10.11.1982
Neðri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

33. mál, neyðarbirgðir olíu

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. hefur nú lagt fram að nýju frv. til l. um neyðarbirgðir olíu sem hann kynnti í hv. Ed. á síðasta þingi. Eins og menn rekur minni til var flutt hér í Sþ. þáltill. um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni á síðasta þingi, og raunar á þinginu þar áður, en varð ekki útrædd. í umr. um till., sem hv. þm. Eiður Guðnason mælti fyrir, lýsti ég andstöðu minni við till. og taldi Íslendinga ekkert erindi eiga í þennan forréttindaklúbb hinna auðugu þjóða heimsins, hvorki siðferðilega né af arðsemisástæðum. Í umr. í hv. Ed. sagði hæstv. viðskrh. orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég ætla að það séu langflestir þm. fylgjandi því, að Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni. Ég áforma því að sjálfsögðu að endurflytja frv. á hausti komanda. Það er út af fyrir sig alveg rétt, að nafnið á frv. er Neyðarbirgðir olíu. Það heitir ekki Frv. um aðild að Alþjóðaorkustofnuninni.“ Mál hæstv. ráðh. ruglast síðan vegna framíkalla, sem ekki eru prentuð í Alþingistíðindum, en hann heldur síðan áfram, með leyfi forseta: „Það skal ég ekki um segja, um það má deila. Meginkjarni þessa máls er að tryggja Íslendinga í olíumálum. Það er meginkjarninn. 1. gr. frv. fjallar um það að til þess að tryggja þetta, stuðla að því, heimilar frv. að Ísland gerist aðili að stofnuninni.“

Þetta hlýtur að teljast undarleg röksemdafærsla. Sé meginkjarni þessa frv. að tryggja olíumál Íslendinga, og til þess sé nauðsynlegt að gerast aðili að Alþjóðaorkustofnuninni, væri vitanlega eðlilegast að frv. héti Frumvarp til laga um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni. Sú aðild hlýtur að vera mergurinn málsins, enda sagði hæstv. ráðh. í viðtali í Ríkisútvarpinu nýlega að þetta frv., sem hér er nú lagt fram fæli í rauninni í sér aðild Íslendinga að Alþjóðaorkustofnuninni. Það hlýtur að vera skylda löggjafans að skýra frv. sinu rétta nafni, þó ekki væri nema til að auðvelda mönnum að finna lög í lagasafni. Fæstir mundu leita laga sem hétu Lög um neyðarbirgðir olíu ef þeir vildu kynna sér lög um aðild Íslendinga að Alþjóðaorkustofnuninni.

Ég tel nauðsynlegt að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls einnig nú, þó að ég geri það í umr. á síðasta þingi eins og hæstv. ráðh. Nafnið Alþjóðaorkustofnunin er auðvitað fullkomlega villandi. Einungis OECD-ríkin eru aðilar að þessari stofnun að undanskildu Frakklandi, Íslandi og Finnlandi. Aðeins 20% jarðarbúa eru því aðilar. Og það eru einmitt þau 20% sem yfir mestum auði ráða. Fátækustu þjóðir heimsins eru útilokaðar. Því leyfi ég mér enn, eins og ég gerði í fyrra, að kalla þessa stofnun klúbb hinna ríku.

Alþjóðaorkustofnunin var sett á laggirnar til að tryggja sameiginlega hagsmuni hinna ríku olíukaupaþjóða fyrir hugsanlegum aðgerðum fátækra og vanþróaðra olíusöluríkja. Forríkar þjóðir eins og Bandaríkin, Vestur-Þýskaland og fleiri vildu með henni mynda varnarmúr gegn OPEC-ríkjunum, sem seldu olíu, þegar þau vildu öðlast meiri arð af auðlindum sínum með hækkun olíuverðs til viðskiptaríkjanna. Það er því siðferðileg spurning fyrir okkur hér í landi og hið háa Alþingi hvort við sækjumst eftir að vera félagar í þessum klúbbi, sem Nixon Bandaríkjaforseti átti upptökin að árið 1974, og sem einungis stuðlar að meiri fátækt hinna fátæku og meiri auðlegð hinna ríku. Þegar litið er til hvert beint gagn Íslendingar kunna að hafa af aðild að Alþjóðaorkustofnuninni, að öllum siðferðisvangaveltum slepptum, sýnist ýmislegt vanta í röksemdafærslu hæstv. ráðh. og annarra áhugamanna um aðildina. Það er öllum ljóst að Alþjóðaorkustofnunin er fyrst og fremst byggð á þörfum hinna voldugu iðnríkja Evrópu og Bandaríkjanna, sem hafa grundvallað orkumarkað sinn á innfluttri olíu. Það er því skilyrðislaus krafa af hálfu Íslands að á engan hátt sé gengið á rétt okkar og forræði yfir okkar eigin orkuauðlindum. Ég dreg í efa að sá réttur sé tryggður með þessu frv., ef menn ætla sér að samþykkja það.

