10.11.1982
Neðri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

33. mál, neyðarbirgðir olíu

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um neyðarbirgðir olíu o.fl. sem varðar aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni. Frv. þetta er endurflutt, en það var fyrst lagt fyrir Alþingi í lok síðasta þings. Þá flutti ég nokkuð ítarlega framsöguræðu, sem ég leyfi mér að vísa til, en hún er birt í Alþingistíðindum, 25. hefti 1981–82, bls. 4478.

Ennfremur fylgdi frv., þegar það var lagt fram hér s.l. vor, ítarleg og vönduð grg. sem ennþá fylgir því. Það eru nokkur fskj. sem fylgja grg. Það er í fyrsta lagi samningur um alþjóðaorkuáætlun, bæði á enskri tungu og í íslenskri þýðingu. Það er í öðru lagi áætlun um langtímasamstarf, sem einnig fylgir bæði á ensku og íslensku, og það er í þriðja lagi fskj. III, markmið og meginreglur orkustefnu, sem einnig fylgir á þessum báðum málum.

Alþjóðaorkustofnuninni var komið á fót árið 1974 sem sjálfstæðri alþjóðastofnun innan véhanda Efnahagsog framfarastofnunarinnar í París. Samstarf aðildarríkja stofnunarinnar er grundvallað á samningi um alþjóðaorkuáætlun sem einnig var gerður árið 1974. En það ber að undirstrika að Alþjóðaorkustofnunin er ekki alþjóðastofnun sem stendur aðildarríkjunum ofar. Hins vegar er í samningum um alþjóðaorkuáætlun kveðið á um viðtæk réttindi og skyldur aðildarríkja. Gleggst kemur þetta fram í olíuneyðarkerfi stofnunarinnar og má um það vísa í framsöguræðu mína frá í vor og grg. með frv.

Eins og ég sagði áður var Alþjóðaorkustofnuninni komið á fót hinn 15. nóv. 1974 með ákvörðun ráðs Efnahags- og framfarastofnunarinnar og greiddi fulltrúi Íslands í ráðinu atkv. með þeirri ákvörðun. Hinn 18. nóv. 1974 var samningur um alþjóðaorkuáætlun, sem starfsemi Alþjóðaorkustofnunarinnar hefur grundvallast á frá þeim degi, síðan undirritaður af fulltrúum 16 af 24 aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Ísland var ekki í þeim hópi.

Í skýrslu sinni til ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar í sept. 1979 gerði fimm manna olíuviðskiptanefnd, sem dr. Jóhannes Nordal, bankastjóri seðlahanka Íslands, var formaður fyrir, m.a. almenna grein fyrir Alþjóða-orkustofnuninni, skipulagi, starti og aðildarskilmálum. Mælti nefndin með því að Ísland óskaði eftir aðild að stofnuninni. Einn nm. hafði þó fyrirvara á um þessa afstöðu.

Ríkisstjórn Benedikts Gröndals ákvað í lok oki. 1979 að efna til könnunarviðræðna við fulltrúa Alþjóðaorkustofnunarinnar um hugsanlega aðild Íslands að stofnuninni. Ákvað ríkisstj. síðan snemma í jan. 1980 að skipuð skyldi nefnd til að kanna málefni Alþjóðaorkustofnunarinnar náið. Af hálfu viðskrh. voru skipaðir í nefndina Jón Ögmundur Þormóðsson, deildarstjóri í viðskrn., formaður, Páll Flygenring, ráðuneytisstjóri í iðnrn., Guðmundur Eiríksson. þjóðréttarfræðingur í utanrrn., og Geir H. Haarde, ritari olíuviðskiptanefndar. Hóf nefndin störf um miðjan jan. og kannaði málið ítarlega, m.a. allar ákvarðanir stjórnarnefndar stofnunarinnar og ýmis önnur gögn frá henni. Skömmu eftir myndun ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens átti formaður nefndarinnar ásamt Einari Benediktssyni sendiherra, fastafulltrúa Íslands hjá Efnahags- og framfarastofnuninni, og Sveini Björnssyni, þáv. viðskiptafulltrúa við sendiráð Íslands í París, könnunarviðræður í París við framkvæmdastjóra og aðra forráðamenn Alþjóðaorkustofnunarinnar, nánar tiltekið dagana 25.– 28. febr. 1980. Við sama tækifæri var einnig rætt við fastafulltrúa Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar hjá stofnuninni. í könnunarviðræðum þessum var einkum fjallað um á annað hundrað skriflegar spurningar um Alþjóðaorkustofnunina skipulag, starf og aðildarskilmála, sem nefndin hafði útbúið. Fengust munnleg svör við spurningunum í viðræðunum, en mikilvægustu spurningunum var einnig svarað skriflega síðar. Talið var nauðsynlegt að gera síðan ítarlega nefndar skýrslu um máf þetta, sem byggja mætti á við ákvarðanatöku, en nefndinni var ekki falið að gera tillögu um það hvort Ísland skyldi gerast aðili að stofnuninni eða ekki. Við undirbúning skýrslunnar var m.a. letrað til íslensku olíufélaganna um nauðsynlegar upplýsingar varðandi olíugeymarými og olíubirgðahald hér á landi. Skýrslan var afhent viðskrh. um miðjan júlí 1980. Síðan var hún lögð fyrir ríkisstj. og henni dreift til ýmissa aðila, m.a. þingflokkanna.

