14.03.1983
Neðri deild: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3128 í B-deild Alþingistíðinda. (3141)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja við hv. 6. þm. Norðurl. e., sem talaði áðan hátt og mikið og ásakar okkur sjálfstæðismenn fyrir það að vera í einhverjum kosningaleik þegar við lýsum því yfir að við séum andvígir þessum skatti, að afstaða Alþfl. til þessa máls kemur að sjálfsögðu engum á óvart. Alþfl. hefur verið fyrstur til að rétta upp hendi með öllum nýjum sköttum sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt til að settir verði á og Alþfl. í vinstri stjórninni, sem mynduð var 1978 og er raunar forveri þessarar stjórnar, átti reyndar frumkvæðið að mörgum þeim skattahækkunum sem síðan hafa haldist í gildi og hafa gert að verkum að skattbyrði á landsmönnum hefur aukist ár frá ári.

Það eru ákaflega auðveld rök að koma hér og segja að ekki sé hægt að vera á móti nýjum sköttum nema menn beri fram einhverjar till. á móti. Allir nýir skattar eru rökstuddir með þessum hætti. Ég vil hins vegar benda á að það eru ekki nema sennilega um 10 dagar síðan hæstv. fjmrh. kom í Ríkisútvarpið og lýsti því yfir að það væri enginn vandi að taka á ríkissjóð ný stórfelld útgjöld. Þá var verið að ræða um að almennar tryggingar tækju á sig 20% tannlæknakostnaðar, sem sumir hafa talið að þýddi ekki minna en 100 millj. á ári. Þá kom hæstv. fjmrh. í Ríkisútvarpið og sagði að það væri enginn vandi að standa undir þessum gjöldum vegna tekjuafgangs ríkissjóðs. Hér er um að ræða svipaða upphæð og verið er að tala um í sambandi við þennan nýja skatt. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu. Með því geta menn séð hve haldlítill er málflutningur Alþfl.manna í þessu máli.

Ég vil í annan stað mæla hér fyrir brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Albert Guðmundssyni, en hún snertir gjalddaga á þessu gjaldi. Það hafa að vísu orðið breytingar á þessu frv. á þá leið að í stað þess að gjalddagi átti að verða 1. apríl og eindagi 1. maí hefur sú nefnd sem með þetta mál hafði að gera gert þær breytingar að gjalddagi færist til 1. júní. Hér er um að ræða nýtt gjald og ég flyt þessa brtt. vegna þess að mér sýnist að vonlaust sé að koma í veg fyrir að þessi skattur verði á lagður. Það er greinilega mikill meiri hluti fyrir honum hér í þessari hv. deild, þar sem stjórnarliðar og Alþfl. hafa sameinast í þessu máli. En sú brtt. sem við flytjum gerir það að verkum að innheimta skattsins verði nokkuð milduð frá því sem ráðgert er. Okkar till. birtist á þskj. 599 og er á þá leið, að á árinu 1983 megi skipta greiðslu gjaldsins í tvo jafna hluta á tveimur gjalddögum, þ.e. 1. júní og 1. sept., og að eindagar hvors hluta gjaldsins séu einum mánuði eftir gjalddaga. Ég held að það sé alveg ljóst að þegar verið er að leggja á nýja skatta, eins og hér um ræðir, skatta sem menn hafa ekki gert ráð fyrir í sínum útgjaldaáætlunum, ekki gert ráð fyrir þessum sköttum í sínum rekstri, sé eðlilegt að milda nokkuð þessa innheimtu, og okkar till. miðar að því að það sé gert með því að skipta greiðslu gjaldsins í tvo jafna hluta.

Ég vil þá örlítið víkja nokkuð að fjármátum almennt, skattlagningu og tekjuöflun í sambandi við vegagerð hér á undanförnum árum. Samhliða þessum skatti er verið að fjalla um till. til þál. um vegáætlun, sem á eftir að koma til endanlegrar afgreiðslu í Sþ. Það er því nauðsynlegt að líta á þessi mál nokkuð í samhengi.

