11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3037 í B-deild Alþingistíðinda. (3047)

231. mál, viðræðunefnd við Alusuisse

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég taldi að hv. 3. þm. Austurl. hefði hugsað sér að tala í þessu máli. Hann er a.m.k. skrifaður í mælendaskrána. Hann er kannske hrokkinn heim og treystist ekki til að gera grein fyrir máli sínu. Þó hefur hann í rauninni meiri skyldur við þingheim en aðrir í þessu efni, þar sem hann er varaformaður Framsfl., og ég vænti þess, að hæstv. forseti geti látið kanna hvort þessi þm. vill nota rétt sinn til að tala. Ég hafði hugsað mér að það gæti verið fróðlegt fyrir þingheim að kynnast því, hvernig Framsfl. ætlar að rökstyðja að hann verði viðhengi við stjórnarandstöðuna í þessu máli og myndi eins konar nýjan meiri hl., álmeirihluta í þinginu, þar sem fara fremst þeir álbarónar sem bera ábyrgð á þessari till. Ég hefði því viljað stíga úr stólnum núna, ef ég mætti með leyfi hæstv. forseta fá að koma næstur á eftir hv. 3. þm. Austurl., ef hann vildi gera grein fyrir afstöðu Framsfl. í þessu máli, því að ég tel að það sé mjög brýnt að frétta af afstöðu þess flokks. (Forseti: Hv. 3. þm. Austurl. hafði kvatt sér hljóðs.) (HÁ: Ég fell frá orðinu.) (Forseti: Hann fellur frá orðinu.)

Herra forseti. Þetta er nú óþarfa lítillæti af hv. þm. Það er allt í lagi fyrir hann að stíga í ræðustól þó að ég hafi veríð næst á undan honum. Það er nokkuð sérkennilegt að hann skuli kjósa að tala ekki strax í málinu, miðað við að Framsfl. skuldar þingheimi alveg sérstakar skýringar á því, að hann hefur myndað hér þennan nýja álmeirihluta á Alþingi. Það hafa engar skýringar komið fram af hálfu Framsfl. í því efni hvernig á því stendur að hann ætlar að mynda þennan nýja álmeirihluta. Það hafa engin rök verið flutt af þeirra hálfu fyrir utan þær ræður sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson flutti hérna fyrir nokkrum mánuðum og flestir eru nú búnir að gleyma fyrir löngu sem betur fer. En það væri fróðlegt að fá svar við ýmsum spurningum hér frá þeim hv. framsóknarmönnum eða þá öðrum flm. till., eins og hv. þm. Eggert Haukdal sem situr nú hér samviskusamlega eins og flm. ber að gera. Hins vegar sýnist. mér að þar séu farnir af hólmi ýmsir aðrir flm., sem hefði verið fróðlegt að eiga orðastað við. Það hefði t.d. verið fróðlegt að fá að frétta af því hvað Framsóknarflokkurinn segir um það, hver á að vera formaður að þeirra mati í nefnd sem þeir leggja til að kosin verði á þskj. 467. Hvaða maður er það sem á að vera sameiningartákn álmeirihlutans? Hver er það sem á að bera uppi hið djarfa flagg uppgjafarinnar fyrir Alusuisse? Hver er það? Hver er þessi einingarleiðtogi þeirra álmanna, liggur það fyrir hver það eigi að vera? Það væri fróðlegt að tá að vita hver sá mæti maður er og hvernig hann er til kominn. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. flm. um það, vegna þess að þeir hljóta að hafa komið sér saman um það nú þegar, hver eigi að vera formaður í þessari nefnd. Þeir hljóta að vera búnir að koma sér saman um það úr því að þeir á annað borð runnu saman um þessa undarlegu till. sem hér liggur fyrir.

Ég hefði haldið að það væri einnig ástæða fyrir Framsóknarflokkinn til þess að skýra það hér á Alþingi hvernig á því stendur að hann ætlar að gefa álhringnum stækkun álversins í forgjöf í samningum, mér sýnist að þessi auðhringur, Swiss Aluminium, Alusuisse, hafi ekki leikið Íslendinga þannig að það sé ástæða til þess að traktera hann alveg sérstaklega með þeim hætti sem álflokkarnir þrír leggja hér nú til. Þeir leggja það til að það verði fallist á meginskilyrði Alusuisse um að þeir fái stækkun verksmiðjunnar í forgjöf — og er það nú skynsamlegt fyrir Alþingi Íslendinga að gera ályktun um slíkt, jafnvel þó einhverjum kynni að koma það í hug? Ég hygg að það hafi aldrei fyrr gerst í samningum við auðhringa af þessu tagi, að heil löggjafarsamkoma sé upptekin við það klukkutímum eða sólarhringum saman að ræða hvað eigi að gera fyrir þessa aðila og jafnvel að fyrir liggi tillaga, sem hefur stuðning að því er virðist meiri hl. þingsins, um að þetta fyrirtæki eigi að fá stækkun álversins í forgjöf. Þetta eru ekki skynsamleg samningavinnubrögð og það er niðurlægjandi fyrir löggjafarsamkomu þjóðarinnar að meiri hl. hennar skuli láta sér detta í hug að leggja hér fram og samþykkja með ofbeldi till. að því tagi sem hér liggur fyrir. Ég segi samþykkja með ofbeldi, þegar það er reynt að knýja svo fast á um það, að það eru haldnir hér næturfundir um málið, haft í hótunum við þingmenn út af þessu máli, og er vandséð hvaða íslenskum hagsmunum þessir hv. þm. — Eggert Haukdal og félagar — eru að þjóna með því að gera þessa till. hér á hv. Alþingi. Hérna er auðvitað um að ræða svo einstök þjónustubrögð við útlendan auðhring að ég vona að þess séu enginn önnur dæmi að á þjóðþingi fullvalda ríkis standi það til að bjóða útlendum auðhring, sem hefur leikið landsmenn jafngrátt í þessum viðskiptum og þessi, sérstaklega og vinsamlegast stækkun fyrirtækis síns í forgjöf í samningum. Hér er auðvitað um að ræða þvílík tíðindi, þvílík stórmerki, að sjálfsagt hefur enginn þeirra, sem stóð að flutningi álmálsins á sínum tíma, látið sér detta það í hug, að eftir aðeins örfá ár — einn og hálfan áratug frá umr. um álverið — kæmi upp hugsanlegur meiri hl. á Alþingi af þessum toga. Hvílík endemi eru það í rauninni að menn skuli láta sér detta slíkt í hug og láta sér koma til hugar að knýja það fram á Alþingi með þessum hætti! Er þar verið að þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar? Er þar verið að þjóna hagsmunum þeirra Íslendinga sem búa nú við dýra raforkureikninga? Hverjum er hér verið að þjóna? Af hverju eru menn að láta sig hafa það að ganga í þetta skítverk fyrir þennan hring?

Ég leyfi mér að vona að í hópi flm. séu menn sem standa að þessari till. vegna þess að þeir vissu ekki hvað þeir vöru að gera og þar af leiðandi fyrirgefist þeim, eins og segir frá í gamalli bók sem við allir höfum lesið og öll vel og vandlega vonandi. Ég vona að þessir hv. flm. átti sig á því þó síðar verði hvaða athæfi er hér á ferðinni og þeir sjái þess vegna sóma sinn í því, áður en lengra er haldið í þessum umr., að draga till. til baka. Slík till. er smánarmerki og hlýtur að koma við streng í hjarta hvers einasta manns sem á lágmarkstilfinningu og virðingu fyrir sjálfstæði, sögu og menningu íslensku þjóðarinnar. Þeir sem hrista hausinn yfir slíku, glotta yfir slíku og telja slíkt tal skrumið eitt eru búnir að gleyma því hvaðan þessi þjóð tók afl sitt og þeir eiga lítið eftir af þeirri kynfylgju sem leiddi kynslóðirnar í gegnum sjö alda sögu sjálfstæðisbaráttu gegn nýlenduvaldi útlendinga.

Á undanförnum árum hefur oft verið tekist á um sjálfstæði íslensku þjóðarinnar. Í þeim umr. hafa menn skipst í fylkingar, og það hefur oft verið býsna heitt t kolunum. Þannig var það t.d. þegar umr. um álverið fór fram á Alþingi á sínum tíma. Það var 1965 og 1966 sem þær umr. fóru fram og það er fróðlegt, með leyfi hæstv. forseta, að rifja þær upp einmitt hér til að athuga hvort menn sáu þá fyrir þá þróun sem síðan hefur orðið ellegar þann dapurlega fund sem nú er haldinn við auða stóla hér á hv. Alþingi.

Þegar þetta frv. um álbræðslu við Straumsvík var lagt fyrir árið 1965 urðu geysimiklar umr. um það hér á þinginu. Þá var gagnrýnt í upphafi t.d. af hv. þv. þm. Hannibal Valdimarssyni hvernig að verkinu var staðið af hálfu viðreisnarstjórnarinnar, sem lamdi málið í gegn hér af ruddaskap og virðingarleysi fyrir leikreglum lýðræðisins, sem hér eiga þó að vera í hávegum hafðar.

