10.11.1982
Neðri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

33. mál, neyðarbirgðir olíu

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að olía og olíuvörur eru gífurlega mikilvæg fyrir okkur Íslendinga. Allur okkar fiskiskipafloti er rekinn með innfluttri olíu. Okkar kaupskipafloti, sem heldur uppi samgöngum við önnur lönd og innanlands einnig, er rekinn með olíu sem flutt er inn. Flugvélar okkar eru reknar með olíuvörum sem fluttar eru inn til landsins. Húshitun með olíu er mikilvæg í stórum landshlutum og allar okkar samgöngur hér innanlands eru reknar með olíu sem við þurfum að flytja inn. Þó að notkun okkar eigin orku fari vaxandi og sett hafi verið það stefnumark að jafna orkureikning landsmanna, eins og það heitir, t.d. fyrir næstu aldamót, þá er það alveg í jóst að um ófyrirsjáanlega framtíð verður olían og olíuvörur mjög mikilvæg fyrir okkur Íslendinga og hefur reyndar grundvallarþýðingu í þeim atvinnuvegum sem okkar efnahagslíf hvílir á. Það ber því brýna nauðsyn til að tryggja öryggi okkar á þessu sviði með öllum tiltækum ráðum.

Það frv. sem hér liggur fyrir og hæstv. viðskrh. hefur mælt með felur í sér að ríkisstj. sé heimilt að gerast fyrir Íslands hönd aðili að Alþjóðaorkustofnuninni með skilyrðum sem nánar eru tilgreind í grg. með frv. Alþjóðaorkustofnunin er samstarfsvettvangur þjóðanna innan OECD, samstarfsvettvangur sem fyrst og fremst hefur verið settur á fót til að tryggja öryggi þessara þjóða í olíumálum. Innan þessarar stofnunar og með þátttöku í henni taka þjóðirnar á sig vissar skyldur en njóta þar einnig ákveðinna réttinda. Meginþættir þessara réttinda og þessara skyldna eru fólgnir í svokölluðu olíuneyðarkerfi, sem stofnunin hefur samþykki að setja á fót og vera í viðbragðsstöðu til að nýta. Aðalþættir þess kerfis eru að hver þjóð tekur á sig vissar skuldbindingar til þess að eiga neyðarbirgðir olíu, þ.e. 90 daga neyslumagn af olíu á hverjum tíma. Þessi áætlun felur ennfremur í sér að á neyðartímum taki þjóðirnar á sig skuldbindingar til þess að setja á ákveðnar takmarkanir á eftirspurn eftir olíu og vissar úthlutunarreglur um olíumiðlun milliþjóða hafa verið settar. Stofnunin felur enn fremur í sér að viðtæk upplýsingamiðlun á sér stað milli aðildarríkjanna um olíumál og ennfremur að þjóðirnar takast á hendur langtíma samstarf í orkumálum. Grundvöllur þessa samstarfs í þessari stofnun er því samvinna og samhjálp þjóðanna á þessu mikilvæga sviði.

Mjög mikilvægt atriði í þessu efni er að skylda þjóðirnar hverja fyrir sig til þess að eiga neyðarbirgðir af olíu, þ.e. 90 daga birgðir. Þetta þýðir fyrir okkur, eins og fram kemur í grg. með frv., að við þyrftum að eiga 129 þús. tonn samtals af svartolíu, gasolíu og bensíni, en það er allnokkru meira en það magn sem hér hefur verið undanfarin ár í meðalbirgðum. Árið 1978 t.d. voru meðalbirgðir hér 89 þús. tonn, 1979 82 þús. tonn, 1980 99 þús. tonn, 1981 91 þús. tonn. Þó að birgðahaldið hafi nokkuð aukist á allra síðustu árum erum við samt nokkuð undir þessu magni. Miðað við 95 þús. tonna meðalbirgðir þessi síðustu tvö ár, 1980 og 1981, þarf Ísland að auka birgðahald sitt um 34 þús. tonn til að fullnægja 90 daga birgðaskyldu.

Það er að sjálfsögðu öryggisatriði, sem við gerum fyrst og fremur fyrir okkur en ekki vegna þess að við yrðum aðilar að einhverri alþjóðastofnun, að við tókumst á hendur að hafa slíkar birgðir af olíu í landinu á hverjum tíma. Og ég er sammála því sem fram kemur í grg. með frv. að það sé eðlilegt að fela olíufélögunum að sjá um þessa skyldu og heimila þá á móti nokkra verðhækkun, sem leiðir af auknu birgðahaldi, en eins og fram kemur í grg. frv. er talið að meðalhækkun verði 1.6% vegna þess.

Hugmyndin um að við gerðumst aðilar að Alþjóðaorkustofnuninni kom fyrst fram í skýrslu olíuviðskiptanefndar sem kom út árið 1979. Í kjölfar þess var svo gerð ítarleg skýrsla um þetta mál sem kom út í júní árið 1980. En nú eru liðin rúmlega tvö ár síðan þessi ítarlega skýrsla kom út og málið hefur verið í athugun í viðskrn. síðan. Ég held að það fari ekkert á milli mála að um þetta mál var ágreiningur innan hæstv. ríkisstj. Alþb. var andvígt því að við gerðumst aðilar að þessari stofnun. Þetta er eitt af þeim málum sem þeir Alþb.-menn hafa tekið sér stöðvunarvald í innan hæstv. ríkisstj. þar til nú að þetta frv. kemur fram. Vegna þessarar forsögu finnst mér rétt að spyrja hæstv. viðskrh. hvort um þetta mál sé fullkomin samstaða innan ríkisstj.

Ég er þeirrar skoðunar að með því að gerast aðili að þessari stofnun séum við að auka öryggi okkar í olíumálum. Við tökumst að vissu leyti á herðar ákveðnar skyldur líka, en fáum í staðinn réttindi og tryggjum öryggi okkar í þessum mjög mikilvæga þætti, raunar grundvallarþætti í okkar atvinnu- og efnahagslífi. Ég vil því í stórum dráttum fýsa því yfir, að ég er sammála þessu frv. Ég áskil mér að sjálfsögðu rétt til þess að skoða það nánar, enda er ég í þeirri nefnd sem fær frv. til athugunar. En mér þótti þó rétt að láta þessi sjónarmið koma hér fram strax í 1. umr.