Í Noregi var t.d. ítarleg umræða um skilyrði Norðmanna fyrir aðild. Menn hafa ennþá efasemdir um réttmæti þess að þeir gerðust aðilar. Innan Alþjóðaorkustofnunarinnar eru menn heldur ekki á eitt sáttir um hvort stefnumörkun hennar í orkumálum sé lagalega bindandi fyrir einstök aðildarríki eða ekki. Og Norðmenn settu einmitt þau skilyrði fyrir aðild að hvorki þeir né Íslendingar, ef þeir gerðust aðilar, féllust á þann skilning að stefnumörkun stofnunarinnar hefði lagagildi.

Voru þeir þá auðvitað með ónýttar auðlindir þessara tveggja þjóða í huga. Ótti manna um að aðild að stofnuninni skerði verulega rétt einstakra ríkja til sjálfstæðra samninga við olíusöluríkin er einnig vissulega á rökum reistur. Slík skerðing réttinda Íslendinga til samninga gæti verið alvarlegt áfall fyrir okkar eigin markaði og því full ástæða til að hyggja að þessum þætti málsins.

Þá er einnig full ástæða til að draga í efa gagnsemi þess ákvæðis frv. sem snýr að skyldum Íslendinga til að miðla öðrum ríkjum olíu af varaforða sínum. Hætt er við að hagsmunir iðnríkjanna væru metnir meira en hagsmunir okkar ef til olíukreppu kæmi.

Í ræðu sinni sagði hæstv. ráðh. að um umtalsverðan kostnað yrði að ræða — þá á ég við ræðu ráðh. sem birt er í Alþingistíðindum frá því í fyrra — að um umtalsverðan kostnað yrði að ræða, ef þetta frv. yrði að lögum, og þá auðvitað einhver hækkun á olíuverði. Það er erfitt að koma auga á nauðsyn aðgerða sem valda hækkun á olíuverði til neytenda á þeim tímum sem fram undan eru. Manni hlýtur að verða spurn: Hver á að borga vextina af þessum birgðum? Ætli það verði ekki neytendur?

Þær skýrslur sem gerðar hafa verið um gagnsemi aðildar Íslendinga að Alþjóðaorkustofnuninni hafa hingað til reynst í meira lagi vafasamar og í sumum tilvikum beinlínis rangar. Það verður því að vera afsakanlegt þó að yfirlýsingum um nægilegt geymarými nú fyrir 90 daga neyðarbirgðir olíu sé tekið með nokkrum fyrirvara. Að öðru leyti hef ég áður gert grein fyrir skoðun minni á þessu máli.

Ég vil að lokum einungis segja þetta. Aðild Íslendinga að Alþjóðaorkustofnuninni er langt frá því að vera einfalt mál, heldur mál sem þarfnast vandlegrar íhugunar og nákvæmrar athugunar í þeim nefndum sem fá frv. til meðferðar, enda sagði ráðh. í ræðu sinni hérna rétt áðan að þróunin hefði orðið allt önnur í olíumálum en spáð hefði verið fyrir tveimur árum. Ég vil enn og aftur ítreka þá réttmætu ósk mína að nafni frv. verði breytt til samræmis við efni þess. Annað er ekki sæmandi. Persónulega lýsi ég andstöðu minni við frv. í heild þar til haldbetri rök liggja fyrir um nauðsyn aðildarinnar fyrir Íslendinga af gagnsemisástæðum, svo og fyrir þeirri stefnu þjóðarinnar og Alþingis að eiga aðild að slíkum forréttindaklúbbi sem þessi stofnun er.

Herra forseti. Ég vil að lokum gera aths. við það þskj. sem hér liggur fyrir. Ef ég er ekki alveg hætt að skilja hlutina, þá sé ég ekki betur en á þskj. því sem hér liggur fyrir nr. 33 séu bls. 89– 94 eingöngu á enskri tungu. Það verður að teljast lágmarkskrafa að allur þorri manna geti lesið þskj. sem lögð eru fram hér á hinu háa Alþingi á sinni eigin tungu. Vel kynni að vera að einhver þm. væri ekki mjög vel læs á flókna hluti eins og olíumál á enskri tungu. Ég hygg að það vefjist fyrir ýmsum borgurum þessa lands að lesa slíkan texta á íslensku, hvað þá á ensku. Ég vil mælast til að framvegis verði þskj. á íslensku máli.