Hv. þm. Hannibal Valdimarsson gagnrýndi alveg sérstaklega að þetta mál var lagt fyrir án þess að Alþingi fengi nokkra möguleika til þess að breyta stafkrók í þeim plöggum sem lögð voru fyrir um álbræðsluna við Straumsvík. Þó var hér verið að stíga skref sem var örlagaríkara í atvinnusögu Íslendinga en flest önnur á liðnum áratug. Þá hefði mátt ætla að undirbúningur málsins á Alþingi Íslendinga væri sérstaklega vandaður og meðferð þess tæki þeim mun lengri tíma sem málið markaði skarpari þáttaskil í sögu lands og þjóðar. Í þeirri ræðu sem Hannibal Valdimarsson flutti réðist hann mjög harkalega að því hvernig með málið hefði verið farið af viðreisnarstjórninni, hvernig á því stæði að hún legði fyrir fullbúið mál af þessum toga án þess að gefa Alþingi kost á því að hafa áhrif á einn einasta stafkrók í sjálfum textanum. Þessi ræða, sem hv. þm. Hannibal Valdimarsson, þáv. formaður Alþýðubandalagsins, flutti, var mjög ítarleg og athyglisverð, en þar kemur ekki fram að Hannibal Valdimarsson léti sér detta það í hug að fram undan gæti verið sú skelfing, sem við upplifum hér í kvöld, að það liggi fyrir till. flutt af mönnum úr Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl.till. sem gerir ráð fyrir að gefa álverinu stækkun í forgjöf og votta því alveg sérstaka hollustu. Þetta er nefnilega till. um að taka ofan fyrir Alusuisse, þetta er till. um að gera eins og Alusuisse segir, þetta er till. um að gegna Alusuisse, þetta er till. um að löggjafarsamkoman á Íslandi lúti hinum stóra auðhring og segi já takk. Ekki einu sinni Hannibal Valdimarsson, þáv. hv. þm., sem flutti ítarlega og gagnmerka ræðu um þetta mál, sá fyrir þau ósköp sem hér eru að gerast.

Ein merkasta ræðan sem flutt var, herra forseti, í þessum umr. var flutt af hv. formanni Framsfl. Ég trúi að hann hafi þá verið formaður, Eysteinn Jónsson, er það ekki rétt, herra forseti, 1965 eða 1966? (Forseti: Jú.) Forsetinn þekkir betur sögu Framsóknarflokksins en ég, og forsetinn staðfestir að Eysteinn Jónsson hafi þá verið formaður Framsfl. — Hann flutti ítarlega ræðu um þessi mál, sem er ákaflega merkilegt plagg þegar tillit er tekið til þess að Framsfl. og sjálfur varaformaður Framsfl. standa að því að flytja þá eymdartillögu sem hér liggur fyrir. Eysteinn Jónsson talaði langt mál um þetta, sem tekur yfir 25 dálka í Alþingistíðindum, og væri full ástæða til þess, þó það væri ekki nema fyrir hæstv. forseta Sþ., að ég læsi ræðuna hér alla, svo merk er hún. Ekki síst kæmi slíkt til greina þegar ætlunin mun vera að ræða þessi mál hér fram eftir nóttu eða jafnvel fram undir morgun.

Í þessari umr., sem fjallaði um álbræðsluna í Straumsvík, sagði hv. þáv. þm. Eysteinn Jónsson margt mjög athyglisvert. Hann líkti pólitískum andstæðingum sínum í þessu máli við mann sem að vísu fer upp á háan hól til þess að skyggnast um og sjá vítt yfir, en maðurinn er alveg jafnsettur og ef hann hefði reynt að skyggnast um á jafnsléttu, vegna þess að hann er svo nærsýnn að hann sér engu betur í kringum sig þó hann stigi upp á hina hæstu sjónarhóla til að svipast um. Sérstaklega fannst Eysteini Jónssyni að þetta ætti vel við um þá menn sem lögðu til að leggja inn á þessa nýju braut í atvinnumálum Íslendinga í ljósi kreppunnar frá 1930–1940. Þeir reyndu að rökstyðja mál sitt með því, þessir menn, að ef ekki yrði samið við álhringinn í Straumsvík kæmi kreppa. Um þessa menn og talsmenn þeirra sagði Eysteinn Jónsson þetta, með leyfi hæstv. forseta: „En honum [þessum talsmanni] fórst eins og nærsýnum manni, sem fer upp á háan hól, að hann er litlu nær, litlu betur settur en áður“.

Eysteinn Jónsson rifjaði það upp, hvernig brugðist var við vandanum á árunum 1934–1938. Hann spurði: Brugðust menn við því með því að missa kjarkinn og kalla á útlendinga og biðja þá um að taka við atvinnurekstrinum á Íslandi? „Var það þetta sem gert var á þessum árum“, spurði Eysteinn Jónsson, og svaraði: „Nei, það var ekki gripið til þessara úrræða. Það var allt annað, sem gert var. Það var hafin í landinu allsherjar uppbygging nýrra atvinnugreina og hlúð að því, sem fyrir var á vegum Íslendinga sjálfra, — á vegum Íslendinga sjálfra“.

Hér var hann að leggja áherslu á að frammi fyrir vandanum áttu menn þá reisn að þeir sögðu sig ekki á sveit erlendra auðfélaga, heldur tókust þeir á við vandann sjálfir undir forræði Íslendinga ,.á vegum Íslendinga sjálfra“. Og þarna eru skilin. Ræður vanmetakenndin afstöðu manna eða hafa þeir þrótt til þess að taka sjálfstæða afstöðu fyrir hönd þessarar litlu þjóðar eða er það minnimáttarkenndin sem heltekur þessa menn þegar kemur að því verkefni að leysa spurninguna um þjóðlífið í þessu landi.

Eysteinn Jónsson minnti á það 1965, að á kreppuárunum hlupu menn ekki upp í fangið á útlendingum, heldur reyndu þeir að takast á við vandann á íslenskum forsendum, með því að hlúa að því sem fyrir var og með því að byggja upp nýjar atvinnugreinar undir forræði Íslendinga sjálfra. Í þessari ræðu minnti Eysteinn Jónsson á það, að í framhaldi af þessum ákvörðunum og þessum viðbrögðum við kreppunni hófst fiskfrysting hér í landinu í stórum stíl. Á þessum árum var tekin ákvörðun um fyrstu stóru raforkuvirkjunina á Íslandi, Sogsvirkjunina. Hún kostaði á þeim tíma 7 millj. kr., sem var nálega helmingurinn af þeirri fjárhæð sem fjárlög Íslendinga námu þá. Það væri fróðlegt fyrir okkur að bera það saman við fjárlög ríkisins á þessu ári, sem eru 12 milljarðar kr. 6 milljarða hefði þessi virkjun þá kostað á verðlagi ársins 1983, 6 milljarða, og í þetta réðust menn upp úr kreppunni. Frammi fyrir þessum geigvænlegu vandamálum, sem kreppan birti íslensku þjóðinni, risu menn upp og leituðu nýrra leiða. Menn gáfust ekki upp heldur við að sækja fram við það að treysta sjálfstæði íslensku þjóðarinnar því það var skýlaus krafa allra landsmanna á þessum árum þegar harðast svarf að að íslenska þjóðin ætti að sjálfsögðu að sækja fram til fulls og óskoraðs sjálfstæðis. Í ræðu sinni sagði Eysteinn Jónsson m.a. um Sogsvirkjunina, með leyfi hæstv. forseta:

„Við skulum aðeins staldra þarna við, einmitt við Sogsvirkjunina, vegna þess að nú er verið að tala um virkjun. Búrfellsvirkjun án alúmínverksmiðju er miklu minna átak fyrir íslensku þjóðina nú en Sogsvirkjunin var á sinni tíð.“

En þrátt fyrir að þessi staðreynd lægi fyrir að hér var um miklu minna átak að ræða en við Sogsvirkjunina á sinni tíð, þá guggnuðu menn. Þeir treystu sér ekki til þess að ráðast í þessa virkjun, Búrfellsvirkjun, nema með því að leita hófanna hjá hinum erlenda auðhring, og það var þetta sem þáv. formaður Framsóknarflokksins og 1. þm. Austurl. var að mótmæta. Eysteinn Jónsson skýrði þetta með ákaflega athyglisverðum hætti, þ.e. hvers vegna leita menn á náðir útlendinganna, og sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„M.ö.o., það er alveg greinilega sagt og getur ekki misskilist, að ástæðan til þess, að þessir hæstv. ráðh. lenda inn á þessari braut og vefja sig í þessum vanda, sem þeir hafa aldrei getað rifið sig út úr — ástæðan er sú, að þeir eru haldnir minnimáttarkennd, þeir trúa því sjálfir, að það sé ekki hægt að fá lán erlendis til þess að gera Búrfellsvirkjun án þess að hafa alúmínverksmiðjuna með. Þetta er skýringin á öllu þessu, það botnar enginn í þessu, ef hann ekki hefur þetta í huga. Þetta er skýringin á hugsunarhættinum og skýringin á því, hvers vegna í þetta er ráðist.“

Í þessum orðum kemur það fram, að það er grundvallarafstaðan sem hér skiptir máli. Hafa menn trú á því að hér sé hægt að byggja upp atvinnuvegi til þess að vera undirstaða sæmilegra lífskjara hér í þessu landi eða eru menn haldnir minnimáttarkennd gagnvart því verkefni sem það óneitanlega er að halda uppi fullu sjálfstæði íslensku þjóðarinnar.

