14.03.1983
Neðri deild: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3128 í B-deild Alþingistíðinda. (3140)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Um málflutning hv. 1. þm. Reykn. vil ég segja það, að það þýðir lítið að samþykkja langtímaáætlun í vegagerð, en neita svo að samþykkja tekjur til að standa undir þeim framkvæmdum sem áætlunin gerir ráð fyrir.

Ég hef, ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, leyft mér að flytja brtt. við dagskrármálið á þskj. 632. Brtt. gengur út á það, að þeir einir verði undanþegnir veggjaldinu sem njóta elli- og örorkulífeyris með tekjutryggingu samkv. lögum um almannatryggingar. Með þessu er tryggt að þeim allra tekjulægstu verði hlíft við gjaldinu, öðrum ekki. Annars vegar er það haft í huga að þeim allra tekjulægstu verði hlíft við auknum álögum og hins vegar að lækkun tekna af gjaldinu verði sem allra minnst.