Rétt þótti að gera grein fyrir nauðsynlegri löggjöf í skýrslunni um leið og samningurinn um alþjóðaorkuáætlun var reifaður, enda þarf atbeina Alþingis til að tryggja framkvæmd samningsins ef Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni. Fæst þannig heildaryfirlit yfir málefni stofnunarinnar eins og þau horfa við Íslandi. Við samningu lagafrv. var m.a. höfð hliðsjón af danskri og sænskri löggjöf um þessi efni. en einnig íslenskum lögum um viðbúnað við sérstakar aðstæður, t.d. lögum um heimild fyrir ríkisstj. til ýmislegra ráðstafana vegna yfirvofandi styrjaldar í Norðurálfu, nr. 37 12. júní 1939.

Nefnd skipuð fulltrúum aðila að núv. ríkisstj., þeim Guðmundi G. Þórarinssyni alþm., Ólafi Ragnari Grímssyni alþm. og Jóni Ormi Halldórssyni, aðstoðarmanni forsrh., kannaði svo málið sérstaklega, m.a. þau atriði nefndarskýrslunnar sem snerta mörkun sérstöðu af Íslands hálfu vegna aðildar, og aflaði nánari upplýsinga, m.a. um þróun olíumála.

Þetta frv. eða nákvæmlega sams konar frv. var svo lagt fyrir Ed. Alþingis á s.l. vori og rætt þar, en dagaði uppi vegna þingslita og er nú, eins og ég tók fram áður, lagt fram hér á hv. Alþingi í annað sinn.

Eins og kemur fram í 1. gr. frv. er ríkisstj. heimilt að gerast fyrir Yslands hönd aðili að samningi um alþjóðaorkuáætlun, sem gerður var í París hinn 18. nóv. 1974, eins og honum hefur verið breytt, með þeim skilyrðum sem greind eru í aths. við grein þessa. Ríkisstj. er þetta heimilt ef lagafrv. þetta verður að lögum. Í grg. er gerð grein fyrir samningnum um alþjóðaorkuáætlunina sem er grundvöllur að aðild að Alþjóðaorkustofnuninni. Ég vil leyfa mér að lesa innganginn vegna þess að hann er stuttur. Hann er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í inngangsorðum samningsins um alþjóðaorkuáætlun segir m.a. að þátttökulöndin vilji stuðla að öruggum olíuaðdráttum á hóflegum og sanngjörnum kjörum og séu ákveðin í að gera í sameiningu virkar ráðstafanir til að takast á við olíuaðdráttaneyð með því að verða sjálfum sér nóg um olíu á neyðartímum, takmarka eftirspurn og úthluta tiltækri olíu milli landa sinna á sanngjarnan hátt. Löndin vilja gegna virkara hlutverki gagnvart olíuiðnaðinum með því að koma á víðtækri alþjóðlegri upplýsingamiðlun og skapa varanlega aðstöðu til samráðs við olíufélög. Þau eru ákveðin í að verða óháðari olíuinnflutningi með því að taka þátt í langtíma samstarfi um orkusparnað, hraðari þróun annarra orkugjafa, orkurannsóknir og þróun og úranauðgun. Jafnframt er stefnt að auknu samstarfi við olíuframleiðslulönd og önnur olíunotkunarlönd, m.a. þróunarlönd.“