Eysteinn Jónsson bætti við um þetta undarlega sálarástand, sem einkennir þessa menn enn þann dag í dag: „Því er nú verr og miður, að það er minnimáttarkenndin og vanmatið á möguleikum Íslendinga sjálfra og vanmatið á því, að Íslendingar geti komið sér upp nægilega stórbrotnum atvinnurekstri, sem er grundvöllurinn að því, sem nú er verið að gera.“ — Það er minnimáttarkenndin og vanmatið á möguleikum Íslendinga.

Nú er minnimáttarkenndin komin svo langt að það er farið að flytja till. hér á hv. Alþingi um að löggjafarsamkoman hneigi sig fyrir Alusuisse. Ekki sá sá framsýni maður Eysteinn Jónsson þau ósköp fyrir né heldur spáði hann því, að till. um slíkt yrði flutt með atbeina Framsóknarflokksins, og það af varaformanni Framsfl. Ekki sá hann það heldur fyrir að hæstv. forseti Sþ., þá nótt sem þessi till. er rædd, yrði úr Framsfl. Það var svo sem ekki von heldur að maðurinn sæi þessi ósköp fyrir sér.

Svo langt gengu menn í umr. um álverið á sínum tíma, að þeir héldu því fram að allar gagnrýnisraddir andstæðinga álbræðslunnar væru hrein vitleysa og væri gersamlega ástæðulaust að hlusta á þær. T.d. var fróðlegt að sjá hvernig flm. till. um álverið lofuðu gerðardóminn sem á að kveða upp úr úrskurði varðandi deilumál sem upp kunna að koma samkv. álsamningnum. M.a. var því haldið fram í þessum umr., svo kostulegt sem það nú er og fróðlegt til upprifjunar nú, að í rauninni væri þessi gerðardómur útlendinga alls ekki svo slæmur og það væri gott fyrirkomulag að hafa þannig lagaðan gerðardóm. Það var gengið svo langt að fullyrða að hann væri betri en íslenskir dómstólar. Ef eitthvað væri hann snöggt um skárri. Þessi yfirlýsing vakti mjög mikla athygli á Alþingi á þeim tíma og hvatti menn til mótmæla, sérstaklega vegna þess að á Alþingi sátu þá menn sem höfðu barist fyrir því sjálfir að koma dómsvaldinu inn í landið. Eysteinn Jónsson gerði þetta mál að sérstöku umræðuefni og sagði: „[Hæstv. dómsmrh.] hélt fram þeirri nýstárlegu kenningu, að gerðardómur af þessu tagi gæti verið betri en íslenskir dómstólar. Til hvers höfum við þá verið að berjast fyrir því að fá dómstóla inn í landið og fá sjálfstætt dómsvald? Er það ekki einmitt höfuðeinkenni á sjálfstæðu ríki að hafa sjálfstætt dómsvald? En nú heyrir maður dómsmrh. landsins segja, að gerðardómar erlendis geti verið betri en íslenskir dómstólar til þess að fjalla um málefni fyrirtækis á Íslandi, sem á að heita íslenskt fyrirtæki, a.m.k. að vera skrásett íslenskt fyrirtæki. Það kalla ég heldur nýstárlegt,“ hélt þm. áfram, „og ég held, að ég hafi heldur ekki misskilið það, að hann hafi sagt, að þessi uppástunga um það að hafa erlendan gerðardóm í stað þess að fyrirtækið kæmi undir íslenska lögsögu, að þessi uppástunga hafi komið frá íslenskri hlið.“

Ég vil vekja athygli á þessu atriði, að það er talið í þessum umr. um álbræðsluna í Straumsvík og því er ekki mótmælt sérstaklega, að hugmyndin um útlendan dómstól til að skera úr um ágreiningsefni hafi komið frá íslensku samninganefndinni. Þetta finnst mér vera fróðlegt atriði, eins og allt það sem kemur fram í þeirri ræðu sem Eysteinn Jónsson flutti og eins og ég gat um áðan tekur yfir 25 dálka í Alþingistíðindum. Væri vissulega ástæða til þess að rekja þessa ræðu miklu ítarlegar vegna þess að Framsfl. hefur nú látið snara sig í þessar álviðjar með því að flytja þá till. sem hér liggur fyrir undir forustu hv. 6. þm. Suðurl., Eggerts Haukdals.

Í umr. um álbræðsluna í Straumsvík var eðlilega komið nokkuð víða við og m.a. var fjallað um tilraunir manna á fyrri árum til þess að fá útlendinga hér inn í atvinnulífið í landinu. Það var m.a. minnt á það, að árið 1927 í febr. var lagt fram stjfrv. fyrir Alþingi frá þáv. ríkisstjórn Jóns Þorlákssonar og Magnúsar Guðmundssonar um sérleyfi til handa Títan, erlendu félagi, til þess að fá að leggja járnbraut frá Þjórsá til Reykjavíkur, til þess að fá að virkja Urriðafoss, 160 þús. hestöfl, og til þess að koma upp verksmiðju til saltpétursvinnslu eða annarrar áburðarvinnslu í Skildinganesi. Um afstöðuna til þessarar till., til þessa stjfrv. ríkisstjórnar Jóns Þorlákssonar, skiptust menn. Í frv. var gert ráð fyrir því, að gerður yrði samningur við Títanfélagið til ársins 1997 eða til 70 ára. Það var ríkisstjórnin sjálf sem lagði þetta frv. fyrir 1927, stjórn gamla Íhaldsflokksins, og þetta frv. var svo að lokum samþykkt í heild á þinginu.

Í deilunni um þetta mál, sem var mjög hörð á Alþingi, tóku margir til máls. Meðal þeirra sem gagnrýndu samninginn var einn þm. sem þó tilheyrði ríkisstjórnarliðinu sem þá var. Það var Ólafur Thors, þá nýlega kominn inn á Alþingi. Hann sagði þá m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég er þess nefnilega fullviss“, sagði Ólafur Thors, „að ef erlent fjármagn tekur til starfa hér á landi í svo ríkum mæli, mundi sjálfstæði voru stafa af því veruleg hætta, enda bendir reynsla annarra smáþjóða til þess. Við Íslendingar höfum nokkra reynslu í þessum efnum, þó að hún sé að vísu eigi alveg hliðstæð, þar sem er fiskveiðilöggjöf vor og landhelgislöggjöf. Vér höfum þráfaldlega rekið oss á það, að í hvert skipti sem oss þykir æskilegt að gera einhverjar breytingar á þessum lögum hafa útlendingar risið upp og mótmælt, aðeins vegna þess að þeir eiga hér nokkurra hagsmuna að gæta á þeim sviðum. Það er nú ljóst“, hélt hv. þm. áfram,“ að þeim mun víðtækari sem starfsemi þeirra verður hér á landi, þeim mun oftar munu þeir þykjast þurfa að hafa afskipti af löggjöf vorri og þeim mun tíðara mun það verða að sjálfsákvörðunarréttur vor mun hindraður sakir hagsmuna útlendinga. M.a. í þessu liggur stórvægileg hætta“, sagði þessi þm.

Hvaða flokki tilheyra þeir menn nú á Alþingi Íslendinga sem mundu láta sér þessi orð um munn fara? Sjálfstfl., flokki Ólafs Thors? Svarið er nei. Það er löngu liðin tíð að menn tali svona í þeim flokki.

Alþfl.? Svarið er nei. Um það þarf ekki að ræða mikið hér.

Framsfl.? Þeir voru til til skamms tíma, kannske enn, sem gætu látið sér svona orð um munn fara. En þeir eru fáir og það er langt frá orðum til athafna, orðum af þessu tagi sem ég var að vitna í hér, — ekki frá alræmdum kommúnistaleiðtoga af einu eða neinu tagi, heldur frá Ólafi Thors. Það er langt frá þeim orðum yfir til þeirra athafna að leggja fram till. til þál. um viðræðunefnd við Alusuisse undir forustu hv. þm. Eggerts Haukdals.

Ég er þess nefnilega fullviss,“ sagði Ólafur Thors, „að ef erlent fjármagn tekur til starfa hér á landi í svo ríkum mæli, mundi sjálfstæði voru stafa af því veruleg hætta, enda bendir reynsla annarra smáþjóða til þess.“

Hér eru mælt orð af framsýni og hyggjuviti. Hér talaði foringi atvinnurekendaauðvaldsins á Íslandi árið 1927. Og svo mikið er víst, að hann var þá framsýnni en þeir þm. Framsfl. sem nú standa að því að flytja þessa till. hér á þskj. 467.

