11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2991 í B-deild Alþingistíðinda. (3034)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hefur komið fram formlega í þingsölum að vilji þriggja flokka er sá, að hér verði gefið tóm til að halda áfram í nokkrar klukkustundir fundum í deildum þingsins. Það er að vísu rétt, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði fyrir stundu, að forsetar deildanna hafa ekki talið eðlilegt að þeir bæru formlega fram þessa ósk, en það er jafnljóst að þeir væru reiðubúnir að verða við henni ef hæstv. forseti Sþ. mundi veita tíma til deildafunda. Það er því alveg ljóst að þetta mál strandar ekki á forsetum deildanna. Það er alveg ljóst og skýrt, þótt þeir hafi talið eðlilegra að valdið væri hjá forseta Sþ., sem það er að forminu til. Það hefur enginn maður dregið það í sjálfu sér í efa að forseti geti haldið áfram fundi sem hann hefur sett.

Hins vegar vita það allir, að eigi störf þessarar samkomu að vera árangursrík og farsæl er nauðsynlegt að menn fari með það vald þannig að það stuðli að árangri og afgreiðslu mála, en það leiði ekki til endalauss málþófs um þingsköp, deilna um meðferð mála hér í þinginu.

Það hafa ekki komið fram nokkur rök hjá hæstv. forseta eða formanni þingflokks Framsfl. að halda nú fund í Sþ. önnur en þau, að hæstv. forseta finnst aðeins minni tími gefast til funda í Sþ. en í deildum. Þetta voru einu rökin sem hæstv. forseti flutti hér fram. Það hefur enginn, herra forseti, lagst gegn því að hæstv. forseti fengi að halda fund í Sþ. síðar á þessum sólarhring. Það er þess vegna mesti misskilningur að telja að svo sé. Meira að segja hv. þm. Ólafur G. Einarsson lýsti því yfir að hann væri reiðubúinn að halda fund í Sþ. í alla nótt. (Utanrrh.: Deildafundi í nótt.)

Á morgun, hæstv. utanrrh., ætla hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson hæstv. ráðh. að móta sameiginlega stefnu með öðrum frambjóðendum Sjálfstfl. í komandi þingkosningum. Við hinir höfum talið æskilegt að gefa þeim þennan umþóttunartíma. Þess vegna stendur þessi deila ekki um hvort hv. Sþ. fær tíma til að fjalla um sín mál. Það er mesti misskilningur, herra forseti. Hún stendur eingöngu um hvort Framsfl. tekst að koma í veg fyrir nauðsynlegar umr. í deildum þingsins. Það er kjarni málsins.

Ef það er rangt, sem ég hef talið að væri rétt, að Framsfl. sé andvígur því að fundir væru í deildum, þá óska ég að það sé upplýst. Er kannske málið þannig, að Framsfl. sé sammála okkur hinum um að nú eigi að vera fundir í deildum? Ég hafði skilið hv. þm. Pál Pétursson á fundum forseta þingsins og formanna þingflokkanna þannig, að Framsfl. væri andvígur því. Nú sé ég hins vegar að hv. þm. Jóhann Einvarðsson, skrifari hæstv. forseta, hristir höfuðið yfir þeirri fullyrðingu að Framsfl. sé andvígur því. (JE: Yfir ræðu þinni.) Ef Framsfl. er hins vegar sammála okkur hinum um að halda fund í deildum er þetta ekkert mál. Þá er sjálfsagt að verða við því. (JE: Við klárum Sþ. fyrst og höldum svo deildafundi.)

Það er ljóst að miklu fleiri mál eru óafgreidd í Sþ. en í deildum. (JE: Það eru tvö mál sem þarf að klára núna.) Það liggur ekkert fyrir um það. Hæstv. forseti Sþ. hefur lýst því yfir að óski menn eftir því að mál séu tekin á dagskrá í Sþ. muni hann verða við þeirri ósk. Það er forsenda hans fyrir því að halda fund hér og nú að það hefur verið óskað eftir að viðræðunefnd við Alusuisse yrði tekin til umr. og kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði. Ég setti fram ósk í gær um að till. mín, sem er hér efst á blaði af málum sem taka skal til umr., um afvopnun og stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna, yrði tekin til umr. Hæstv. forseti hefur ekki orðið við þeirri ósk. Hvernig stendur á því að mönnum er mismunað svona í þinginu? Ég setti fram þá ósk í gær að sú till. yrði tekin til umræðu og formaður Alþb., hæstv. félmrh., gerði þá kröfu að brúargerð á Kúðafljót yrði tekin til umr. einnig. Það eru því fjölmörg mál ofar en þetta sérstaka, 16. mál, sem eðlilegast væri að taka til umr., ef það eitt er kappsmál hæstv. forseta, sem hann lýsti hér áðan, að halda fund í Sþ. Það var eina ástæðan sem hæstv. forseti gaf og þá væntanlega tekur hann fyrir þau mál sem þar eru á dagskrá í þeirri röð sem flm. þeirra óska að þau séu tekin fyrir. Þá er mér ennfremur kunnugt um að hv. þm. Vilmundur Gylfason telur brýna nauðsyn að fram haldi umr. um frv. til stjórnskipunarlaga um aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Við erum ýmsir sem eigum eftir að tala í því máli.