Þessi samningur fjallar efnislega um í fyrsta lagi neyðarbirgðir olíu sem er eitt aðalatriðið í þessu máli öllu. Vildi ég í því sambandi leyfa mér að vísa til framsöguræðu minnar fyrir málinu í Ed. á s.l. Alþingi. Sá kafli hennar sem fjallaði sérstaklega um þetta var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Einn þáttur neyðarkerfisins er sá, að aðildarríkin skuli eiga neyðarbirgðir olíu til 90 daga. Það jafngildir 129 þús. tonnum samanlagt af þremur helstu olíutegundum Íslendinga: gasolíu, svartolíu og bensíni. Miðað við birgðarými olíufélaganna um þessar mundir — þá er ég að tala um marsmánuð á þessu ári — 228 þús. tonn, er ekki þörf á að auka birgðarými hér á landi til að rúma 90 daga birgðir. Skapar aðild því ekki kostnað að þessu leyti. Hefur birgðarýmið aukist að undanförnu samhliða því sem notkun olíu hefur minnkað. Sé gengið út frá að íslensk stjórnvöld telji 90 daga neyðarbirgðir eðlilegar, hvort sem Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni eða ekki, yrði út af fyrir sig ekki um að ræða aukakostnað vegna aukins birgðahalds samfara aðild Íslands að stofnuninni. Það er skoðun mín að eðlilegt sé að miða við 90 daga markið eins og gert er hjá nágrannaþjóðum okkar. Sumar þeirra liggja reyndar iðulega með mun meira af olíu auk hernaðarbirgða. T.d. voru birgðir til 130 daga notkunar í ársbyrjun 1981 og 1982 í ríkjum Efnahagsbandalags Evrópu. En með tilliti til þess að Ísland er eyja, allafskekkt. virðist sérstök ástæða til að huga að olíubirgðum og einnig með tilliti til þess, að íslenskir atvinnuvegir eru með þeim hætti að við verðum mjög að treysta á olíuna sem orkugjafa.

Það er nokkuð útbreidd skoðun að besta ráðið til að tryggja hér á landi nægar olíubirgðir sé að Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni. Birgðahald olíu hefur aukist talsvert á undanförnum misserum og voru meðalbirgðir áranna 1980–81 95 þús. tonn af þremur helstu olíuvörunum. Jafngildir það 74% af því sem þarf eða 66 daga birgðum. Með hliðsjón af þessu þyrfti Ísland að auka birgðahald sitt um 34 þús, tonn til að ná 129 þús. tonna markinu og yrði 50% vaxtakostnaður vegna þess 42.7 millj. kr. á ári miðað við útreikninga hinn 26. mars s.l. Samsvarar þetta 1.6% hækkun verðs á gasolíu, svartolíu og bensíni til notenda.“

Á undanförnum árum hafa birgðir Íslendinga af olíuvörum aukist jafnt og þétt. Þetta hefur að sjálfsögðu haft í för með sér kostnað, vegna þess að það kostar peninga að liggja með olíubirgðir. Við höfum samninga um ákveðna skilmála og það kostar að sjálfsögðu peninga að liggja með meiri olíubirgðir. Það er ein af ástæðunum fyrir því að olían hefur hækkað. En olíubirgðirnar eru ákaflega þýðingarmiklar, ef einhverjar truflanir verða í sambandi við olíuaðdrætti, til þess að tryggja okkar tilveru og ég vil segja okkar atvinnufull. Á ég þá að sjálfsögðu alveg sérstaklega við sjávarútveginn.

Í framsöguræðu minni á s.l. vori lýsti ég þeirri skoðun minni að ég væri hlynntur því að Ísland gerðist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni en jafnframt ætti að marka formlega sérstöðu Íslands um fimm atriði. Vil ég leyfa mér að endurtaka hér hvaða atriði það einkum eru:

1. Ísland fer fram á fimm ára aðlögunartíma til að auka olíubirgðahald í áföngum við hagkvæmar aðstæður og jafnframt olíugeymarými, ef nauðsynlegt reynist. Nú hef ég áður upplýst að það mun ekki vera nauðsynlegt nú, þar sem olíubirgðarými hefur jafnt og þétt verið að aukast á undanförnum árum og er talið nægilegt til að rúma 90 daga birgðir eins og sakir standa.

2. Ísland telur að V. kafli í ákvörðun stjórnarnefndarinnar um áætlun um langtímasamstarf hafi að geyma almennar meginreglur sem séu ekki lagalega bindandi. Vill Ísland í þessu sambandi undirstrika að það hefur rétt til að eiga og ráða yfir náttúruauðlindum sínum og efnahag, svo og vernda umhverfi sitt og öryggi þegna sinna, og mun framkvæma V. kaflann á þann hátt sem samræmist íslenskri orkustefnu, m.a. í fjárfestingarmálum.