Framsfl. hefði í dag mátt vera stoltur af því að eiga í sínum röðum mann sem mælti slík orð. Og hefði hv. þm. Halldór Ásgrímsson, sem nú er genginn til náða trúi ég, lagt í það að koma í ræðustólinn, þá hefði hann því miður ekki talað eins og Ólafur Thors gerði árið 1927. Svona líður tíminn, bæði fyrir mennina og þjóðina alla og fyrir Framsfl.

En hann bætti við, þessi síðar formaður Sjálfstfl., leiðtogi Kveldúlfsauðvaldsins hér í landinu, þegar hann sagði:

„Ég vil enn fremur benda á, að erlendur atvinnurekstur mun ávallt verða stopull fyrir þjóðfélagið. Erlendir menn hugsa fyrst og fremst um sinn hag, en þeir, sem grónir eru upp með þjóðinni, munu að vonum taka miklu meira tillit til hagsmuna hennar heldur en útlendingar.“

Hér er komið að tilteknu grundvallaratriði, sem skiptir ákaflega miklu máli að við ræðum ítarlega. Það er það, hver er munurinn á erlendu auðvaldi annars vegar og fyrirtækjum á vegum þess og innlendu auðvaldi hins vegar og fyrirtækjum á vegum þess. Íslensk verkalýðsstétt hefur alltaf lagt á það áherslu að hún vildi fremur slást við hið íslenska atvinnurekendavald en útlenda útsendara af einhverjum toga. Þess vegna hefur íslensk verkalýðsstétt borið gæfu til þess að tengja saman í allri baráttu sinni kröfuna um sjálfstæði íslensku þjóðarinnar annars vegar og hins vegar kröfuna um jafnrétti og stéttlaust þjóðfélag. Þessi grundvallaratriði eru þannig, að um tíma náðu menn saman um það af hálfu verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og af hálfu atvinnurekendastéttarinnar hins vegar að mynda bandalag um að treysta og efla íslenska framleiðsluatvinnuvegi. Hér var um að ræða ákaflega þýðingarmikið átak og við skulum muna að á þeim grundvelli er það talað sem hér er vitnað í frá Ólafi Thors, fyrrverandi formanni Sjálfstfl. og þá leiðtoga Kveldúlfs og atvinnurekendaauðvaldsins. Það var þessi skilningur sem gerði það kleift að byggja upp íslenska atvinnuvegi með þeim hætti sem gert var í nýsköpunarstjórninni á sínum tíma. Þessi skilningur hefur hins vegar ekki verið til staðar hjá forustuöflum íslenskra atvinnurekenda á síðustu árum, því miður. Þeir hafa kosið að ganga í verkin fyrir aðra og taka meira mið af hagsmunum bandaríska hersins og Atlantshafsbandalagsins hér á Íslandi en af hagsmunum íslenskrar alþýðu og af uppbyggingu íslenskra atvinnuvega.

Þegar atkvæði voru greidd um leyfið handa Títanfélaginu í ársbyrjun 1927, þá gerðist það, að meðal þeirra sem greiddu atkvæði á móti sérleyfinu handa þessu útlenda auðfélagi til 70 ára, það var frá 1927 til 1997, þeir menn sem greiddu atkvæði á móti voru t.d. Ólafur Thors, Héðinn Valdimarsson, þá líklega formaður Dagsbrúnar, seinna formaður Sósíalistaflokksins og einn af leiðtogum Alþfl., Tryggvi Þórhallsson leiðtogi Framsfl. og Bændaflokksins og Benedikt Sveinsson, einn mesti þingskörungur sem við höfum átt. Þessir fjórir menn, Ólafur Thors, Héðinn Valdimarsson, Tryggvi Þórhallsson og Benedikt Sveinsson, sameinuðust um það þrátt fyrir reginmun í pólitískum skoðunum að greiða atkvæði á móti þessu sérleyfi handa útlenda auðfélaginu.

Býð ég nú velkominn í salinn hv. þm. Friðrik Sophusson, (FrS: Þakka þér fyrir vinur.) sem vakti þessa umr. þeirra álbaróna hér í dag.

Árið 1927 taldi Ólafur Thors að það væri ástæða til að bregðast þannig við — og af því að hv. þm. Friðrik Sophusson er genginn í salinn og af því að ég veit að hann hefði gott af því að hlusta á nokkur orð frá Ólafi Thors ætla ég að lesa fyrir hann, með leyfi hæstv. forseta, nokkrar setningar frá árinu 1927:

„Ég er þess nefnilega fullviss,“ sagði Ólafur Thors,“ að ef erlent fjármagn tekur til starfa hér á landi í svo ríkum mæli, mundi sjálfstæði voru stafa af því veruleg hætta, enda bendir reynsla annarra smáþjóða til þess. Það er nú ljóst að þeim mun víðtækari, sem starfsemi þeirra verður hér á landi, þeim mun oftar munu þeir þykjast þurfa að hafa afskipti af löggjöf vorri og þeim mun tíðara mun það verða, að sjálfsákvörðunarréttur vor mun hindraður sakir hagsmuna útlendinga. M.a. í þessu liggur stórvægileg hætta.“

Ekki minnist ég þess, herra forseti, þegar hv. þm. Friðrik Sophusson ræddi hér um þetta mál í dag, að hann hafi varað við þeirri hættu sem sjálfstæði landsins og þjóðarinnar stafar af erlendu fjármagni í stórum stíl í okkar atvinnulífi. Ég held nefnilega að því miður hafi þau dapurlegu tíðindi gerst að Sjálfstfl., sem einu sinni átti talsmenn íslenskra framleiðsluatvinnuvega, sé nú svo heillum horfinn að hann láti sér ekki detta það í hug — einn einasti af forustumönnum hans — að það geti stafað af því hætta að binda trúss sitt hér við allt of marga útlendinga. Svona hefur Sjálfstfl. breyst. Það er tangur vegur frá þessum orðum Ólafs Thors árið 1927 til framsöguræðu Friðriks Sophussonar, hv. þm., árið 1983. Það eru mörg ár og óravegur í viðhorfum og sjónarmiðum öllum.

Ég held að í rauninni sé það þannig, að verulegur hluti af forustumönnum Sjálfstfl. núna sé þeirrar skoðunar, að það eigi að leggja allt kapp á að kalla útlendinga hér inn í landið með atvinnurekstur, og ég hef aldrei heyrt, og er búinn að fylgjast vel með umr. á Alþingi í mörg ár, frá einum einasta talsmanni Sjálfstfl. svo mikið sem eitt varnaðarorð gagnvart því að of miklum umsvifum útlendinga hér í landinu gæti fylgt hætta fyrir sjálfstæði íslensku þjóðarinnar. Það hefur enginn, ég endurtek enginn, af núverandi talsmönnum Sjálfstfl. nokkurn tíma látið sér detta í hug að vara við þessari hættu. (AG: Hvaða hættu segir þú?) Í þeim gjörvöllum blaðakosti, sem Morgunblaðið sendir frá sér og Dagblaðið á hverjum degi, hefur aldrei fundist eitt orð sem gæti tekið undir með Benedikt Sveinssyni árið 1927 — og gekk nú úr salnum sá maður sem helst hefði mátt hlýða á orð Benedikts Sveinssonar, þ.e. Halldór Blöndal.

Þessi alvarlega staðreynd segir okkur býsna mikið um Sjálfstfl. og grundvallarbreytingu á eðli Sjálfstfl. Sjálfstfl. er ekki lengur forustuflokkur fyrir íslenska framleiðendur, Sjálfstfl. er með forustulið sem þá fyrst vaknar til lífsins þegar það þarf að tala fyrir Alusuisse eða Ameríkanann. Þá taka þeir við sér. Þá kemur í ljós að þeir eru á varðbergi. Þessi grundvallarbreyting hefur átt sér stað á Sjálfstfl. á liðnum áratugum. Þessi ægilega staðreynd um stærsta stjórnmálaflokk landsins má gjarnan vera okkur föst í huga.

1966, þegar menn ræddu um álbræðsluna í Straumsvík, komu fram frá talsmönnum Sjálfstfl., sérstaklega frá Bjarna Benediktssyni, vissar áhyggjur yfir því hvað síðar kynni að verða með þetta stóra fyrirtæki álverið í Straumsvík. Hann benti á þá hættu, sem af því gæti út af fyrir sig skapast, og sagði þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Við fáum vald á þeim, ekki síður en þeir á okkur, og við getum tekið þá eignarnámi, ef þjóðinni býður svo við að horfa.“

1966 sagði Bjarni Benediktsson að það geti komið til greina að taka álverið eignarnámi ef þjóðinni býður svo við að horfa. Hverjir ætli það séu núna í landinu sem nefna þann möguleika að álverið verði tekið eignarnámi? Það er a.m.k. ekki hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson. Hann hefur ekki mikið rætt það núna að undanförnu. Hann vill setja upp eins konar sjálfsafgreiðslu á kröfum Alusuisse hér í landinu, einskonar „automat“. (GGÞ: Hvaða, þú átt að halda þér við samningana. ) Hv. þm. getur beðið hér um orðið. Mælendaskrá er væntanlega opin ennþá. - Hann vill setja upp einskonar sjálfsafgreiðslu handa Alusuisse hér í landinu, „automat“ handa þeim. En Bjarni Benediktsson benti á þennan möguleika, að ef þjóðinni býður svo við að horfa getur hún ákveðið að taka álverið eignarnámi.

