14.03.1983
Neðri deild: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3131 í B-deild Alþingistíðinda. (3150)

249. mál, samkomudagur Alþingis

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég var hér á mælendaskrá um annað mál, sem var sams konar, og mér sýnist að það sé eiginlega upp á stafkrók sama málið, en nú skilst mér að þetta mál sé komið frá Ed. og þess vegna sé það tekið fyrir hér. Ég vænti þess hins vegar, þótt aðrir flutningsmenn séu að því máli, að flm. hins málsins geti svarað spurningum varðandi það, og verður nú með öllu óskiljanlegt hvers vegna málið var flutt í báðum deildum Alþingis, enda var óskiljanlegt vegna hvers það var almennt flutt í deildum. Að sjálfsögðu átti að flytja þetta mál í sameinuðu þingi.

Það hafa komið fram mjög mismunandi skoðanir á því vegna hvers þetta mál er flutt og aðstandendum þessa máls kemur ekki saman um hvers vegna það er. Það kom t.d. mjög skýrt fram hjá hæstv. félmrh. í umr. hér að það væri mjög nauðsynlegt að Alþingi kæmi saman til að taka mjög ákveðið á efnahagsmálum þjóðarinnar. Þar væri mjög alvarlegt ástand — og ég er honum algerlega sammála um það — og þess vegna þyrfti að tryggja að Alþingi kæmi saman til að taka á efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég held að mikilvægt væri að við ræddum það allnáið hér í þinginu hvað þar er að og á hverju þarf að taka og við gætum þá fengið nokkuð skýr svör frá þeim meiri hluta, sem þarna hefur myndast um málið, með hvaða hætti hann hyggst gera það, t.d. með hvaða hætti hann hyggst taka á álmálinu.

Hins vegar kom fram hjá hæstv. ráðh. Ragnari Arnalds að það væri engin trygging fyrir því að þingið kæmi saman eftir kosningar til að ræða stjórnarskrármálið og það þyrfti að tryggja að Alþingi kæmi saman til að ræða það mál og ganga frá því og þess vegna væri nauðsynlegt að þing kæmi saman.

Hvað er hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds að fara í þessu sambandi? Er svo brýnt að ræða stjórnarskrármálið strax eftir kosningar að það þurfi að gera sérstaka samþykkt um að þingið komi saman 18 dögum eftir kosningar? Og hvernig stendur á því að hér er talað um 18 daga? Af hverju mættu það ekki alveg eins vera 20 dagar eða 30 dagar — já, eða 5 dagar?

Þetta mál er allt hið undarlegasta. Ég vil fá um það skýr svör frá þessum mönnum hvað þarna býr undir. Ég held að það geti ekkert annað búið undir en að það þurfi að kalla þingið saman og efna til tvennra kosninga. Eins og ég tók fram hér þegar hitt málið var rætt, herra forseti, málið sem var flutt í Nd., en mér hefur skilist að sé sama málið, þurfum við að fá svör við því, hvernig menn hyggjast standa að þessum kosningum.

Ég hafði þá næst ætlað mér, herra forseti, að ræða dálítið um ástand og horfur í efnahagsmálum til þess að geta spurt um það þá flm. sem standa að málinu með hvaða hætti þeir hyggjast taka á því lið fyrir lið og hafði ég búist við því að fá um það skýr svör, en ég sé nú að þessar sex mínútur eru alveg að verða liðnar svo það er spurning hvort ég ætti ekki að byrja á því eftir að fundi hefur verið frestað. (Forseti: Jú, það væri þénugt.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég mun þá halda áfram við að ræða það mál sem hér er á dagskrá. Það er 249. mál Ed. flutt af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, Karli Steinari Guðnasyni, Lárusi Jónssyni, Eyjólfi Konráð Jónssyni og Guðmundi Karlssyni.