3. Varðandi 8. meginreglu í ákvörðun stjórnarnefndarinnar um hópmarkmið og meginreglur orkustefnu skal tekið fram að Ísland á mikla ónýtta vatnsorku og jarðhitaorku og mun því ekki stefna að hagnýtingu kjarnorku né taka virkan þátt í þeim málum sem snerta kjarnorku á vettvangi stofnunarinnar.

4. Varðandi 10. meginreglu í ákvörðun stjórnarnefndarinnar um hópmarkmið og meginreglur orkustefnu skal tekið fram að Ísland hyggst halda áfram rannsóknum vegna hugsanlegra olíulinda á íslenska landgrunninu undir forustu íslenskra stofnana og stjórnvalda. Við rannsóknir og hugsanlega nýtingu auðlinda verði gætt fyllstu varúðar með tilliti til umhverfissjónarmiða, fyrst og fremst til að tryggja að hinar lifandi auðlindir hafsins verði ekki fyrir skaða. Áskilja íslensk stjórnvöld sér rétt til að mæla fyrir um hraða rannsókna og hugsanlegrar nýtingar, m.a. með þau sjónarmið í huga.

5. Áratugum saman hefur Ísland flutt megnið af sinni olíu inn frá vinum aðila, 60– 70% af heildarinnflutningi olíunnar á síðustu árum. Ísland getur ekki úthlutað þessari olíu á olíuneyðartímum andstætt hefðbundnum ákvæðum gildandi olíukaupasamninga. Hugsanleg úthlutun af Íslands hálfu yrði af þeirri olíu sem flutt væri inn frá öðrum aðilum.

Afstaða mín til aðildar að Alþjóðaorkustofnuninni hefur ekki breyst frá því á s.l. vori. Í stofnuninni er um að ræða útfærslu á samstarfi innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar sem Íslendingar hafa tekið þátt í og notið á ýmsan hátt góðs af. Samvinna um hin ýmsu atriði samningsins um alþjóðaorkuáætlun er Íslendingum ávinningur. Vegna samhjálpar þátttökulandanna í olíuneyð á friðartímum fæst aukið olíuöryggi sem ekki næst með öðrum hætti. Aðildin hvetur til áætlunargerðar um viðbúnað á neyðartímum. Upplýsingar frá stofnuninni gætu hjálpað Íslendingum til að ná hagstæðum samningum í olíukaupum. Þá má fá upplýsingar um orkusparnaðarstarf nágrannalandanna og Ísland getur jafnvel miðlað fróðleik, t.d. í jarðhitamálum, og stungið upp á nytsamlegum verkefnum á því sviði.

Ég tel rétt í framsöguræðu fyrir þessu frv. að rekja nokkuð olíuviðskipti Íslendinga. Það hafa orðið verulegar umr. um þau mál og blaðaskrif og ég tel ástæðu til að rekja nokkru nánar þau viðskipti.

Utanrmn. Alþingis óskaði eftir því við viðskrn. að fá skýrslu um þessi mál. Sú skýrsla hefur verið send þangað og ég tel rétt að gera hv. Alþingi grein fyrir þeirri skýrslu þannig að það liggi fyrir hér í sölum Alþingis hvernig þessum málum hefur verið háttað á undanförnum árum.

Síðan 1973, þegar OPEC-löndin þrefölduðu verðið á hráolíu, hafa olíumálin verið í sviðsljósinu. Sú ákvörðun leiddi til alþjóðlegrar kreppu á árunum 1974 og 1975 sem bitnaði mjög hart á olíuinnflutningslöndum. Sagan endurtók sig síðan á ný í árslok 1978 þegar olíuframleiðslulöndin þrefölduðu aftur hráolíuverð. Var þetta mikið áfall fyrir íslenskt efnahagslíf sem ber þess enn merki.

Á einfaldan hátt má skýra þessa þróun með því að benda á að árið 1970 samsvaraði verðmæti innfluttra olíuvara 10% af heildarútflutningnum það ár, árið 1978 13%, árið 1979 21% og árið 1981 var það komið aftur niður í 18%. Hið háa olíuverð er því tvímælalaust ein ástæðan fyrir hinum mikla viðskiptahalla sem við búum við í ár. En sá halli kemur fyrst fram við það að útflutningstekjur okkar hafa stórlega minnkað frá því sem þær voru undanfarin tvö ár.