Í þeim umr. sem þá fóru fram komst Einar Olgeirsson þáverandi þm. Reykv. og formaður Sósíalistaflokksins svo að orði, með leyfi hæstv. forseta, þegar hann svaraði þessum ábendingum Bjarna Benediktssonar: „En það, sem fyrir mér vakir, og það, sem veldur mér áhyggjum í þessu sambandi, er þetta: Er öruggt, að við, þótt við tveir hefðum þessa sömu hugsun, hæstv. forsrh. og ég, er öruggt að við gætum eða þeir, sem tækju við af okkur eftir 10–20 ár, gætu þá ráðið við hlutina, þó að okkur finnist báðum, að við gætum ráðið við þetta í dag? Ég býst við, að það sé alveg rétt hugsað hjá hæstv. forsrh. Með þeim hugsunarhætti, sem nú ríkir á Alþingi“, hélt Einar Olgeirsson áfram, „hjá öllum flokkum, mundum við, ef við t.d. á næstu 4–5 árum sæjum, að við hefðum misreiknað okkur, mundum við geta breytt þessu. En getum við breytt þessu eftir 10–20 ár?“ — Það eru akkúrat þau 10–20 ár sem nú eru liðin. Það eru 15–16 ár síðan þessir samningar voru ræddir. „Hæstv. forsrh. hefur auðsjáanlega brotið heilann um þetta, því að hann kemur með þær röksemdir, að það sé nú ekki svona hættulegt vald þessa fyrirtækis, eins og ég vildi vera láta. Hann segir: Það eru mörg fyrirtæki hér, sem hafa fleiri aðila í sinni þjónustu: Samband ísl. samvinnufélaga hefur 1300 manns, Loftleiðir hafa yfir 500, Eimskip 700, Flugfélagið hefur 300, en vald þessara fyrirtækja liggur ekki í fjölda þeirra starfsmanna, vegna þess að með því atvinnuástandi, sem nú er, geta þessi fyrirtæki ekki haft það vald, sem þau hefðu haft á atvinnuleysistímum í sambandi við það að hafa svona marga starfsmenn og veita svona mikla vinnu. Vald þess fyrirtækis, sem nú á að koma inn í landið, þ.e. Swiss Aluminium, liggur í auði þeirra og þar með auði, sem er óháður íslenska ríkinu, óháður íslenskum ríkisbönkum. Þrjú af þeim fyrirtækjum, sem hæstv. forsrh. talaði um, Samband ísl. samvinnufélaga, Eimskipafélag Íslands og Flugfélag Íslands, öll þessi þrjú fyrirtæki,“ hélt þm. áfram, „eru mjög háð íslenskum ríkisbönkum, öll þessi fyrirtæki verða að sækja mjög mikið til þeirra, þannig að ríkisstj. getur á hverjum tíma, ef þessi fyrirtæki ætluðu að reisa sig, þannig að mönnum fyndist það of mikið, haft mjög mikinn hemil á þeim. Við erum að fá alveg nýja aðila. Við erum að fá einhvers konar risa til viðureignar í samanburði við þá svona tiltölulega jafnréttháu aðila frá sjónarmiði t.d. ríkisins, sem við höfum fengist við fram að þessu. Valdið, sem það fyrirtæki hefur, þessi svissneski auðhringur, er þess vegna allt, allt annars eðlis heldur en allra þeirra fyrirtækja, sem við höfum haft hérna á Íslandi. Og þegar þetta fyrirtæki,“ sagði Einar Olgeirsson, „færi svo, m.a. vegna þess, að það les vafalaust það, sem við segjum hér, bæði hæstv. forsrh. og ég, og ekki síst með mikilli athygli, hvað hann segir, þegar það jafnvel heyrir minnst á það strax og þetta ber á góma, að jafnvel hæstv. forsrh. detti í hug eignarnám, er gefið að svona fyrirtæki“, takið eftir, „er gefið, að svona fyrirtæki byrjar að setja sig í varnarstellingar frá upphafi vega og byrjar að skapa sér sinn varnarvegg í íslenskum stjórnmálum, í íslenskum blöðum og í íslenskum flokkum.“

Það er þetta sem við horfum upp á á þessari nóttu: að Alusuisse hefur tekist á þessum 15 árum að skapa sér þann varnarvegg í íslenskum stjórnmálaflokkum, í íslenskum blöðum, sem Einar Olgeirsson var að vara við árið 1966. Og ég man það vel, að þegar Einar Olgeirsson mælti þessi orð það ár — vegna þess að þá starfaði ég sem þingfréttaritari Þjóðviljans hér á Alþingi — voru varnaðarorð Einars Olgeirssonar talin bera vitni um ofstæki og ekkert annað en ofstæki, þau væru markleysa, þau væru rugl, engin ástæða til að hlusta á þau.

En hvað hefur gerst? Hann hefur því miður orðið sannspár. Alusuisse hefur eignast hér varnarlið í íslenskum stjórnmálaflokkum. Það er þessi sorglega staðreynd sem við stöndum frammi fyrir á þessari nóttu, þegar við ræðum till. um að löggjafarsamkoman á Íslandi hneigi sig fyrir Sviss Aluminium.

Í ræðu sinni sagði Einar Olgeirsson ennfremur: „Þegar við erum að ræða um þetta fyrirtæki, erum við að deila um það, hvort við eigum að fá erlenda stóriðju inn í landið eða íslenska stóriðju. Við getum vel og höfum vel efni á að koma okkur upp íslenskri stóriðju, meira að segja þó að hún væri eins stórfelld og það, sem þetta alúminiumfyrirtæki vill fara fram á. Við erum nógu ríkir til þess, Íslendingar, þannig að deilan stendur ekki um, hvort menn vilji núna tæknilegar framfarir, hvort menn vilji það stórkostlegar framfarir meira að segja, að við reistum alúminiumverksmiðju eða einhverja verksmiðju, sem vinnur úr útlendu hráefni. Deilan stendur um, hvort það ætti að vera íslenskt eða útlent, hvort það ætti að vera íslenskt vald, sem þarna er um að ræða, kannske sambland af ríkisrekstri eða einstaklingsrekstri, eða hvernig sem við vildum hafa það, en í öllu falli íslenskt, eða hvort það á að vera útlent með alls konar sérréttindum.“

Það er um þetta sem er barist. Það er um þetta sem var barist 1965. Það er þetta sem barist er um núna. Það er um þetta sem var barist í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Einar Olgeirsson benti síðan á þau áhrif sem þessi auðhringur mundi hafa á kraftahlutföllin, eins og hann kallaði það, á Íslandi, og sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Svissneski auðhringurinn gerbreytir kraftahlutföllunum hér á Íslandi, ekki aðeins á milli atvinnurekendastéttarinnar og verkalýðsstéttarinnar, heldur líka kraftahlutföllunum innan borgarastéttarinnar sjálfrar, kraftahlutföllunum á milli t.d. sjávarútvegsins annars vegar eða þeirra, sem honum stjórna, og þess hins vegar, sem erlendis mundi nú vera kallað fjármálaauðvald.“

Það er einmitt þetta sem hefur gerst. Kraftahlutföllin hafa breyst, ekki bara á milli launamanna annars vegar og fyrirtækja eigenda hins vegar, heldur innan þeirra atvinnuvega sem hér eru í landinu. Það eru kraftahlutföllin á milli framleiðslugreinanna annars vegar og erlends auðvalds hins vegar. Þetta grundvallaratriði var bent á og líka það, hvaða áhrif þetta hefur haft á Sjálfstfl. Það hefur breytt honum. Hann er hættur að kveðja sér hér hljóðs sem helsti málafylgjuflokkur framleiðsluatvinnuveganna í landinu. Hann kveður sér helst hljóðs hér og af mestum þrótti þegar þarf að taka upp hanskann fyrir Alusuisse. Þá lifnar nú heldur betur yfir þeim sem annars sitja dauðir og daufir, segi ég, í þessum stólum hér. (FrS: Jæja.) Það er von að hv. þm. Friðrik Sophusson segi jæja. Það er kominn tími til að hann sendi frá sér hljóð, annað en þá ræðu sem hann flutti í kvöld eða dag. Og ástæðan til þess að hann segir jæja er að sjálfsögðu sú, að hann finnur sárlega fyrir þeirri auðn og flatneskju sem núv. forusta Sjálfstfl. er, miðað við þá reisn sem stundum einkenndi þann flokk fyrr á öldinni. Þvílíkur munur! Það er skelfilegt að hugsa til þess, að á hálfri öld skuli þróunin hafa leikið þennan flokk jafngrátt og birtist í samanburði á þeim leiðtogum Sjálfstfl. sem ég hef vitnað til hér í nótt annars vegar og hins vegar á þeim sem leiða þann flokk nú.

