11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3017 í B-deild Alþingistíðinda. (3042)

Afbrigði vegna almennra stjórnmálaumræðna

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er rangt hjá hæstv. forsrh. að það hafi komið fram tillaga um að hæstv. ráðherrar Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson fengju ekki að tala í þessum umr. Það sem hafði verið sagt var að þar sem þeir hafa nú ákveðið að ganga til liðs við þingflokk Sjálfstfl. fullkomlega og af heilum hug — (Gripið fram í.) Já, en þeir hafa kannske ekki verið miklir liðsmenn í þeirri sveit á undanförnum árum. — og munu á morgun og sunnudag sitja sameiginlegan fund með félögum sínum, þar sem þeir ákveða sameiginlega framboðsstefnu sína í næstu kosningum, þá fannst okkur mörgum óeðlilegt að Sjálfstfl. fengi þannig að hafa marga talsmenn hér í umr. fyrir þessa sömu stefnu. En eins og hér hefur komið fram leggur hæstv. forsrh. mikið kapp á að þessir tveir ágætu þm., sem gegnt hafa ráðherrastöðu með honum í þessari ríkisstj., gangi áfram til leiks í umr. undir merki forsrh., en ekki merki Sjálfstfl., jafnvel þótt annar þeirra hafi nú þegar lýst yfir því opinberlega, Pálmi Jónsson, að hann muni ganga undan því merki strax að loknum næstu kosningum og segja af sér ráðherradómi og telur æskilegt að ríkisstj. geri það einnig. Það er alveg ljóst að þessi hæstv. ráðh. hefur lýst því yfir að hann telur eðlilegt og rétt að ríkisstj. segi af sér strax eftir næstu kosningar. Það hefur ekki komið fram annað. Væntanlega er hæstv. ráðh. Friðjón Þórðarson sömu skoðunar. Okkur fannst að þessar yfirlýsingar um að þeir væru að hætta ráðherradómi í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens og væru að ganga til liðs við þingflokk Sjálfstfl. í heild til að móta sameiginlega stefnuskrá væru réttlætanlegar ástæður til að breyta hér um. En fyrst hæstv. forsrh. leggur svona mikið kapp á að þeir séu áfram eyrnamerktir sér sérstaklega hér á Alþingi, þá er rétt, eins og ég sagði áðan, að þeir sem vilja halda því eyrnamarki og staðfesta þannig klofninginn í Sjálfstfl. formlega fyrir framan þjóðina í útvarpsumr. greiði því atkv. Út af fyrir sig er það alveg útlátalaust af okkar hálfu, ef það er vilji Sjálfstfl., að klofningurinn sé staðfestur með þessum hætti, að láta að þeim vilja.