Á síðustu fimm árum hefur orðið mikil breyting á olíuinnflutningnum bæði varðandi magn og innflutningslönd. Helstu breytingarnar eru þessar:

Innflutningur á gasolíu hefur minnkað stórlega, eða úr 302 þús. tonnum árið 1978 í tæplega 200 þús. tonn 1982. Helstu skýringar á þessu er minnkandi notkun á gasolíu til húsahitunar vegna stækkunar og fjölgunar á hitaveitum, og að rússnesk svartolía hefur í vaxandi mæli verið notuð af togurum í stað gasolíu. Svartolíuinnflutningurinn hefur aukist nokkuð vegna vaxandi loðnubræðslu og meiri notkunar togaranna. Þó hafa svartolíukaupin minnkað mikið í ár vegna banns á loðnuveiðum. Gasolíukaup frá Sovétríkjunum hafa á síðustu fimm árum minnkað um meira en helming, úr 236 þús. tonnum 1978 í 120 þús. tonn árið 1982. Í stað gasolíukaupa frá Sovétríkjunum hefur komið gasolía frá Portúgal, samkv. samningi sem gerður var 1978, og frá British National Oil Corporation samkv. samningi sem gerður var 1980. En önnur aðalskýringin á minni gasolíukaupum frá Sovétríkjunum er minnkandi þörf á gasolíu.

Eins og áður er minnst á hafa olíuverðhækkanirnar sem kallaðar hafa verið „seinna olíusjokkið“ haft afdrifaríkar afleiðingar. Þær riðu eins og holskefla yfir íslenskt atvinnulíf og höfðu hliðstæð áhrif og aflabrestur eða verðhrun á útflutningsvörum okkar. Eins og eðlilegt var fóru þá fram miklar umr. og athugun á því hvernig hægt væri að bregðast við þessum mikla vanda. Það vakti óánægju og gagnrýni að olíuvörur voru yfirleitt keyptar á dagverði samkv. Rotterdamskráningu, sem hækkaði miklu meira en verð á olíuvörum sem keyptar voru samkv. langtíma samningum. Til að athuga þessi mál voru skipaðar tvær opinberar nefndir. Í skýrslu annarrar þeirra, olíuviðskiptanefndar, til ríkisstj., dags. í febr. 1980, eru helstu niðurstöður nefndarinnar þessar:

1. Æskilegt er að verulegar breytingar verði á samsetningu olíuinnflutnings eftir löndum og verðviðmiðun í olíuviðskiptum. Í því sambandi er gerð tillaga um að gerður sé samningur við breska ríkisfyrirtækið BNOC og verðviðmiðun verði það sem kallað er almennt viðskiptaverð, „mainstream“ — verð í Vestur-Evrópu.

2. Reynt verði að gera hagstæða samninga um kaup á hráolíu til vinnslu fyrir Íslendinga, sérstaklega frá Noregi og Saudi-Arabíu.

Samkv. tillögu olíuviðskiptanefndar var gerður samningur við BNOC í apríl 1980 um kaup á 100 þús. tonnum af gasolíu hvort árið um sig, 1980 og 1981. Verðið var miðað við almennt viðskiptaverð í Vestur–Evrópu. (Gripið fram í: Hvað kostaði hún?) Það kemur að þessu, hv. þm. Þegar leið á árið 1980 reyndist þetta verð vera öllu hærra en dagverð samkv. Rotterdamskráningu og þegar kom fram á árið 1981 fór verðmunurinn vaxandi. Reynt var að semja um hagstæðari verð með hliðsjón af þróun á Rotterdammarkaðinum en tókst ekki. Við samanburð á BNOC-verðinu og Rotterdamverði á sama tíma hefur komið í ljós að innflutningsverð þeirra farma sem keyptir voru frá BNOC var yfir 3 millj. dollara hærra en hefði olían verið keypt samkv. Rotterdamverði. Fulltrúar BNOC töldu ekki fært að endurskoða verðlagsgrundvöllinn, sem var orðinn óhagstæður okkur, svo að það varð að samkomulagi seint á árinu 1981 að hætta frekari viðskiptum í bili.

