, milli kl. 5 eða 6 eða svo, yrðu haldnir fundir í deildum þingsins til að ræða þau mál sem þar væru á dagskrá. Fulltrúi Framsfl. á þessum fundi mótmælti því og krafðist þess að fundir yrðu haldnir í Sþ. til þess að till. um viðræður við Alusuisse fengi allan tíma þingsins í dag. Fulltrúar flokkanna þriggja bentu á að til að greiða fyrir þingstörfum og auðvelda afgreiðslu þeirra frv. sem eru forsenda þess að þingi geti lokið með sómasamlegum hætti í byrjun næstu viku, þá verði að gefa tíma fyrir deildafundi.

Í Ed. á eftir að fjalla um frv. til lánsfjárlaga til 2. og 3. umr. Þar á eftir að ræða till. um samkomudag þings og ýmis önnur mál og í Nd. eru einnig ýmis mál óafgreidd.

Í Ed. hófst í dag um þrjúleytið umr. um till. til þál. um samkomu Alþingis. Það var ljóst að sú umr. mundi ekki taka langan tíma, aðeins einn maður var á mælendaskrá, hæstv. viðskrh., og kunnugt að almennt mundu deildarmenn ekki taka mikinn þátt í þeirri umr. Það var samdóma álit okkar margra, sem sátu þennan fund forseta og formanna þingflokka, að til þess að greiða fyrir afgreiðslu mála hér í þinginu væru skynsamlegust vinnubrögð að umr. um till. um samkomudag Alþingis eftir næstu kosningar lyki í Ed. Hún gengi síðan til Nd. og yrði þar rædd. Á meðan gæti Ed. tekið til meðferðar frv. til lánsfjárlaga, stjórnarskrárfrv. hæstv. forsrh. Gunnars Thoroddsens og ýmis fleiri frumvörp, sem í Ed. eru. Það væri þannig skynsamlegust nýting á tíma manna hér í þinginu að skipuleggja næstu klukkustundir með þessum hætti. Þá var boðið að síðar í kvöld gæti verið fundur í Sþ. til að taka fyrir þau mál sem þar þyrfti að ræða.

Þessum fundi lauk þannig, að fyrir lá sameiginleg niðurstaða þriggja þingflokka um að þetta væru skynsamlegustu vinnubrögðin í afgreiðslu mála hér í þinginu. Þar með gæfist tími til að ræða það sem brýnast væri og ennfremur mætti þá síðar í kvöld halda áfram umr. í Sþ. Nú gerist það hins vegar fimm mínútum fyrir kl. 6 að við erum boðaðir á fund hæstv. forseta Sþ. og okkur tilkynnt að hæstv. forseti Sþ. hafi ákveðið að hafna ósk þriggja þingflokka um deildafundi, en verða við ósk Framsfl., síns eigin flokks, um áframhaldandi fund í Sþ., þar sem krafa Framsfl. er að till. um nýjar viðræður við Alusuisse yrði þar til áframhaldandi umr.

Því miður hefur það nú gerst, að hæstv. forseti hefur hafnað ósk sem fulltrúar mikils meiri hl. þings hafa hér sett fram og orðið í staðinn við ósk Framsfl. um hvernig með þingstörf yrði farið — hafnað samkomulagi sem hefði auðveldað mjög framgöngu flestra mála hér í þinginu, m.a. þess máls sem Framsfl. virðist nú telja aðalatriðið að hér sé rætt. Ekkert annað megi gera hér í þinginu fyrr en umr. um það nái fram að ganga. Hinn nýi Alusuissemeirihl. Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl. fái að birtast hér í þinginu. Það er fróðlegt fyrir okkur að sjá af hvílíku kappi Framsfl. leggur áherslu á að þessi nýi Alusuissemeirihl. fái að birtast hér í þingsölum. Misbeitt er forsetavaldi á þann einstæða hátt sem hér hefur fram komið. Hæstv. forseti, sem hingað til hefur stjórnað fundum Alþingis vammlaust og vel, er nú knúinn til þess af sínum eigin flokki (Gripið fram í: Ertu talsmaður nýja meiri hl.?) að misbeita forsetavaldi sínu með þessum hætti.