Eins og ég gat um áðan hefur mér skilist að þetta mál sé tekið hér fyrir frá Ed. og þar með hafi 248. mál verið tekið út af dagskrá, en flm. að því máli og væntanlegir umboðsmenn hinna hér í Nd. eru hv. þm. Matthías Bjarnason, hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds, hv. þm. Magnús H. Magnússon, Matthías Á. Mathiesen og Birgir Ísl. Gunnarsson. Það er afskaplega erfitt, herra forseti, að ræða þetta mál ef enginn af umboðsmönnum er hér viðstaddur. (Forseti: Já, það er trúlegt. Ég mun nú gera gangskör að því að athuga um Birgi Ísl. Gunnarsson. Hverjir voru fleiri?) Matthías Bjarnason, Ragnar Arnalds, Magnús H. Magnússon og Matthías Á. Mathiesen. — Herra forseti. Ég sé nú að einn af umboðsmönnum flm. í Ed. er genginn í salinn og get ég þá haldið áfram máli mínu.

Ég vildi aftur spyrja umboðsmenn málsins hér í deildinni þeirrar spurningar, umboðsmenn þeirra hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, Karls Steinars Guðnasonar, Lárusar Jónssonar, Eyjólfs Konráðs Jónssonar og Guðmundar Karlssonar, hvað þeir ætlist fyrir í þessu máli. Hæstv. fjmrh. hefur upplýst það hér, að það eina sem standi til sé að koma saman til að ræða stjórnarskrármálið 18 dögum eftir að kosningum er lokið. (Fjmrh.: Fjalla um efnahagsaðgerðir.) Nú. Hæstv. félmrh. sagði hins vegar að það bæri brýna nauðsyn til að taka á efnahagsmálunum, og hefði ég eiginlega trúað hæstv. fjmrh. betur til þess en hæstv. félmrh. og er það því gleðilegt að hæstv. fjmrh. er sömu skoðunar.

En eins og ég gat um áðan er augljóst að ekki verður tekið á efnahagsmálum nema myndaður verði meiri hluti hér á Alþingi. Má þá aftur vitna til þess, að það hefur ekkert gengið að taka á þeim málum hér í vetur, kannske fyrst og fremst vegna þess að ekki hefur verið meiri hluti í þinginu. Það sjá allir, að ef Alþingi á að koma saman til að ræða stjórnarskrármálið eitt er það ekki nægileg ástæða til að kalla saman Alþingi. Það ber enga nauðsyn til að ræða það mál 18 dögum eftir kosningar. Það eru engar slíkar breytingar á ferðinni í sambandi við stjórnarskrá landsins að það liggi lífið við að koma þeim í framkvæmd. Það getur alveg beðið í nokkur ár og er gjörsamlega fráleitt að leggja önnur mál til hliðar á meðan á því stendur. Hæstv. fjmrh. hlýtur því að eiga við að hér verði efnt til tvennra kosninga og tekið á efnahagsmálum.

Af því að þeir eru nú allir staddir hér maraþonmennirnir úr álumræðunum má vel vera að þeir hyggist reyna að fá þennan nýja meiri hl. til að taka á þeim mátum með sér, og væri út af fyrir sig fróðlegt að fá upplýst hvernig það á að eiga sér stað. Það liggur alveg fyrir að álmálið er gjörsamlega komið í strand og ef ekkert á að taka á því fyrr en einhvern tíma eftir kosningar er það mjög alvarlegt mál fyrir hagsmuni þjóðarinnar að það mál skuld gjörsamlega liggja niðri. Hæstv. iðnrh. hefur ekki verið til viðtals um það við aðra flokka að ná um það þjóðarsamstöðu. Alþb. hefur metið pólitíska hagsmuni ofar öllu öðru í þessu máli, sett málið upp á þann hátt sem pólitískt mál hvernig það gæti best þjónað áróðurshagsmunum Alþb. og þjóðarhagsmunir gjörsamlega verið látnir víkja.

Síðan eru menn hér sakaðir um svik gagnvart þjóðfélaginu. Menn eru ásakaðir fyrir ómerkilegan málflutning og að átelja hæstv. iðnrh. fyrir að hafa ekki náð samningum við álverið. Menn eru sakaðir um að bregðast á úrslitastundu.

Þetta er út af fyrir sig ekki í fyrsta skipti sem Íslendingar standa í vanda frammi fyrir erlendum aðilum eða í fyrsta skipti sem þeir þurfa að taka á hinum stóra sínum í samskiptum við útlendinga. (Forseti: Má ég biðja um einn fund í salnum.)

