14.03.1983
Efri deild: 69. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3099 í B-deild Alþingistíðinda. (3097)

Tilhögun þingfunda

Forseti (Helgi Seljan):

Nú er nokkuð liðið á matartíma og ég veit ekki að hvaða samkomulagi ég get komist við hv. deildarmenn um nýjan fund. Ég sé að ekki hefur verið útbýtt ennþá minnihlutaáliti um lánsfjárlagafrv. Ég hef ekki lagt í vana minn að taka mál á dagskrá án þess að minnihlutaálit lægi fyrir, en frv. til lánsfjárlaga er það mál sem ég vonast til þess að hv. þdm. muni vera sammála um að taka fyrir síðar í dag og afgreiða. Hér er sömuleiðis um mál að ræða sem ég vil gjarnan koma að, þ.e. eignarréttur ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Það er 2. umr. um það mál. Það er einróma nál. sem liggur fyrir um það mál þó málið muni ekki ganga lengra samkv. því nál. Einnig hef ég verið beðinn sérstaklega að taka fyrir 6. dagskrármálið frá 68. fundi, lán vegna björgunar skipsins „Het Wapen“.

Á þessu stigi málsins er nokkuð erfitt um það að segja hvort framhald verður á fundum, en ég nefni þessi mál hér sérstaklega þar sem þau eru öll á því stigi að ég hygg að hv. deildarmenn séu sammála um að við hljótum að reyna að fá afgreiðslu á þeim þar til þá annað kemur í ljós. En ég hygg að á þessu stigi málsins verði vart annað gert en að fresta þessum fundi þar til að loknum fundi í Sþ., sem hefur verið. boðaður klukkan eitt, og er þá óvíst hvenær næsti fundur verður. Dagskrá þess fundar verður þó vonandi orðin ljós, hvaða mál þar verða fyrir tekin. Þessum fundi er þá frestað þar til að loknum fundi í Sþ. — [Fundarhlé.]