11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (3041)

Afbrigði vegna almennra stjórnmálaumræðna

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég tel nú rétt að skýra sjálfur mína afstöðu í þessu máli, því að mér virðist bögglast nokkuð fyrir hv. 11. þm. Reykv. að lýsa minni skoðun og var ekki skiljanlegt hvað hann átti við.

Það er svo ákveðið í þingsköpum, að á síðari hluta þings skuli útvarpa almennum stjórnmálaumr. og hver þingflokkur fær til umráða hálfa klukkustund. Eftir að núv. ríkisstj. var mynduð var það ákvarðað af Alþingi samkv. till. hæstv. forseta Sþ. að stuðningsmenn ríkisstj. úr Sjálfstfl. skyldu fá 20 mínútur til umráða í þessum almennu stjórnmálaumræðum eða eldhúsdagsumræðum. Mér barst það ekki til eyrna fyrr en síðdegis í dag, þegar ég sat fund með hæstv. forsetum þingsins og formönnum þingflokka og rætt var um þinghaldið, að það stæði til hjá einhverjum að breyta út frá þessari reglu á þá lund að tveir hæstv. ráðherrar, hæstv. dómsmrh. og landbrh., mættu ekki taka til máls í þessum 20 mínútum sem við ráðherrarnir þrír höfðum gert ráð fyrir að skipta á milli okkar. Ég lýsti því þá yfir að ég hefði undir engum kringumstæðum fallist á slíka niðurstöðu og óskaði eftir því að hæstv. forseti Sþ. bæri upp tillögu um sömu tilhögun og verið hefur sæmilegt samkomulag um undanfarin þrjú ár. Ég hef ekki heyrt nein frambærileg rök fyrir því að breyta út frá því og vænti þess að hv. þingheimur samþykki till. hæstv. forseta Sþ.