Hugmyndin um kaup á hráolíu til vinnslu fyrir Íslendinga var sjálfdauð þegar í Ijós kom að hráolían var hlutfallslega miklu dýrari en olíuvörur sem keyptar voru á dagverði samkv. Rotterdamskráningu. Einhverju sinni þegar kvartað var yfir háu gasolíuverði frá BNOC svaraði fulltrúi þess að við gætum verið þakklátir fyrir að BNOC hefði ekki orðið við tilmælum olíuviðskiptanefndar um að selja hráolíu, því að þá fyrst hefði Ísland orðið fyrir alvarlegu áfalli. Hugmyndum um hráolíukaup var þess vegna ekki fylgt eftir. Hins vegar fóru fram viðræður við norska ríkisolíufyrirtækið Statoil um kaup á olíuvörum frá Noregi haustið 1980 og aftur vorið 1981. Það kom í ljós að norska fyrirtækið vildi hafa sams konar viðmiðun á olíuverði og BNOC, sem ekki var talið aðgengilegt. Varð því ekkert úr viðskiptum.

Á árunum 1979–1980 seldi Saudi-Arabía hráolíu á nokkru lægra verði en önnur framleiðslulönd. Var því talið eftirsóknarvert að ná beinum viðskiptum við Saudi arabíska olíufélagið Petromi. Til að undirbúa slík viðskipti var ákveðið að taka upp stjórnmálasamband við Saudi-Arabíu 1980. En þegar athuga átti olíukaup frá Saudi-Arabíu frekar var orðið ljóst að hráolíukaup voru útilokuð vegna þess að verð á olíuvörum á frjálsum markaði hafði lækkað. Ennfremur má geta þess að í ár hafa orðið endaskipti á þessu eins og mörgum hugmyndum, sem ríkjandi voru 1980 um olíuviðskipti, og Saudi-Arabía selur nú hráolíu sína á hærra verði miðað við gæði heldur en flest önnur olíuframleiðslulönd.

Vegna erfiðleika á skreiðarsölu til Nígeríu hefur sú hugmynd oft verið rædd hvort ekki mætti greiða fyrir þeim viðskiptum með því að beina olíukaupum okkar þangað. Sá annmarki er á því að eins og er þá eru olíukaup okkar frá Sovétríkjunum og Portúgal bundin við þessi lönd vegna mjög þýðingarmikilla útflutningshagsmuna okkar þangað og er því litið svigrúm til að beina olíukaupum til Nígeríu. Ennfremur eru ýmsir aðrir annmarkar á slíkum viðskiptum, svo sem að Nígería selur engar olíuvörur en aðeins hráolíu, og það sem verra er, að verð á Nígeríuolíu er með því hæsta á heimsmarkaðinum. Er það ein skýringin á þeim erfiðleikum sem Nígería á nú við að etja. Ekki hefur tekist að selja allan kvóta Nígeríu, 1.3 millj. tunnur á dag, sem OPEC hefur úthlutað þeim, en áður en kvótaskiptingin var ákveðin framleiddi Nígería 2 millj. tunna á dag. Þrátt fyrir þetta hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til að koma á olíuviðskiptum við Nígeríu. Veturinn 1979–1980 reyndi Olíuverslun Íslands að ná beinum samningum við Nígeríu um olíukaup. Var þá gert ráð fyrir að endurselja olíuna erlendis félagi með þeim skilyrðum, að Íslendingar gætu keypt einhvern hluta af olíuvörum hjá erlenda félaginu ef það yrði talið hagkvæmt. Þessi tilraun bar engan árangur.

Í maí 1982 ræddu fulltrúar viðskrn. og olíufélaganna við portúgalska olíufélagið Petrogal um möguleika á því að láta hreinsa hráolíu frá Nígeríu í Portúgal fyrir íslenskan markað. Petrogal gerði nákvæma útreikninga á því hvað slík viðskipti mundu kosta og komst að þeirri niðurstöðu að olíuvörurnar, sem unnar yrðu úr Nígeríuhráolíu á okkar kostnað, yrðu um 11% dýrari heldur en ef þær yrðu keyptar á Rotterdamverði. Ef farið yrði inn á þessa braut mundu þá um leið falla niður olíukaupin frá Portúgal, sem hafa tvímælalaust greitt fyrir saltfisksölu þangað að undanförnu.

Tvö erlend olíufélög hafa í samráði við íslenska aðila reynt að fá keypta hráolíu frá Nígeríu í skiptum fyrir íslenska skreið án þess að olíuvörurnar yrðu seldar áfram til Íslands. Kostnaður við slík vöruskipti, sem er óumflýjanlegur, mundi verða borinn af skreiðarframleiðendum. Hingað til hefur þessi viðleitni ekki heldur borið neinn árangur.

