14.03.1983
Efri deild: 70. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3112 í B-deild Alþingistíðinda. (3110)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem kemur fram hjá forseta, að ég hef fallist á að reifa þetta mál eftir eindregnar óskir forseta, þó að ekki séu allir mættir sem ég óskaði að væru viðstaddir.

Það er um þetta mál að segja, eins og kemur fram í nál. frá mér, að við umfjöllun nefndarinnar komu fram margvíslegar mjög mikilvægar upplýsingar.

Þær voru mikilvægastar í fyrsta lagi, að það væri nú ekki vitað um nákvæma staðsetningu skipsins þó að hér hefði verið dreift uppdráttum, sem virtust gefa það til kynna þó það væri hvergi nákvæmlega sagt, heldur þyrfti að framkvæma frekari boranir til að ganga úr skugga um staðsetningu þess hlutar sem greinilega væri þarna fyrir neðan, hvort heldur það væri þetta skip eða eitthvað annað. Boranir af þessu tagi þyrftu ekki að kosta stórfé.

Hin upplýsingin, sem var mjög mikilvæg, var sú og ekki síður mikilvæg, að það að grafa upp skipið kostaði að vísu kannske 50 millj. kr., en að vernda það eftir að það kæmi upp mundi kosta langtum meira. Ég minnist þess, að þegar ég var við nám í Svíþjóð var þar úr sæ dregið Vasa-skipið og það voru náttúrlega feikilegar tilfæringar við að hindra þornun þess því að ef viður sem hefur geymst svo lengi í raka nær að koma upp á yfirborðið og um hann leikur andrúmsloft molnar hann og verður að engu á mjög skammri hríð nema gripið sé til mjög víðtækra ráðstafana. Við stöndum sem sagt frammi fyrir því, að annaðhvort þarf stórfé, ef hér er um þetta skip að ræða, til þess að sjá til þess að þessar fornminjar geymist og séu verndaðar, ellegar þá að hætta er á því að ört skemmist og verði að engu í höndum okkar.

Það kom líka fram í máli þjóðminjavarðar að hér væri í sjálfu sér ekki um íslensk menningarverðmæti að ræða. Ef hér væri um þetta skip að ræða, og við göngum út frá því, væri náttúrlega um hollensk verðmæti að ræða. Þó að mönnum geti þótt gaman og spennandi að leita að þessu skipi og við eigum sögusagnir um strand þess og þar fram eftir götunum og munnmælasagnir sem hafa gengið allar götur síðan, m.a. í Skaftafellssýslunni, er engu að síður ekki um íslensk menningarverðmæti að ræða.

Nú hefur meiri hl. fjh.- og viðskn. brugðið á það ráð að setja hér alls konar skilyrði varðandi ábyrgð á láni af þessu tagi. Ég tel reyndar að Alþingi hafi nokkra reynstu af því að svona skilyrði séu ekki sérlega haldgóð. Ég minni t.d. á Flugleiðamálið á sínum tíma, sem var afgreitt með alls konar skilyrðum í nál., en hafði náttúrlega ekkert lagahald og niðurstaðan varð sú að þau skilyrði voru haldin svona upp og ofan. Ég tel að það sé langtum réttara í þessu máli að Alþingi taki afdráttarlausa ákvörðun um hvað það telji rétt vera. Mín skoðun er sú eftir þessar upplýsingar, að það sem eigi að gera sé að framkvæma þarna frekari rannsóknir í sumar og ganga betur úr skugga um hvað þarna sé niðri fyrir, reyna að komast að því hvort um sé að ræða það skip sem menn telja að sé þarna og vissulega benda margvíslegar líkur til, en ekki halda öllu lengra.

Í samræmi við þetta hef ég flutt hér brtt. um að það verði heimilað að ábyrgjast lán allt að 3 millj. kr. til rannsóknaborana. Ég legg það í rauninni í vald fjmrn. og fjvn. hverjum sé veitt sú heimild. Mín skoðun er sú, að það sé eðlilegt að rannsóknastofnanir, eins og Þjóðminjasafnið og raunvísindadeild Háskólans, hafi þarna hönd í bagga og það verði gert ráð fyrir að þær komi inn í þessa mynd og vitneskja þeirra verði nýtt, en að öðru leyti er það lagt í vald fjmrh. og fjvn. hverjum sé veitt þessi heimild.

Ég vil vekja athygli á fskj. með nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. þar sem kemur fram ítarleg úttekt á þessu frá Leó Kristjánssyni forstöðumanni jarðeðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans. Hann bendir á að það sé í sjálfu sér ekki hægt að fullyrða annað en að þarna séu einhvers staðar á bilinu 100–400 tonn af járni. En hann bendir líka á að það sé nauðsynlegt að framkvæma frekari rannsóknir til þess að komast að því hvað niðri fyrir búi.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta á þessu stigi, herra forseti, en ég tel að umfjöllun nefndarinnar hafi leitt í ljós að menn verði að fara fram í þessu máli með gát.