10.11.1982
Neðri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

33. mál, neyðarbirgðir olíu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil strax í upphafi máls míns lýsa mig andvígan þessu frv. til l. um neyðarbirgðir olíu o.fl. Ég tel að þessar 90 daga birgðir sem rætt er um að eigi að tryggja öryggi okkar geri þveröfugt. Þessi tilhögun tryggir ekki öryggi okkar. Hún stefnir öryggi okkar í hættu af þeirri einföldu ástæðu að við göngum undir þá kvöð að önnur aðildarríki að Alþjóðaorkustofnuninni hafa aðgang að okkar neyðarbirgðum á afbrigðilegum tímum, eins og t.d. stríðstímum, ef þarf að flytja olíu frá einu aðildarríki til annars. Ef við erum hér með 60 daga olíubirgðir, þá höfum við þessar 60 daga olíubirgðir fyrir okkur í 60 daga. Ef við höfum 90 daga olíubirgðir, þá höfum við 90 daga olíubirgðir sem aðildarríki Alþjóðaorkustofnunarinnar hafa aðgang að fyrir sína starfsemi. Og hún stóreykst náttúrlega á stríðstímum hjá flestum þessara aðildarríkja ef ekki öllum, en okkar neysla breytist ekkert þó að stríð skelli á. Við höfum ekki þau stríðstæki sem þurfa á olíu að halda á afbrigðilegum tímum.

Ég vil vara við þessu frv. Þetta er lagt hér fram á fölskum forsendum. Í þeim samningum sem hér liggja fyrir og eru samningar á milli þeirra ríkja sem þegar eru aðilar að þessari alþjóðastofnun eru ákvæði sem heimila þeim vissan aðgang að orkulindum okkar til samnýtingar, að sjálfsögðu ef samkomulag næst, en það samkomulag er opið til umr. við samþykki þessa frv., svo að ég vara við því. Það eru settar ákveðnar takmarkanir og ég veit að hæstv. ráðh. olíumála okkar mun vitna í þau ákvæði sem eru sett til bráðabirgða fyrir okkur sem eins konar trygging fyrir því að önnur ríki hafi ekki aðgang að okkar innanlandsorku. En þær takmarkanir liggja ekki hér fyrir, og eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir gagnrýndi hér áðan, hefur texti þeirra ekki enn verið þýddur úr ensku þannig að það er ekki farið að ræða þær. En eins og kom fram á fundi utanrmn., sem hæstv. ráðh. vitnaði til, þá er ekkert verið að opna leið til þess að gerast aðili að Alþjóðaorkumálastofnuninni. Það er verið að undirbúa inngöngu í hana. Og ég vil taka það fram að ég er á móti því. Í þessu tilfelli förum við inn á fundi, þó gaman sé að vera stór, hjá stóru strákunum í París, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir orðaði það. Ég sé margar hættur í þessu og vara við samþykki þessa frv.

Hæstv. ráðh. gat um það, ef ég hef tekið rétt eftir, að í landinu væru sem svarar 75% af þeim birgðum sem þyrftu að vera í landinu, við þyrftum að auka birgðirnar um 34%, og það væri svo sem allt í lagi vegna þess að þetta kostaði ekki mikið, það kostaði 1.6% verðaukningu á olíunni. 1.6% á verðið eins og það er nú, sem vitað er að er 9–10, jafnvel upp í 15 % lægra en það þarf að vera til þess að olíufélögin tapi ekki? Nú standa málin þannig, að það olíufélag sem er hvað best rekið og skuldar hvað minnst er í ca. fjórum sinnum meiri yfirdrætti við sinn viðskiptabanka en það gerði ráð fyrir samkv. áætlun. Og hver á þá að fjármagna þessa umfram 34%? Það verður ekki gert af viðskiptabönkunum. Það verður ekki gert með yfirdrætti í Seðlabankanum, þar sem viðskiptabankarnir þurfa að borga 50–60% eða upp í 70% núna með nýjum reglum fyrir yfirdráttarheimild á viðskiptareikningi. Peningana eiga viðskiptabankarnir ekki. Hver á þá að fjármagna þetta? Ætlar ríkissjóður að gera það eða Seðlabankinn? Viðskiptabankarnir geta það ekki og það er hæstv. bankamálaráðh. ljóst. Hann ætti að tala við hæstv. viðskrh. og olíumálaráðh. einhvern tíma í góðu tómi um þessi mál.

Hér segir í 2. gr.: „Til að uppfylla skuldbindingar Íslands samkv. samningum um alþjóðaorkuáætlun getur ríkisstj. tekið ákvarðanir eða sett reglur um eftirfarandi:

a) skyldu aðila, (þ.e. olíufélögin líklega í þessu tilfelli.) sem flytja inn eða framleiða olíuvörur eða jarðolíu, til að halda svo miklar birgðir að Ísland eigi nægar neyðarbirgðir olíu sbr. m.a. I. kafla samningsins.“

Og þetta eru félögin sem ég var að tala um að væru fjárvana, ættu ekki fyrir þeim birgðum sem þau eru með í dag. En það þarf að skylda þá til þess arna.

Síðan kemur í 3. gr. með leyfi forseta: „Ef almannaþörf krefur getur ríkisstj. framkvæmt eignarnám til að tryggja takmörkun á eftirspurn eftir olíu og hugsanlega úthlutun hennar á neyðartímum.“ Er þetta virkilega eftir samningnum við Alþjóðaorkustofnunina? Gæti ríkisstj. ekki orðað þessa 3. gr. eitthvað á þá leið: Ef almannaþörf krefur getur ríkisstj. framkvæmt aðgerðir — í staðinn fyrir eignarnám — til að tryggja takmörkun? Nei, nei, hún skal hafa það eignarnám. Þannig mætti lengi telja.

Ég ætla ekki að eyða tíma þessarar hv. deildar í að tæta þetta svona í sundur. En það er margt í þessu frv. sem réttlætir afstöðu Ed. — ef ég skildi hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur rétt hafði Ed. ekki samþykkt þetta. (Gripið fram í.) Nú það var ekki útrætt. En hvað sem því líður er svo margt sem réttlætir það að frv. fái ekki brautargengi hérna, jafnvel þó að frv. sé svo til eins og frv. Alþfl. 1980. Það er líka nokkur trygging fyrir því að það er kolvitlaust og þá á að varast að samþykkja það.

En það er mín skoðun að þetta fyrirkomulag varðandi neyðarbirgðir í 90 daga með þeim skilyrðum sem Alþjóðaorkustofnunin setur sé verra fyrir okkur heldur en að fá að vera í friði með okkar 60 daga birgðir án kvaða.