Þegar umr. um álbræðsluna við Straumsvík fór fram á sínum tíma gerðu stjórnarandstöðuflokkarnir þáverandi kröfu um að það færi fram þjóðaratkvgr. um málið áður en þetta yrði samþykkt. Alþb. lagði til að frv. um staðfestingu á samningunum um álbræðsluna í Straumsvík yrði fellt, en til vara var flutt sú till. frá Alþb. og öðrum stjórnarandstæðingum að þetta frv. færi til þjóðaratkvæðis. Þá voru þeir samferða, vinir lýðræðisins, sem kalla sig svo og hafa stofnað félög um það hérna á liðnum áratugum vegna þess að þeir séu einu mennirnir sem vilji viðhalda lýðræði í landinu. Þeir hafa skreytt sig með því löngum og haldið um það langar ræður, en höfnuðu þessari kröfu, Sjálfstfl. og Alþfl., með knöppum þingmeirihluta, höfnuðu þessari kröfu. Þó var verið að taka hér inn í landið erlent auðvald. Það var verið að stíga skref sem markaði stefnubreytingu í atvinnusögu íslensku þjóðarinnar, sem þá hafði öðlast sjálfstæði yfir málum sínum öllum fyrir aðeins 22 árum. Það voru margir sem þá mundu eftir útlendum fyrirtækjum sem höfðu verið hér í landinu og blöskraði þessi framkoma forustumanna Sjálfstfl. og Alþfl. Engu að síður var kröfunni um þjóðaratkvæði hafnað og við skulum muna það, þegar við ræðum um þennan smánarsamning, sem var gerður þarna um árið, fyrir 15–16 árum, að því var neitað að leggja hann undir lýðræðislegan dóm þjóðarinnar, og það var vegna þess að þeir sem fluttu samninginn og keyrðu hann í gegnum þingið með ofbeldi vissu að þeir mundu verða í bullandi minni hluta meðal landsmanna. Alusuisse gerði sér auðvitað grein fyrir þessu líka og það var þess vegna sem Alusuisse tók ákvörðun um að mynda varnarvegg á Íslandi fyrir hagsmuni sína, eins konar álvegg, sem væri með þeim hætti að hann skýldi þeim fyrir árásum og gagnrýni. Þessi álveggur er nú myndaður úr þessari þáltill. á þskj. 467, sem flutt er af Eggert Haukdal og félögum fyrir löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Það var neitað um að bera málið undir þjóðina af því að þeir þorðu ekki að fara með málið fyrir þjóðina. Þeir vissu að hún mundi hafna því. Það er ekki nýtt að þeir hafi borið sig þannig að. Þannig var það þegar það var kallað á þjóðaratkv. hér af Austurvelli árið 1949. Þá var því að sjálfsögðu neitað af þessum vinum lýðræðisins, sem skreyta sig með því nafni helst hér á landi.

Hvernig stóð á því árið 1962 og 1963, að jafnágætir menn og margir þeirra voru, sem fóru fyrir málum þjóðar okkar þá, skyldu telja að það væri rétt að selja orkuna til áratuga við sem allra lægstu verði? Ekki var það af mannvonsku, ekki var það af því að þessir menn vildu beinlínis koma illa við heildarhag og framtíðarhagsmuni Íslendinga. Nei, það var ekki það. Það var ekki það sem þessu olli, heldur það, að þeir töldu að raforkan frá vatnsaflsvirkjununum væri að verða ónýt, eins konar rusl.

Jóhannes Nordal seðlabankastjóri lýsti því yfir á mjög greinilegan og ótvíræðan hátt strax snemma á árinu 1962, þegar hann var á ferðalagi erlendis til þess að ræða við erlenda aðila um að hefja rekstur útlendinga hér á landi, að Íslendingar þyrftu að losna við sem mesta orku. Hér á landi væri mikil orka föl við mjög lágu verði. Jónas Haralz, sem var þá einn helsti efnahagsráðgjafi ríkisstj. var þessarar skoðunar líka. Hann taldi að kjarnorkan mundi innan skamms leysa vatnsaflsvirkjanirnar af hólmi og þess vegna væri nauðsynlegt fyrir Íslendinga að drífa þetta allt saman út sem allra fyrst, jafnvel þótt það væri fyrir spottprís. Það var þá sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, — sem er nú sennilega farinn að sofa eins og flestir aðrir vinir álverksmiðjunnar sýnist mér, hafa lagt sig blessaðir, — skrifaði greinarnar og hélt ræðuna um að hérna þyrftu að vera ekki bara ein eða tvær álverksmiðjur, ekki þrjár, ekki fjórar, ekki ein í kjördæmi, — 20 stykki áttu það að vera. 20 álverksmiðjur, það var framtíðarsýnin, spúandi drekar allt í kringum landið. Það var það sem átti að bjarga Íslandi þá, 20 álverksmiðjur!

Við erum hér að ræða um eina. Við erum hér að ræða um eina slíka og við erum að ræða um hvernig hún hefur komið fram við Íslendinga í sambandi við verðlagningu á súráli og rafskautum á liðnum árum. En það var ekki ein. Það voru 20 fabrikkur. Það hefði orðið lítið, er ég hræddur um, úr efnahagslegu sjálfstæði og forræði íslensku þjóðarinnar, ef þessir framtíðardraumar íhaldsins hefðu fengið að rætast. Og af hverju fengu þeir ekki að rætast? Þeir fengu ekki að rætast vegna þess að stjórnarandstaðan, sem þá var í landinu, var það sterk og öflug að hún gat fylkt þjóðinni til sigurs og samstöðu gegn þessari stefnu, svoleiðis að íhaldið þorði ekki lengra, og hafði kratana með sér eins og fyrri daginn, þorði ekki lengra, þannig að það varð ein verksmiðja.

Nú hefur það hins vegar gerst, að á þskj. 467 hefur nýr flokkur slegist í hóp álflokkanna tveggja, þriðji álflokkurinn, Framsfl. Getur það verið fyrirboði þess að þessi stefna, sem var boðuð fyrir 15–16 árum, verði framkvæmd hér á landi? Er hætta á því, raunveruleg hætta á því, að slíkt gerist? Ég bið ykkur að hugsa það alvarlega: Er það virkilega til í dæminu að hér sé Alusuisse blýið að koma sér upp þeirri varnarsveit og sóknarsveit, að það sé hugsanlegt að það sé jafnvel verulegur hluti á Alþingi Íslendinga sem er tilbúinn að segja: Verksmiðjan skal ekki vera ein, heldur skulu þær hugsanlega vera tvær, og hugsanlega vera þrjár og fjórar í eigu útlendinga eða jafnvel 20. (Gripið fram í.) Er þm. þreyttur? (Gripið fram í: Mér heyrist ráðh. vera farinn að rugla.) Er hv. þm. orðinn lúinn? Vill hann fara heim? Ég er viss um að hæstv. forseti veitir honum heimferðarleyfi.

Hæstv. forseti er almennilegur við flokksbræður sína, sem hefðu þurft að vera hér í kvöld til að tala fyrir máli sínu, eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson, en hann er núna farinn heim að lúra og ég er viss um, að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson getur líka fengið heimferðarleyfi. En það er annars merkilegt með hann, að í hvert skipti sem ég vík að álverinu, Alusuisse og Framsfl., þá hrekkur hann í einhvern undarlegan baklás með frammíköllum og látum, þessi annars friðsami og prúði maður. Það er nokkuð sérkennilegt að það er eins og það sé komið við hjartað í honum, taugarnar. Vonandi á hann góðar og ærlegar taugar og það eru þær sem svara þegar bankað er, og það er vel að það skuli enn vera til í þessum hv. þm.

Hér, herra forseti, hef ég rakið í fáeinum orðum eitt og annað sem kom fram á Alþingi Íslendinga þegar umr. fóru fram um álverið á sínum tíma. Ég hef sýnt fram á að Eysteinn Jónsson og Einar Olgeirsson vöruðu við hinum miklu hættum sem gætu verið af því að innleiða erlent auðmagn hér í atvinnulíf Íslendinga og ég benti á hvernig Bjarni Benediktsson, þáv. forsrh., vísaði til þess að þrátt fyrir allt ætti þjóðin þann möguleika að taka þetta fyrirtæki eignarnámi, ef hún vildi.

En ég vil einnig víkja nokkuð að annarri hlið þessa máls, sem kom fram í umr. árið 1966. Það er mengunarþátturinn frá álverinu í Straumsvík. Ég minnist þess ákaflega vel, að þegar umr. fóru fram um álverið voru aðaláhersluatriðin þau, að raforkuverðið væri mjög óhagstætt. Það viðurkenna allir nú orðið, líka Sjálfstfl. Hann viðurkennir nú orðið að það hafi verið afglöp sem þeir gerðu þá í raforkumálunum, þannig að það eru allir sammála um það nú orðið. En önnur atriði til gagnrýni á þessum álsamningi heyrðust í sjálfu sér ekki eins vel og það er nokkuð athyglisvert að umræðan um mengunina frá álverinu var mjög lítil. Og ég man eftir því, að það er ekki lengra síðan en 1966 að orðið „mengun“ þótti vera svo kostulegt hér í sölum Alþingis að menn settu á langar ræður um hvernig best væri að nefna þau ósköp sem á bak við það orð leynast.