Árið 1973 var gerður samningur við Englendinga. Alþb. lagðist mjög hart gegn þeim samningi og sakaði menn um þjóðarsvik. 1976 var gerður samningur við Vestur-Þjóðverja og síðan var gerður Oslóar-samningurinn. Þetta voru allt samningar sem voru mikilvægur áfangi í því mikla baráttumáli Íslendinga að ná fullum yfirráðum yfir landhelginni. Í hvert einasta skipti voru þeir sem stóðu að þessum samningum ásakaðir um svik gagnvart þjóðinni. Alþb. vildi aldrei taka ábyrgð á þessum samningum, vegna þess að í þessum málum eins og í ýmsum öðrum tóku þeir pólitíska hagsmuni fram yfir þjóðarhag og töldu það þjóna best málstað sínum að vera á móti þessum samningum. Alveg sama er upp á teningnum í dag. Það má út af fyrir sig deila um alla samninga og samningar eru náttúrlega alltaf að einhverju leyti slæmir. Ef samningur er góður fyrir einhvern hlýtur hann að vera slæmur fyrir annan. Það er hægt að segja að allir samningar séu slæmir, þó að þeir séu misslæmir. Það var pólitísk áhætta sem menn tóku í sambandi við þessa samninga í baráttunni um landhelgismálið, en hver er það sem vill halda því fram í dag að þetta hafi ekki verið rétt skref til að ná fram þessu mikilvæga hagsmunamáli Íslendinga?

Árið 1979 eða 1980 gerðum við mjög mikilvægan samning við Norðmenn um Jan Mayen, sem er áreiðanlegt að verður okkur mikilvægur í framtíðinni. Alþb. lagðist gegn þeim samningi og talaði enn um svik gagnvart þjóðfélaginu. Hver heldur því fram í dag að sá samningur hafi verið slæmur? Norðmenn kvarta sáran yfir því hvað þeir hafi gert slæman samning þar við Íslendinga og sú hægri stjórn sem situr þar núna hefur fullyrt að hann hefði aldrei verið gerður með hennar samþykki.

Sannleikurinn er sá, að hæstv. iðnrh. hefur komið álmálinu í strand. Það ber til þess brýna nauðsyn að koma því inn á nýjar brautir. Hann heldur því fram í löngu máli að það sé verið að taka málið úr höndum iðnrh. Það liggur alveg fyrir, eins og hann rakti hér og vísaði til 14. gr. stjórnarskrárinnar, að ekki er hægt að taka málið sem slíkt algjörlega úr höndum hans. Hins vegar ber til þess brýna nauðsyn að setja í málið nefnd sem vinni með öðrum hætti en hæstv. iðnrh. hefur gert og komi þessu máli eitthvað áleiðis til þess að við getum náð fram rétti okkar gagnvart þessum auðhring. Það er kjarni þess máls, sem hér var flutt, og er það mjög alvarlegt ef Alþb. ætlar nú að bera ábyrgð á því að þetta mál verði gjörsamlega óhreyft e.t.v. alllangt fram yfir næstu kosningar. Það má vera að eitt af þeim málum sem nú standi til að taka til við 18 dögum eftir kosningar sé einmitt þetta mál, og væri fróðlegt að fá það upplýst með hvaða hætti það á að gerast.

Herra forseti. Ég vildi einnig spyrja um það, með hvaða hætti stendur til að taka á efnahagsmálum þjóðarinnar 18 dögum eftir kosningar, án þess að meiri hl. verði myndaður um nýja ríkisstjórn hér í landinu, og spyrja hv. umboðsmenn flm. till. í Ed. með hvaða hætti það skuli gert.

Það liggur alveg fyrir að ástand og horfur í efnahagsmálum eru mjög atvarlegar. Það er ekki aðeins hér á Íslandi sem þessar horfur eru alvarlegar. Þær eru það einnig í löndunum í kringum okkur. Vöxtur þjóðarframleiðslu hefur verið sáralítill eða enginn. Má t.d. nefna að þjóðarframleiðsla dróst saman í Bandaríkjunum á árinu 1982 um 1.75%. Sama sagan var í Þýskalandi, þar sem samdrátturinn var 11/4%. Þá var samdráttur mjög mikill í Kanada eða 5%, sem er mjög mikið fyrir svo stórt land. Samdráttur stærstu iðnríkja heimsins var um 1/2% og í OECD-löndunum öllum einnig um 1/2%.