Þegar spurt er um líkur á kaupum frá öðrum löndum en hinum hefðbundnu olíuviðskiptalöndum mun líklega vera átt við öðrum löndum en Sovétríkjunum. Hér gætir sama misskilnings og fram kom í ræðu á Alþingi í apríl, þar sem fullyrt var að nær allur olíuinnflutningur okkar kæmi frá einu landi. Bretland og Holland eru einnig hefðbundin olíuviðskiptalönd. Frá þessum löndum og nokkrum öðrum Vestur-Evrópulöndum hafa verið keyptar allar þarfir okkar af þotueldsneyti, flugvélabensíni, steinolíu og smurningsolíum. Ennfremur hafa verið keypt frá þessum sömu löndum árlega um 50–611 þús. tonn af gasolíu. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú, að með þessu móti er hægt að flytja inn á hagkvæmari hátt í stórum förmum þotueldsneyti og flugvélabensín, en jafnframt er á þennan hátt haldið við langvarandi tengslum olíufélaganna við vestræn olíufélög og samanburður fenginn um verð og aðra skilmála við þau kjör sem Rússar hafa boðið. Af heildarinnflutningi allra olíuvara samkv. verslunarskýrslum á árinu 1981 komu 54.9% frá sovétríkjunum, þar af um 41% af gasolíu, 84% af svartolíu og 61% af bílabensíni.

Frá því að fyrsti viðskiptasamningurinn var gerður við Sovétríkin 1953 hafa olíuviðskiptin verið notuð til að greiða fyrir sölu íslenskra afurða. Með því að beina olíukaupum til Sovétríkjanna hefur verið hægt að selja þangað í næstum 30 ár verulegt magn af freðfiski, saltsíld og ullarvörum, sem annars hefði ekki verið hægt að selja á þann markað. Olíukaup, sem nú nemur yfir 90% af heildarinnflutningi okkar frá Sovétríkjunum, hafa verið undirstaða undir þessum þýðingarmiklu viðskiptum. Þess vegna hafa allar ríkisstjórnir verið sammála um að þessum viðskiptum beri að halda áfram, a.m.k. svo lengi sem í boði eru sambærileg kjör og annars staðar fást. Það er álit olíufélaganna að olíuviðskiptin við Sovétríkin hafi yfirleitt verið sambærileg við það sem hefur staðið til boða frá öðrum olíufélögum, og að því er snertir svartolíu hafa kjörin verið miklu betri. Olíufélögin hafa ætíð sýnt fyllsta skilning á þörfinni á að styðja íslenskan útflutning með því að beina olíukaupum til helstu markaðslanda okkar.

Þessi afstaða olíufélaganna var einnig staðfest þegar tekin voru upp olíuviðskiptin við Portúgal 1978. Sjónarmið íslenskra stjórnvalda var einnig viðurkennt af EFTA og Efnalagsbandalaginu, þegar samið var við þessa aðila um fríverslun, en þá var Íslandi heimilað að halda áfram innflutningseftirliti á olíuvörum til þess að geta þar með greitt fyrir útflutningi íslenskra afurða til Sovétríkjanna.

Eins og áður hefur verið bent á hafa olíukaup frá Sovétríkjunum verið nokkuð breytileg. Þannig hafa kaup á gasolíu stórlega minnkað og eru nú um helmingur af heildarþörfum landsins. Einnig hefur heldur dregið úr kaupum á bilabensíni, en aukinni innflutningsþörf hefur verið mætt með kaupum frá Portúgal og fleiri löndum. Það hefur hins vegar verið mikið hagsmunamál fyrir útgerðina að tryggja sér svartolíu frá Sovétríkjunum, sem er í sérstökum gæðaflokki og fæst ekki keypt annars staðar á sambærilegu verði. Hefur gætt nokkurrar tregðu hjá Rússum að samþykkja aukið svartolíumagn á sama tíma sem dregið hefur verulega úr gasolíukaupum. Samt hefur tekist að leysa það farsællega.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög þýðingarmikið að fylgjast sem best með olíuviðskiptamálum og haga innkaupum eftir því sem hagkvæmast er á hverjum tíma frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Hefur viðskrn. gott samstarf við olíufélögin í þeim efnum. Rn. er einnig þeirrar skoðunar, að núverandi skipting á olíuinnflutningi eftir löndum sé, þegar á allt er litið, hagkvæm og ekki sé tilefni til neinna verulegra breytinga að óbreyttum aðstæðum. Forstjórar olíufélaganna hafa staðfest að þeir séu sömu skoðunar og viðskrn.