Einn af þeim þm. sem vaskast gekk fram í því að ræða um mengunina var Alfreð Gíslason læknir. Alfreð átti þá sæti í Ed. og hann fór mjög rækilega yfir þessi mál varðandi mengun frá álverinu og hann gagnrýndi mjög harðlega að ekki væri gerð tilraun til þess í samningum að tryggja hreinsun og uppsetningu hreinsitækja þar. Í ræðu sinni sagði hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég bendi á, að hér er um stórt heilbrigðismál að ræða og kannske miklu stærra en okkur órar fyrir í dag. Það er alkunna, að mengun andrúmsloftsins í þéttbýli nútímans er vaxandi vandamál. Við getum allt eins búist við því að hér sé á ferðinni stórfellt heilbrigðislegt vandamál, sem krefst þess að við verðum varkárari gagnvart aðila eins og Alusuisse.“

Alfreð var þá og er enn starfandi læknir í Reykjavík og því sérfræðingur á þessu sviði. Hvernig tóku menn aðvörunarorðum þessa læknis? Tóku menn undir aðvörunarorð hans og sögðu sem svo, að þeir mundu reyna að leggja sig fram um að mengun frá verksmiðjunni yrði sem minnst, það yrði reynt að koma þar upp mengunarvörnum? Greindu þeir frá því að þeir hefðu í bígerð að krefjast þess að sett yrðu hreinsitæki á þessa verksmiðju? Nei, það var nú eitthvað annað. Þessum orðum Alfreðs Gíslasonar, aðvörunarorðum hans, var tekið af fádæma skilningsleyfi og hroka í umr. í þinginu. Það var sagt: Ég lýsi stórkostlegri undrun minni, sagði einn talsmaður álsamningsins, á því hvernig þm. talar. Og ég hef „sjaldan heyrt sérfræðinga, eins og þessi hv. þm. er sem læknir, tala eins gáleysislega og hann gerði. .. Hér eiga Hafnfirðingar að detta niður í tugum og hundraðatali steindauðir áður en varir, og röðin kemur að Reykvíkingum næst“.

Svona var afgreiðsla viðreisnarleiðtoganna á aðvörunarorðum Alfreðs Gíslasonar læknis vegna mengunarinnar frá álverinu í Straumsvík. Það var ekki verið að taka undir það, að það gæti nú kannske verið einhver hætta frá þessari fabrikku. Það var ekki nokkur vottur af sanngirni af slíkum toga og þetta var afgreitt með skætingi og sagt: „Hér eiga Hafnfirðingar að detta niður í tugum og hundraðatali steindauðir áður en varir, og röðin kemur að Reykvíkingum næst.“ Það var talin þvílík fjarstæða að gera kröfur um mengunarvarnir í Straumsvík að engir nema ofstækismenn af versta toga, sem vildu eyðileggja lýðræðið í landinu, gætu látið sér detta annað eins í hug.

Ég man þegar þessi umr. stóð sem hæst., m.a. í okkar blaði Þjóðviljanum. Þá kom það fram að þeir vísindamenn sem vildu vara við hættunni frá álverinu áttu hvergi inni — fengu hvergi inni fyrir sín aðvörunarorð nema í Þjóðviljanum. Þeim var neitað um birtingu á aðvörunargreinum sínum í öðrum blöðum, Morgunblaðinu, blaði allra landsmanna, Vísi, Alþýðublaðinu. Það mátti ekki nefna hugsanlega mengun frá þessu fyrirtæki. Þeir vísindamenn sem beittu sér fyrir því að ræða um mengunina frá álverinu í Straumsvík voru hundeltir. Það var ekki nóg með að það væri reynt að frysta það sem þeir höfðu að segja, loka það inni, heldur voru þeir hundeltir og taldir tortryggilegir útsendarar heimskommúnismans. Svona menn gætu í raun og veru ekki verið á vegum neinna annarra en þess sem kallað hefur verið heimskommúnismi hér í þessu landi þegar borgarastéttin verður algerlega rökþrota og veit ekkert hvað hún á að segja. Þá reynir hún að bregða fyrir sig þessari gömlu grýlu frekar en engu.

Við umr. um álmálið þótti umr. um mengun í raun og veru beint aukaatriði og það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að Magnús Kjartansson, heilbrrh. 1971–1974, tók á þessu máli. Hann gerði það með því að setja reglugerð um eiturefni og hættuleg efni. Þessi reglugerð kvað á um hreinsitæki og hreinsun frá verksmiðjum og starfsleyfi fyrir slíkar verksmiðjur. Síðan hafa starfsleyfi verið gefin út fyrir verksmiðjur hér á landi og í hitteðfyrra gerðist það í fyrsta sinn að ákveðin lög voru sett í landinu um það, hvernig ætti að taka á slíkum málum varðandi starfsleyfi frá verksmiðjum. Það voru lögin um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Svo langt tókst að ná þessu máli á 15 ára afmæli þeirrar yfirlýsingar að í raun og veru væri þetta ómerkilegt tal sem Alfreð Gíslason var með og hótanir um að hér ættu Hafnfirðingar að detta niður í tugum og hundraðatali steindauðir áður en varir og röðin kæmi að Reykvíkingum næst, á 15 ára afmæli þessara skilningsríku ummæla voru samþykkt hér lög shlj. um að taka á fyrirtækjum af þessum toga. Það hefur verið komið upp hreinsitækjum við álverið í Straumsvík og þeirri framkvæmd var lokið í tíð núv. ríkisstj.

Einn af þeim mönnum sem ræddi álbræðsluna í Straumsvík var hv. þm. Ásgeir Bjarnason sem seinna varð forseti Sþ. Hann var síðastur þeirra ræðumanna sem töluðu í umr. um álbræðsluna í Straumsvík og ég nefni hann hér sérstaklega vegna þess að hann varð seinna torseti þessarar virðulegu samkomu og hann mælti nokkur orð í lok ræðu sinnar sem mér finnst að eigi mjög vel við núna. Hann sagði:

„Takist þjóðinni að velja sér slíka forustu, sem sameinar krafta sína um heill og hag landsmanna almennt, en hugsar ekki um hag auðhyggjumanna.“ — Hag auðhyggjumanna! Hvaða framsóknarmaður ætli segði þetta nú til dags? Þetta sagði þessi bóndi vestan úr Dölum. — „en hugsar ekki um hag auðhyggjumannanna ..vona ég, að betur takist til í framtíðinni með framkvæmd Þessa samnings en nú horfir, og það er eina von okkar Íslendinga nú á þessari stundu, þar sem þjóðin fær ekki að segja sitt álit á þessum samningi með þjóðaratkvgr., að hún standi sameinuð um það að skaffa öðrum framsýnni og betri mönnum forustu þjóðmálanna í framtíðinni og þar með meðferð þessara mála, svo að betur takist til heldur en við má búast hjá þeirri stjórn, sem nú situr að völdum. Í þeirri von og þeirri trú óska ég,“ sagði Ásgeir Bjarnason í Ásgarði, „að þjóðin skilji sitt hlutverk, þegar til kosninga kemur, og velji sér forustu í landsmálum með það fyrir augum, að hún hafi sitt að segja, þótt henni hafi ekki verið gefið tækifæri til að segja sitt álit á þessu máli með sérstakri atkvgr., þá skilji hún sitt hlutverk í næstu kosningum og veiti þar með núverandi þingmeirihluta þá ráðningu, sem honum væri fyrir bestu, þ.e. að hann kæmi ekki nálægt slíkum stjórnarstörfum framvegis.“

Þessi orð eiga vel við á þessari stundu. Þau eiga ákaflega vel við þann álmeirihluta undir forustu Eggerts Haukdals sem hér hefur myndast á hv. Alþingi. Staðreyndin er sú, að á undanförnum áratugum eða hálfum öðrum áratug, sem þessi álsamningur hefur verið í gildi, þá hefur ekki alltaf auðnast að velja til forustu menn sem hefðu kjark til þess að taka á málum þessa auðhrings. Einn þeirra manna sem hefur haft kjark til þess er núv. hæstv. iðnrh. og staðreyndin er sú, að enginn íslenskur ráðh. hefur setið undir öðrum eins fúkyrðaflaumi og sefasýkisköstum í borgarablöðunum í landinu eins og þessi hæstv. ráðh. Það er vegna þess að þeim finnst, þessum blöðum og talsmönnum þessara flokka, eins og þessi ráðh. sé að ganga inn í heilög vé, hann sé að saurga helgidóminn, því að þar eigi ekki þeir að koma sem eru vantrúaðir, heldur aðeins þeir sem eru rétttrúaðir.