Þetta er afskaplega alvarleg þróun, sem hefur mikil áhrif hér á landi og getur haft mun meiri áhrif hér á landi ef ekki er tekið rétt á málum. Japan er í reynd eina ríkið þar sem vöxtur þjóðarframleiðslu hefur verið nokkuð stöðugur á undanförnum árum, en vöxtur þjóðarframleiðslu í Japan hefur verið um 4.8% að meðaltali á árunum 1970–1980, 3% 1981 og 21/2% 1982, þannig að þetta ríki hefur algerlega skorið sig úr varðandi vöxt þjóðarframleiðslu í heiminum. Ef við lítum til ársins 1983, til okkar umhverfis, er enn spáð að þessi vöxtur haldi áfram í Japan og gert ráð fyrir því að vöxtur þjóðarframleiðslu þar verði um 31/2% á árinu 1983.

Nokkur bjartsýni ríkir í Bandaríkjunum, sem er okkar mikilvægasta viðskiptaþjóð, og gert ráð fyrir að vöxtur þjóðarframleiðslu á árinu 1983 geti orðið þar um 2%, þannig að heldur virðist horfa til hins betra í heiminum. Ef við tökum öll OECD-löndin má búast við að vöxturinn þar verði 1 1/2%. Þetta hefur að sjálfsögðu allnokkur áhrif fyrir okkur Íslendinga.

Það er rétt að geta þess að á sama tíma og þetta er að gerast má búast við að verðbólga í löndunum í kringum okkur fari nokkuð lækkandi. Verðbólgan í Bandaríkjunum hefur lækkað mjög verulega að undanförnu. Hún var alveg um 10% 1981, en því er spáð að á árinu 1983 fari hún niður í allt að því 5% og jafnvel eru uppi spádómar um að hún muni alveg hverfa. Ef við hins vegar lítum á OECD-löndin alls er verðbólguminnkunin heldur minni og gert ráð fyrir að verðbólgan verði komin niður í 63/4% á árinu 1983.

Það sem er jákvætt í löndunum í kringum okkur er minnkun verðbólgu og dálítill vöxtur þjóðarframleiðslu, en það sem er alvarlegt er hið mikla atvinnuleysi sem alls staðar er að skjóta upp kollinum í löndunum í kringum okkur. Það er t.d. gert ráð fyrir að atvinnuleysi í Bandaríkjunum verði einhvers staðar á milli 10 og 11% á árinu 1983 og hefur þá farið úr 7.6% 1981. Ef við lítum á land eins og Kanada, þar sem atvinnuleysi var um 7.6% 1981, er nú gert ráð fyrir að það fari upp í 13% 1983.

Það sem hræðir í sambandi við samanburð við Kanada er sú staðreynd að þjóðarframleiðsla dróst þar mjög mikið saman á árinu 1982 eða heldur minna en þjóðarframleiðsla dróst saman hjá okkur Íslendingum. Þetta kemur fram í mjög mikilli aukningu atvinnuleysis í Kanada og hefur það aukist allmiklu meira þar en í Bandaríkjunum. Það er mikil ástæða fyrir okkur Íslendinga að horfa til þessarar staðreyndar í sambandi við Kanada því að það má búast við að ef þjóðarframleiðsla heldur áfram að dragast saman svo mikið sem þar hér á landi muni ekkert annað gerast hér á Íslandi en að atvinnuleysi muni fara mjög ört vaxandi.

Eina leiðin til þess að komast hjá því er að koma efnahagslífinu í mjög ákveðnar skorður, tryggja að verðlag hækki ekki umfram ákveðna prósentu, að laun og ýmsir þeir þættir sem ákveða verðlagið hækki ekki umfram það sem efnahagslífið þolir. Og það er athyglisvert að löndin í kringum okkur eru alltaf að komast betur og betur að raun um að hið frjálsa markaðskerfi og hin frjálsu lögmál markaðskerfisins ráða ekki við þann vanda sem steðjar að þeim. Þau hafa komist að niðurstöðu um að það eina sem getur ráðið við þessi vandamál er að hið opinbera stýri efnahagslífinu eftir því sem nokkur kostur er, hvort sem það er verðlagsþróun, launaþróun, gengisþróun, þróun fjármagnskostnaðar eða annarra mikilvægustu þátta efnahagslífsins.