Það er ennfremur ljóst, að sé það ætlun hæstv. forseta að stuðla að eðlilegu vinnulagi hér í þinginu er það ekki farsælt að halda á máli með þeim hætti sem hér er gert. Það er ljóst að það verða langar umr. um viðræðunefnd við Alusuisse. Ég get sagt hæstv. forseta það, að ætli hann sér að ljúka þeirri umr. stendur hún fram á næsta dag a.m.k. (Gripið fram í: Fram yfir miðnætti?) Það er stuttur tími. Hún stendur a.m.k. fram á næsta dag, ef það er markmið forseta að ljúka þeirri umr. eins og mér heyrist að sé krafa frá þeim sem að þeirri till. standa. Ef menn telja, hæstv. forseti og Framsfl., sem eru einu aðilarnir hér sem eru þeirrar skoðunar, að tíma þingsins sé best varið með þeim hætti kemur það væntanlega í ljós.

En ég held að það sé mjög varhugavert fordæmi, sem hér er verið að skapa, — fordæmi sem ég segi í fullri hreinskilni og fullri einurð að stofnar embætti forseta Sþ. í hættu. Auðvitað er það ekkert annað en orðhengilsháttur hjá hv. þm. Páli Péturssyni að hann hafi ekki haft nein áhrif á ákvörðun forseta Sþ. — hann einfaldlega lýsi yfir stuðningi við hana. Við höfum allmargir verið á fundum þar sem Páll Pétursson hefur fyrir hönd Framsfl. krafist þess að svona yrði haldið á málum. Hann hefur sett fram þá kröfu formlega frá Framsfl. að svona yrði haldið á málum. Ég spurði hann að því gagngert á fundinum kl. 4 í dag hvort þessi till. hans um látlausa fundi í Sþ. og að álmálið yrði þar tekið á dagskrá væri krafa frá Framsfl. og því var játað. Þess vegna þýðir ekkert fyrir þm. að koma hér eins og saklaus engill, enda fer það honum illa, og þykjast ekkert hafa komið nálægt þessu máli, heldur sé hann eingöngu að beygja sig undir ákvörðun hæstv. forseta. (MB: Hann er nú af guðlegu kyni.) Nei, hann er af Guðlaugsstaðakyni.

Ég endurtek þau tilmæli mín til forustumanna Framsfl. að þeir íhugi í fullri alvöru í hvaða hættu þeir eru að setja jafnágætan og drenglundaðan mann og Jón Helgason með því að beita hann þessum þrýstingi. Það liggur fyrir formlega innan þings að Framsfl. er eini aðilinn sem hefur krafist þess að með málið væri farið með þessum hætti. Allir aðrir eru annarrar skoðunar. Það er bæði hættulegt fordæmi gagnvart forsetaembætti þessarar virðulegu stofnunar og eins ósanngjarnt í hæsta máta að gera þá kröfu til hæstv. forseta Jóns Helgasonar að hann axli þessar byrðar fyrir Framsfl. með þessum hætti. Það væru slæm endalok, ég segi það í fullri hreinskilni, á jafnágætu samstarfi og verið hefur innan þings milli forseta þingsins og formanna þingflokkanna á undanförnum árum ef Framsfl. gengi fram með slíku offorsi í þessu máli. Þess vegna mælist ég nú til þess við forustu Framsfl. að hún samþykki tilmæli okkar hinna um að tekin verði ákvörðun um að halda deildafundi einhvern tíma á næstu klukkustundum. Það er ekkert höfuðatriði hvort það verður endilega hér og nú á þessari klukkustund. Það er hins vegar höfuðatriði að það verði á þessum sólarhring og það gerist með eðlilegum hætti.

Ég vil beina því til hæstv. forseta að hann gefi eins og stundarfjórðungshlé á fundi þessarar stofnunar. (ÓÞÞ: Er hv. þm. tekinn við stjórninni á þinginu?) Það eru tilmæli, herra þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Ég hef þá trú á viti hinna og sanngirni hér í þinginu, að ef menn fá stundarfjórðung til að ræða þessi mál í rólegheitum geti menn sameinast um að finna á þessu farsæla lausn. Það eru tilmæli mín til hæstv. forseta að hann gefi nú 10–15 mínútna hlé á fundum Sþ. svo að mönnum gefist tækifæri á að ræða hér um hvort ekki er hægt að finna sameiginlega lausn á þeirri deilu sem hér er uppi.