Núv. hæstv. iðnrh. hefur sýnt fram á hvernig auðhringurinn hefur verðlagt súrál og rafskaut á liðnum árum. Hann hefur sýnt fram á hvernig hann hefur leikið sér að íslenskum samningamönnum í samningum árið 1975, þannig að minna en ekkert stendur eftir af þeim afrekum, og hann hefur sýnt fram á að þessi auðhringur vill ekki semja við Íslendinga um hækkun raforkuverðs. Það liggur fyrir. Þá snúast þessir æðstu prestar álmusterisins hinir verstu við og segja: Iðnrh. hvorki vill né getur samið. Iðnrh. vill ekki semja. Þetta er auðvitað þvílík fjarstæða, þvílíkur barnaskapur og endileysa að engu tali tekur, því auðvitað vill iðnrh. gera allt sem hægt er til að knýja fram hærra raforkuverð. Með því að hækka raforkuverð eins og eðlilegt er væri hægt að lækka raforkuverð í heildsölu í landinu um 50%, hvorki meira né minna. Haldið þið að iðnrh., sem kemur úr dreifbýliskjördæmi þar sem menn fá svimandi háa rafmagnsreikninga um þessar mundir, hljóti ekki að leggja ofurkapp á að ná samningum um hækkun raforkuverðs frá álverinu?

Umr. um að hæstv. núv. iðnrh. vilji ekki semja eru til marks um rökþrot þeirra talsmanna Alusuisse hér á Íslandi. Auðvitað hlýtur iðnrh. að leggja á það ofurkapp að hækka raforkuverðið. Þar er um að ræða ríka hagsmuni íslensku þjóðarinnar, þannig að það getur skipt sköpum um ýmsar meginstærðir í lífskjörum landsmanna. Þegar við stöndum frammi fyrir því að ekki fást samningar um hækkun raforkuverðs förum við auðvitað þá leið sem ríkisstj. gerði samþykkt um snemma á síðasta ári. Við segjum: Það er ekkert annað að gera en að hækka samningana einhliða, hækka verðið einhliða og taka um það ákvörðun með lögum frá Alþingi. Þess vegna höfum við lagt fyrir frv. til l. um leiðréttingu orkuverðs til ÍSALs. Við höfum lagt þetta frv. fyrir vegna þess að við teljum að þarna verði Íslendingar að ná sínum rétti og við teljum að við stöndum þarna á mjög svipuðum krossgötum, svipuðum vegamótum, og þjóðin stóð þegar landhelgin var færð út á sínum tíma og útlenskir togarar voru reknir úr fiskveiðilandhelgi. Staðan núna er hins vegar þannig, að þrír stjórnmálaflokkar hafa sameinast um að standa við hliðina á álverksmiðjunni í þessu máli, því miður. Einn stjórnmálaflokkur stendur fast á rétti Íslendinga, eins fast og hann getur. Hann mun leita til þjóðarinnar í næstu kosningum og biðja hana um stuðning við íslenska atvinnustefnu gegn hinni útlendu stefnu, gegn þeim flokkum sem hér flytja tillögu á Alþingi Íslendinga um að hneigja sig fyrir Alusuisse.

Við Alþb.-menn, sem stöndum að því að flytja till. um leiðréttingu á raforkuverði álversins, verulega hækkun á því, erum sammála þeim sem stóðu að því á sínum tíma að lögleiða lýðveldi á Íslandi árið 1944. Við teljum að þeir hafi gert rétt en ekki rangt með sinni ákvörðun. Við teljum að það sé ekki ástæða til þess fyrir þjóðina að sjá eftir því að hún samþykkti í allsherjaratkvgr. að hér skyldi stofnað lýðveldi 17. júní 1944. Við minnum á að á undanförnum áratugum hefur baráttan í þessu landi snúist um hvort menn hafa haft trú á því að menn gætu lifað hér í þessu landi sem sjálfstæð þjóð og fullvalda ríki eða hvort við þyrftum að segja okkur á sveit erlendra auðfélaga eða að ganga undir jarðarmen stórveldanna með einhverjum hætti.

Við höfum sýnt fram á það með nýsköpunarstjórninni 1944–1946 að það var hægt að treysta svo grundvöll íslenskra atvinnuvega að byggja mátti upp góð lífskjör í landinu. Við höfum sýnt fram á að hermangsvinnan var ekki nauðsyn, en það töldu svokallaðir lýðræðisflokkar hér eftir 1950. Þeir töldu að hermangsvinnan væri brýn nauðsyn og Íslendingar gætu ekki lifað af eigin atvinnu í landinu. Það var á þeim árum sem fjórða hver króna í gjaldeyristekjum Íslendinga var komin af vellinum og menn töldu að það væri í raun og veru útilokað annað en við mundum um aldur og ævi vera háðir hermangsvinnunni hér á þessu landi. Alþb., sem var aðili að ríkisstjórn árið 1956–1958, beitti sér fyrir uppbyggingarstefnu atvinnuveganna og útfærslu landhelginnar, sem hafði það í för með sér að stefnu hermangsvinnunnar var hnekkt. Þeir menn sem töldu að Íslendingar gætu ekki unnið hér við eigin bjargræðisvegi urðu sér til skammar. Reynslan setti þá út í horn. En þeir komust aftur hér til valda í landinu upp úr 1960 og það var stofnuð viðreisnarstjórnin, sem var til hér í 10 ár. Sú stjórn vann verulegt tjón, verulegt og alvarlegt tjón á möguleikum okkar þjóðar til þess að ráða málum sínum sjálf, með því að troða álverinu upp á landsmenn með þeim hætti sem ég hef hér lýst. Sú stjórn taldi að hér þyrfti að reisa 20 álver vegna þess að við hefðum fært landhelgina út að fullu í 12 mílur og það væri ekki hægt að bæta þar neinu við. Sú stjórn gerði nauðungarsamninga við Breta og Vestur-Þjóðverja um að landhelgin skyldi aldrei færð út úr 12 mílum nema með leyfi Breta og Vestur-Þjóðverja. Sem betur fer var þessari stefnu hnekkt. Þessari stefnu var hnekkt með stofnun vinstri stjórnarinnar 1971, sem starfaði til 1974. Það var ríkisstjórn þar sem Alþb. fór með sjávarútvegsmál og landhelgin var færð út í 50 sjómílur. Alstefnan varð sér þá til skammar. Orkusölustefna hinna erlendu auðhringa varð sér þá til skammar.

Við höfum nú á liðnum árum verið að byggja upp hér í landinu íslenska stefnu í orkunýtingarmálum, íslenska iðnaðar- og atvinnustefnu. Við höfum trú á að sú stefna sé affarasælli fyrir sjálfstæði þjóðarinnar en sú stefna sem álbarónarnir boða með þáltill. sem hér liggur fyrir. Virðingarleysi þeirra við málið og Alþingi og hæstv. forseta er hins vegar með slíkum endemum að aldrei hefur annað eins sést á þeim árum, fáum að vísu, sem ég hef verið hér í þinginu. Flm. láta ekki sjá sig. Þeir forðast að koma hér í salinn og þá sjaldan þeir koma í salinn gjamma þeir fram í eitthvert ráðleysisnöldur og örsjaldan bregður þó fyrir hv. þm. Friðrik Sophussyni. (FrS: Ég hlustaði á hæstv. ráðh.)

Að lokum væri kannske fróðlegt, úr því að hv, þm. Friðrik Sophusson er kominn í salinn, að spyrja hann nokkurra spurninga um þessi mál. Ég spurði í upphafi ræðu minnar hvort ákveðið hefði verið hver yrði formaður í þeirri nefnd sem þarna á að fara að kjósa. Hver verður formaður í þeirri nefnd? Ég legg þá spurningu fyrir hv. þm. Friðrik Sophusson. (FrS: Það stendur í þáltill., er það ekki? Þeir eru miklu síður í Alþb.) Nei, því miður. Það er nú kominn tími til að þú kannaðist við það að þú hefðir lítið lært af okkur. En kannske geturðu lært eitthvað aðeins af okkur í þessum efnum og þess vegna erum við að reyna að tala við þig hér og þykir vænt um að sjá þig hér í salnum. En hér er það að gerast að álhringurinn Alusuisse er að kljúfa Íslendinga. Það er verið að byggja hér múr á milli manna á Íslandi, annars vegar Alþb. og þeirra sem vilja standa fast á íslenskum málstað og hinna sem vilja ganga í verkin fyrir Alusuisse. Hér er komið að grundvallaratriði í allri stjórnmálasögu eftirstríðsáranna á Íslandi.

Hér stöndum við og ræðum um þetta mál á löggjafarsamkomu þessarar litlu þjóðar um hánótt til að ræða um þessi grundvallaratriði og hvað er að gerast? Það bíða menn í Zürich, í höfuðstöðvum Alusuisse, eftir niðurstöðum þessara umr. Verður samþykkt hér till. um að Alþingi Íslendinga hneigi sig fyrir Alusuisse eða sjá menn sóma sinn í því að draga skömmina til baka? Þá yrði sómi flm. meiri en ella.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu að sinni.