Ef við aðeins áttum okkur á nokkrum höfuðatriðum í skattlagningu á bifreiðar og rekstur þeirra og vegamála á valdatíma þeirra flokka sem flestu hafa ráðið í þessum efnum síðan 1978, þ.e. Alþb. og Framsfl., eru megindrættirnir í þeirri stefnu eins og hér segir:

Í fyrsta lagi hafa skattar á bensín hækkað milli áranna 1978 og 1983 á föstu verðlagi um 438 millj. kr. eða um 54%. Hér er að sjálfsögðu um að ræða mjög mikla hækkun, en hækkun.sem þó er í fullkomnu samræmi við aðrar þær skattahækkanir sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir.

Í öðru lagi: Þó að hér sé um mikla skattahækkun að ræða hefur hún ekki verið notuð til vegamála nema að sáralitlu leyti. Þessi skattahækkun hefur nánast öll farið til að auka eyðsluútgjöld ríkissjóðs. Það er sáralítill hluti þessara skatta sem hefur farið í að bæta vegakerfið í landinu, eins og þó er núna fyrirhugað með skattinum sem hér liggur fyrir till. um.

Í þriðja lagi er rétt að átta sig á að þessi skattahækkun um 438 millj. kr. jafngildir tvöföldun á nýbyggingarfé vega samkvæmt vegáætlun í ár og hefði nægt ríflega til að framkvæma þá stefnu sem við sjálfstæðismenn höfum borið hér fram í formi þáltill. í vegamálum og ég skal aðeins koma nánar að á eftir.

Í fjórða lagi hafa lántökur til vegamála verið tvöfaldaðar frá árinu 1978. Þegar skattar á bensín hafa verið hækkaðir um 54% og allt það fé notað sem eyðslufé ríkissjóðs, en ekki verið lagt til vegamála, hafa lántökur verið tvöfaldaðar frá árinu 1978. Hér er gripið til þess sama ráðs í þessum málaflokki eins og hæstv. ríkisstj. gerir í hverjum málaflokknum á fætur öðrum að velta byrðunum yfir til framtíðarinnar. Það eru skattgreiðendur framtíðarinnar sem eiga að greiða reikninginn vegna þeirra vegaframkvæmda sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir.

Í fimmta lagi, og það er athyglisvert að átta sig á því, hafa heildarframlög til vegamála sáralítið aukist á árunum 1979–1983 þrátt fyrir þessar skattahækkanir og þrátt fyrir auknar lántökur.

Í sjötta lagi er rétt að benda á að á fyrsta framkvæmdaári langtímaáætlunar í vegamálum, en þessi áætlun var samhljóða samþykkt hér á Alþingi og var fyrirmæli Alþingis til hæstv. ríkisstj., er hún vanefnd og það verður frekar samdráttur í nýframkvæmdum en hitt, miðað við eðlilegar og raunsæjar verðlagsforsendur.

Vegáætlanir undanfarinna ára hafa verið stórkostlega skornar niður. Nýframkvæmdir t.d. í vegáætlun 1983 eru skornar niður um 10–12% samkvæmt því sem Alþingi samþykkti. Það er talið að vegaframkvæmdir séu með arðsömustu framkvæmdum sem við getum lagt í. Samkv. þeim arðsemisútreikningum sem notaðir eru af vegamálastjórn er talið að um 700 km af vegakerfinu gefi yfir 20% í arð, þar af 400 km yfir 30%. Það er rétt að gefa þessari staðreynd gaum í ljósi þeirrar staðreyndar að stöðugt er dregið úr framkvæmdum í þessum veigamikla málaflokki.

Þetta eru nokkur grundvallaratriði, nokkur meginatriði í stefnu þessarar hæstv. ríkisstj. í vegamálum og í skattlagningu vegna vegamála. En við skulum aðeins hugleiða nú, hver hefur verið þróun í skattheimtu á bifreiðar og rekstur þeirra og lántöku til vegagerðar á valdatíma þessara flokka frá árunum 1978, þ.e. Framsfl. og Alþb., sem hafa borið höfuðábyrgð á þessum málaflokkum. Við skulum skoða það betur.

Í fyrsta lagi skulum við átta okkur á að það er látið að því liggja að í staðinn fyrir þennan skatt eða á móti þessum aukna skatti eigi að koma lækkun á aðflutningsgjöldum. (Forseti: Gæti hv. ræðumaður hugsað sér að gera hlé á ræðu sinni? Ég þarf að setja nýjan fund með nýju máli.) Já, það er sjálfsagt, herra forseti.