10.11.1982
Neðri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

33. mál, neyðarbirgðir olíu

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég vil fyrst láta í ljós ánægju yfir því að frv. hefur fengið góðar undirtektir þeirra sem hér hafa talað, ef frá er talinn hv. þm. Guðrún Helgadóttir. Og það var í rauninni sama þegar ég lagði frv. fram og talaði fyrir því og umr. fór fram í Ed. Alþingis á síðasta þingi. Það er því ástæða til að láta í ljós ánægju yfir þessu.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson spurði hvort fullt samkomulag væri innan ríkisstj. um frv. Ég svara þeirri spurningu játandi. Það er fullt samkomulag um frv. innan ríkisstj. og það er lagt fram í annað sinn sem stjfrv.

Varðandi nafngiftina á frv. má kannske um það deila hvort frv. á að heita Frv. til l. um neyðarbirgðir olíu eða Frv. til l. um aðild að Alþjóðaorkustofnuninni. Það kann vel að vera. Það fer alveg eftir því hvort menn vilja leggja aðaláhersluna á olíuþáttinn í þessu máli. Ef Ísland gerist aðili að samningi um alþjóðaorkuáætlunina, sem gerður var í París, þá er Ísland orðinn aðili að Alþjóðaorkustofnuninni. þannig varð Alþjóðaorkustofnunin til. Hún varð til með því að nokkrar þjóðir, þær voru 16 talsins á sínum tíma, gerðu með sér samning sem heitir Samningur um alþjóðaorkuáætlun. Þannig varð stofnunin til. En það má deila um það, ég tek undir það, hvort frv. eða lögin, ef að lögum verður, eigi að heita Lög um aðild að Alþjóðaorkustofnuninni eða ekki. Ég vil þó vekja athygli á því að þetta er heimildarfrv., þetta er frv. sem aðeins heimilar ríkisstj. að gerast aðili að Alþjóðaorkustofnuninni. Með því að samþykkja frv. er ekki samþykkt að Ísland verði aðili að Alþjóðaorkustofnuninni. Það hefur e.t.v. líka þýðingu í sambandi við heiti frv.

Það sem mér er langefst í huga í sambandi við þetta mál er fyrst og fremst eitt. Það er að tryggja Íslandi með öllum mögulegum ráðum næga olíu, koma í veg fyrir það að við verðum olíulausir, koma í veg fyrir það að fiskiflotinn verði olíulaus, því að í raun og veru byggist okkar efnahagslega tilvera langsamlega mest á því að hægt sé að reka fiskiflotann truflunarlaust. Það eru margir sem tala um að fiskiflotinn sé of stór o.s.frv. Ég skal ekki ræða það hér og nú. En því verður ekki á móti mælt að truflunarlaus rekstur — eða sem truflunarminnstur rekstur íslenska fiskiflotans er náttúrlega undirstöðuatriði fyrir okkar efnahagslega sjálfstæði og afkomu. Mér er þess vegna langefst í huga öryggið í olíumálum fyrir atvinnuvegina og svo að sjálfsögðu fyrir ýmsa aðra þætti í okkar þjóðlífi, upphitun og margt og margt fleira. Hér er um að ræða að mínu mati fyrst og seinast spurninguna um það að tryggja okkur á þessum vettvangi. Ég er þeirrar skoðunar að við munum tryggja okkur, auka á tryggingu með því að gerast aðilar að Alþjóðaorkustofnuninni. Ég er hiklaust þeirrar skoðunar. Og við erum ekki einir um þessa skoðun. Þjóðir eins og Norðmenn, Svíar og Danir af Norðurlandaþjóðunum og svo allar Vestur-Evrópuþjóðirnar og margar fleiri eru þegar orðnar aðilar að þessari stofnun.

Hvort við erum að ganga í einhvern sérstakan klúbb, það álít ég ekki vera, vegna þess að við erum þegar í klúbb, við erum aðilar að Efnahags- og framfararstofnuninni í París og erum búnir að vera það lengi, og ég er ekki í nokkrum vafa um að við höfum haft margvíslegan ávinning af þeirri aðild í gegnum árin.

Varðandi kostnað við þetta, þá er hann tvenns konar. Það er fyrst og fremst kostnaður sem stafar af því að við þurfum að auka okkar olíubirgðahald. Ég held að við ættum að stefna að því að koma okkur upp 90 daga birgðum alveg hiklaust, hvort sem við göngum í Alþjóðaorkustofnunina eða ekki. Eins og hér er ástatt hjá okkur, bæði í okkar atvinnulífi og að öðru leyti, að við búum á eyju allafskekktri, held ég að ekki sé forsvaranlegt annað en við eigum í öllum tilvikum talsvert verulegar varabirgðir af olíu. Sannleikurinn er sá, að þó að það hafi aldrei orðið að slysi, þá hefur það legið nærri. Það þarf ekki annað en það verði einhverjar truflanir á olíuflutningum eða eitthvað slíkt, þegar við eigum minnst af birgðunum, þar þarf ekki annað að koma til en verulegar seinkanir á afhendingu og truflanir til þess að við getum átt í erfiðleikum. Og það hefur legið mjög nærri í mörgum tilvikum. (GJG: Eigum við ekki alltaf 3–4 mánaða birgðir?) Nei, við eigum það nú ekki, við eigum það yfirleitt ekki. Það er misjafnt yfir árið, en birgðirnar hafa aukist. Við þurfum að auka þær úr líklega 90 þús. tonnum upp í 129 þús tonn til þess að — (Gripið fram í.) Já, það er misjafnt. Það er alger tilviljun sem ræður því hvernig við erum staddir með birgðir og hvernig sveiflur eru í olíuverðinu. En við þurfum að auka birgðirnar nokkuð til þess að við eigum 90 daga birgðir í öllum tilvikum. Sé ástæða til þess fyrir þjóðir eins og t.d. Vestur-Evrópuþjóðirnar, Norðurlandaþjóðirnar, Svíþjóð, Danmörku og Noreg, þá er áreiðanlega ekki síður ástæða til þess fyrir okkur íslendinga, eins og hér er ástatt, að við eigum a.m.k. 90 daga birgðir af olíu á öllum tímum.

Varðandi aths. hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur um enskuna get ég tekið undir hana. Þetta var nú sett inn til þess að það væri með, en það var auðvitað ekki nauðsynlegt. Ég get alveg tekið undir það atriði.

Um málið að öðru leyti, að það fái ítarlega meðferð í þingnefndum, þá er það sjálfsagt mál og eðlilegt. En ég vil benda á það að málið hefur fengið geysilega ítarlega meðhöndlun. Ég er ekki viss um að mörg mál hafi fengið ítarlegri meðferð áður en þau hafa verið lögð fram á Alþingi heldur en þetta mál. Það hefur fengið mjög vandlega meðferð að mínum dómi og ég álít að það sé lagt fyrir þingið þannig að það séu til staðar í þeim þskj. sem fylgja frv. flestar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að menn marki sér afstöðu um málið. Þó kann að vera fleira, sem ástæða er til að spyr ja um, og þá er það auðvitað verkefni þingnefnda að fjalla um það og fá fyllri upplýsingar um hvaðeina sem menn sjá ástæðu til að spyrja nánar um.