Það sem af er þessu ári hefur sæmilegt jafnvægi ríkt í olíumálum landsmanna og stöðugleiki í innkaupsverði olíuvara. Fyrstu 9 mánuði þessa árs reyndist fob-meðalverðlag þriggja helstu olíutegunda landsmanna sem hér segir og er þá miðað við Rotterdamverð: bensín 322 Bandaríkjadollarar á tonnið, gasolía 287 dollarar á tonnið og svartolía 166 dollarar á tonnið. Sambærilegt meðalverð ársins í fyrra, 1981, var þannig að í stað 322 dollara nú var verðið á bensíni þá 351 dollar, í stað 287 dollara nú var verðið á gasolíunni 299 dollarar og á svartolíunni var verðið 186 dollarar samanborið við 166 á þessu ári. Olíuverð í dollurum hefur því lækkað — meðalverð hefur lækkað talsvert verulega á þessu ári miðað við það sem var í fyrra. Á heildina litið hefur, eins og að ofan getur, ríkt sæmilegur stöðugleiki í verðlagi og jafnvel lækkun það sem af er þessu ári. Samt koma einatt fyrir nokkrar sveiflur. T.d. lækkaði verð á bensíni og gasolíu verulega í marsmánuði s.l. er meðalverð bensins fór allar götur niður í 273 dollara og gasolía niður í 262 dollara, en hafði verið að meðaltali 287 á þessu ári. Verð á svartolíu hefur hins vegar yfirleitt verið mjög stöðugt allt árið. Af þessu má sjá að það hafa orðið þó nokkrar sveiflur í verðlagi á olíuvörum, en í allt aðra átt en menn spáðu t.d. fyrir tveimur árum síðan og jafnvel á síðasta ári. Sparnaður á olíuvörum, sérstaklega í iðnaðarríkjunum, verulegur sparnaður, upp undir 20% sparnaður t.d. hjá Bandaríkjamönnum, ásamt meiri framleiðslu hefur valdið því að þróunin á verðlagi olíuvara hefur orðið allt önnur heldur en menn spáðu fyrir 1–2 árum.

Nýlega er komin út ítarleg skýrsla á vegum Alþjóðaorkustofnunarinnar um horfur í orkumálum á alþjóðamörkuðum hvað verðlag snertir. Í skýrslunni eru birtar spár stofnunarinnar um olíueftirspurn og olíuframleiðslu átin 1985, 1990 og árið 2000. Það er talið að jafnvægi muni sennilega ríkja á olíumarkaðinum fram á miðjan þennan áratug, sem jafnvel kunni að vera blekkjandi, því að allar forsendur og allir útreikningar bendi til þess að þrengjast muni um olíuframboð þegar lengra líður á áratuginn. Þá muni eftirspurn almennt aftur aukast, einkum í olíuframleiðsluríkjunum sjálfum, OPEC-ríkjunum og öðrum þróunarlöndum, jafnframt því sem olíuframleiðslan dragist saman í Norður-Ameríku, á Norðursjávarsvæðinu og í Sovétríkjunum, og draga muni úr útflutningi frá sumum OPEC-löndum.

Rétt er þó að taka fram að í forsendum þessarar spár er reiknað með 2.4% hagvexti á Vesturlöndum á ári fram á árið 1985 og 2.7% úr því. Embættismenn Alþjóðaorkustofnunarinnar viðurkenna að þessi hagvaxtarspá sé í hærra lagi, en hagvöxtur af þessari stærðargráðu sé nauðsynlegur ef draga á úr atvinnuleysinu í OECD-löndunum þar sem 30 millj. manna eru nú atvinnulausar. Því er ekki að leyna að skoðanir eru ákaflega skiptar um það hver framvindan muni verða í þessum málum á næstu árum, að ég nú ekki tali um áratugum, og þróunin hefur orðið allt önnur á síðustu 2–3 árum en menn bjuggust við að verða mundi í upphafi olíukreppunnar sem skall á eftir árið 1979. Það er því í raun og veru að mínu mati ákaflega erfitt að fullyrða eitt eða annað í þessum efnum annað en það að þegar til lengri tíma er litið, áratuga, þá er nokkurn veginn ljóst að olía fer þverrandi, eða það er a.m.k. talið ákaflega líklegt, og þess vegna muni orkukreppa fara vaxandi í heiminum nema nýir orkugjafar komi til sem geta leyst olíuna af hólmi.

Ég taldi rétt í sambandi við þessu umr. að gera grein fyrir þessum málum af því að olían er svo ríkur þáttur í starfi Alþjóðaorkustofnunarinnar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frv. í þessara framsöguræðu og leyfi mér að leggja til að því verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn. að lokinni umr.