10.11.1982
Neðri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

33. mál, neyðarbirgðir olíu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það er eiginlega vegna þess að ég gleymdi að ræða sérstaklega einn punkt á mínu blaði í minni fyrri ræðu að ég kem hér aftur í ræðustól. Ég var upplýstur um það að þegar hæstv. ráðh. lagði þetta sama frv. óbreytt fyrir Ed. á síðasta þingi, þá hefði hv. þm. Lárus Jónsson farið þess á leit að milliþingnefnd yrði skipuð til að kanna málið milli þinga og sú ósk hefði fengið góðar undirtektir ráðh. á þeim tíma. Þessi mþn. hefur ekki mér vitanlega verið skipuð eða starfað á milli þinga. Og hæstv. ráðh. leggur frv. ekki aftur fyrir sömu deild, heldur kemur með það nú fyrir Nd. Þetta er út af fyrir sig málsmeðferð sem ég held að þm. kunni ekki að meta.

Ég skal taka undir það með hæstv. ráðh. að birgðir okkar eru aðeins örlítið brot af neyslu stórþjóða og endast þeim ákaflega skamman tíma. Undirstrikar það náttúrlega það sem ég sagði betur en nokkuð annað, að það er betra að vera í friði með 60 daga birgðir heldur en vera ekki einir um 90 daga birgðir, sérstaklega þegar ráðh. upplýsir að þær eru brenndar upp á nokkrum mínútum.

Nú er það svo að 85% af okkar olíuinnflutningi koma frá Rússum og 15% annars staðar frá. Það eru þá bara þessi 15% sem verða til ráðstöfunar samkv. þessum samningi. Og eftir að þessum 15% hefur verið ráðstafað erum við algerlega, 100% háðir Rússum í viðskiptum fyrir okkar eigin markað. Og að hvaða gagni koma þá þessir samningar? Eða er það rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að þetta sé dýrkeypt leið inn í klúbb stóru strákanna í París? Við erum ennþá einu sinni að þykjast vera meiri, vera stærri og vera ríkari en við höfum efni á að vera. Ég sé ekki nokkurt gagn í þessu.

Hæstv. ráðh. talaði um það eins og það sé ekkert mál, að það kosti ekki nema 1.6% að gerast meðlimur í þessum alþjóðaklúbbi. 1.6% af heildarneyslu og af birgðum, auknum birgðum þá, þegar birgðirnar eru komnar með, 1.6% álag á neytendurna. Vilja neytendur yfirleitt borga þetta gjald fyrir það að einhverjir embættismenn fái að sitja fundi hjá Alþjóðaorkumálastofnuninni úti í París? Ég stórefast um það. Það væri gaman að fá um það þjóðaratkvgr., um stjórnvisku hæstv. ráðh. í þessu máli og stefnu ríkisstj. í þessu máli. Ég held að neytendur mundu ekki samþykkja það. Ég er neytandi, sem slíkur segi ég nei, ég mundi ekki samþykkja það. Þetta vildi ég segja að lokum. En ráðh. hlýtur að gera sér ljóst að það eru ekki nema um 15% af þessum væntanlegu birgðum sem yrðu til ráðstöfunar innan ramma þessa samnings. Afgangurinn kemur frá Rússlandi og það þýðir eingöngu að við verðum 100% háðir Rússum í olíuviðskiptum með okkar eigin birgðir.