14.03.1983
Efri deild: 70. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3099 í B-deild Alþingistíðinda. (3099)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hv. Ed. tók þátt í umfjöllun Nd. um málið. Síðan málið kom hingað til hv. Ed. hefur nefndin haldið tvo fundi um frv. og fengið viðbótarupplýsingar frá Seðlabanka og Húsnæðisstofnun.

Það hefur komið fram í umræðum um þetta mál, bæði hér og í hv. Nd., að æskilegt hefði verið að fá lengri tíma til að fjalla um frv. Ljóst er þó að mikla nauðsyn ber til þess að afgreiða það hér og nú, einkum og sér í lagi vegna þess að í frv. felast veigamiklar takmarkanir á erlendum lántökum og það er skoðun okkar margra að ef afgreiðslu málsins yrði frestað mundi það fyrst og fremst hafa í för með sér aukinn þrýsting á að taka meiri erlend lán en gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ég þakka hv. meðnefndarmönnum mínum fyrir gott samstarf við afgreiðslu þessa máls við erfiðar aðstæður og óska minni hl. nefndarinnar til hamingju með það að honum hefur tekist, þrátt fyrir lítinn tíma, að útbúa hér myndarlegt nál. upp á 15 vélritaðar síður, sem mælt verður fyrir hér á eftir. Það sýnir að innan þessarar nefndar eru ötulir og duglegir starfsmenn, sem geta tekið fyrir hin stærstu mál við erfiðar kringumstæður. Þótt ég sé ekki sammála öllu því sem í þessu minnihlutaáliti er, þá er það engu að síður vel úr garði gert.

Við úr meiri hl. leggjum hins vegar til að frv. verði samþ. óbreytt.