Ég vil segja við formann þingflokks Framsfl. og formann Framsfl. að það er ljótur leikur við forsetaembætti Jóns Helgasonar, jafnmikils drenglundarmanns og hann er, að Framsfl. skuli leggjast á hann með þessum hætti. Menn verða að átta sig á að forseti Sþ. er trúnaðarmaður þingsins alls, en ekki sérstakt embætti sem heyrir undir formennina í Framsfl. Það hefði farið betur að þessir miklu kappsmenn í álmálinu, hv. þm. Páll Pétursson og hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson, sæktu það mál ekki af slíku kappi fyrir hönd síns flokks að þeir stefndu virðingu hæstv. forseta Jóns Helgasonar og störfum þingsins í þá hættu sem nú hefur orðið.

Ég get ekki séð með hvaða rökum hægt er að hafna ósk sem fram hefur komið frá miklum meiri hl. þings, einkum og sér í lagi þegar sú ósk er jafnrækilega rökstudd ábendingum um hvað muni greiða fyrir afgreiðslu mála. Við höfum boðið upp á að að loknum fundum í deildum, þar sem þau mál yrðu tekin til afgreiðslu sem ég hef hér nefnt, yrði fundur í Sþ. og menn gætu þá haldið áfram að ræða þær tillögur sem þar eru á dagskrá. Þessu tilboði er hafnað þótt meiri hluti þings standi að því. Ég vil óska eftir því að forystumenn Framsfl. dragi nú til baka kröfur sínar til hæstv. forseta. Það er, eins og ég sagði áðan, hættulegur leikur með embætti forseta Sþ. að flokksbræður hans stilli honum upp í þá erfiðu stöðu sem þeir hafa hér gert. Það væri drenglundaðri framkoma af hálfu forustumanna Framsfl. að draga kröfu sína um fund í Sþ. til baka, því að það er í skjóli þeirrar kröfu sem þessi fundur er haldinn.

Jafnframt vil ég beina þeim tilmælum til hæstv. forseta Sþ. að hann verði við þeim óskum sem fram hafa komið frá hinum þingflokkunum þremur og sem forsetar deildanna hafa lýst sig fúsa til að verða við. Þeir geta eðlilega ekki komið við fundum vegna þess að hér er auglýstur fundur í Sþ. Við þurfum að fá næstu klukkustundir til að halda áfram störfum í deildum. Síðan er hægt að taka til við fund í Sþ. þegar þeim fundum er lokið. Ég vona, herra forseti, að þeirri ákvörðun að halda nú áfram fundi í Sþ. verði breytt, þessum fundi verði frestað og forseti gefi gjarnan nokkrar klukkustundir til að halda fundi í deildum. Vilji menn ljúka þessu þingi með sóma, vilji menn ljúka þessu þingi á þann hátt að afgreidd séu þau frumvörp sem allir eru sammála um að nauðsynlegt sé að afgreiða og vilji menn að þinginu ljúki strax eftir helgina, þá er óhjákvæmilegt að farið sé fram með þeim hætti sem ég hef hér lýst og sem flestir þeir sem sitja vinnufundi formanna þingflokka og forseta þings, voru sammála um að væri vænlegasta leiðin til að skipuleggja störf Ed., Nd. og Sþ.

Forseti (Jón Helgason): Eins og hv. alþm. er kunnugt hafa fundir í Sþ. að undanförnu mjög vikið fyrir deildafundum. M.a. var svo í gær, en þá er þó vanalegur fundartími í Sþ. Þá hafði ég gert ráð fyrir að halda áfram og ljúka umr. á þeim málum sem ég hafði hugsað mér að taka á dagskrá, þ.e. því dagskrármáli sem þegar hefur verið hafin umr. á og einnig um kísilmálm. Því miður tókst það ekki þá vegna óska um að ekki yrði kvöldfundur þar sem kvöldfundir höfðu þá verið þrjú kvöld í röð. Þeir sem óskuðu eftir þessum fresti höfðu ekkert við það að athuga að það yrði svo fram haldið hér í dag. Það varð svo að samkomulagi í milli okkar forseta, mín og deildaforseta, að þessu yrði hagað þannig að fundur í Ed. hæfist kl. 11 í morgun, fundur í Nd. kl. 1 og fundur í Sþ. nú kl. 4. Ég tel því að þarna hafi verið mjög hliðrað til fyrir deildafundi. En að það sé ekki hægt að ljúka þingi með sóma þó að umr. séu í Sþ. á ég erfitt með að sætta mig við. Ég tel því, að ég hafi ekki neitt misbeitt valdi mínu í þessu tilfelli, heldur sé farið hér eftir því sem búið var að ráðgera og ræða, m.a. í gærkvöld við formenn þingflokka.