10.11.1982
Neðri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

33. mál, neyðarbirgðir olíu

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umr. er í einu og öllu í fullu samræmi við þáltill. sem þm. Alþfl. lögðu fram haustið 1981. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir taldi það varasamt að gera gagnkvæma samninga sem gætu leitt til þess að við þyrftum að afhenda iðnaðarveldum hluta af okkar neyðarbirgðum af olíu. Ég reikna nú ekki með því að iðnaðarveldin mundi muna mikið um það sem við ættum af olíu. Aftur á móti ef illa færi, þá gætum við grætt mikið á aðgangi að þeirra neyðarbirgðum.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði að nafnið á frv. væri villandi. Ég er henni sammála um það. Eðlilegast væri að nafnið á frv. væri Frv. til l. um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni. En það skiptir kannske ekki höfuðmáli. Alþfl. styður þetta frv.