Sú mikla hrifning sem kom upp í heiminum um efnahagsstefnu Ronalds Reagans, svokallaða Reagan-economics, er mjög á undanhaldi, enda hefur hún tekist þannig, að að vísu hefur verðbólga minnkað verulega í Bandaríkjunum, en á sama tíma hefur atvinnuleysi farið mjög vaxandi. Sama þróunin hefur átt sér stað í Bretlandi, en þar er atvinnuleysi áætlað á árinu 1983 131/4%, sem er mjög hátt. Hins vegar má geta þess, að ef við tökum alla Vestur-Evrópu munu 181/2 millj. manna verða atvinnulausar á árinu 1983. Í allri Norður-Ameríku eru það 13 millj. og 250 þús. sem er áætlað að verði atvinnulausar í þeim hluta heimsins og í öllum OECD-ríkjunum tæpar 34 millj. manna.

Það er því alveg ljóst að ekki er sjálfgefið að við Íslendingar komumst fram hjá þessum málum, að við getum komið í veg fyrir að þetta böl komi yfir okkur og það er deginum ljósara að hjá slíku böli munum við ekki geta komist nema taka mjög ákveðið á okkar efnahagsmálum. Það verður ekki gert með þeim hætti að menn séu í stöðugum samningum um það í þjóðfélaginu hvernig það skuli gert og ríkisstjórnin standi í stöðugu samningaþófi, ekki bara samningum milli stjórnmálaflokkanna heldur við öll hagsmunasamtök í þjóðfétaginu. Þetta verður að gerast og þess vegna vil ég mjög taka undir það með þeim mönnum sem flytja þetta mál, að það ber brýna nauðsyn til að taka ákveðið á efnahagsmálunum strax að loknum kosningum. Ég trúi því hins vegar ekki, og það hefur ekki verið sýnt fram á að það sé tilgangurinn með flutningi þessa máls, jafnvel þótt hæstv. félmrh. hafi sagt það hér í ræðustól að það væri aðaltilgangurinn með málinu að taka ákveðið á efnahagsmálunum, og af því að hæstv. félmrh. er ekki flm. þessa máls mundi ég vilja heyra það frá flutningsmönnum þáltill. eða réttara sagt umboðsmönnum þeirra Ólafs Ragnars Grímssonar o.fl. úr Ed. hér í Nd. hvort þetta sé rétt hjá félmrh., og veit ég að hv. 1. þm. Vestf. mundi örugglega upplýsa mig um hvort félmrh. hafi rétt til að túlka þetta mál með þeim hætti. (MB: Ég er enginn umboðsmaður Ólafs Ragnars.) En mér sýndist að Ólafur Ragnar Grímsson væri 1. flm. þessa máls og ég get séð hér á þskj. 248 að 1. flm. samkynja máls í Nd. er hv. þm. Matthías Bjarnason. Ég hef þá leyft mér að líta svo á, að hv. þm. Matthías Bjarnason væri 1. umboðsmaður Ólafs Ragnars Grímssonar hér í Nd. Það er þess vegna sem ég hef leyft mér að hafa þennan skilning á málinu.

En ég get ekki séð að þetta skipti meginmáli í sambandi við þetta, heldur skiptir meginmáli hver er tilgangur flutningsmanna með þessari þáltill. Hæstv. félmrh. heldur því fram að það sé flutt til að tryggja að tekið verði á efnahagsmálunum. Ég legg engan trúnað á það. Hæstv. fjmrh. heldur því fram að það sé flutt til að tryggja að Alþingi geti komið saman til að ræða stjórnarskrármálið. Það þykir mér heldur ólíklegt vegna þess sérstaklega að það ber enga brýna nauðsyn til og það er ekkert í hættu hér þótt lengur dragist að ræða þetta stjórnarskrármál. Aðalatriði þessa stjórnarskrármáls er að fjölga þm. um þrjá. Það er ákveðið samkomulag, sem menn hafa gert með sér, að fjölga þm. og með því hefur verið hægt að ná samkomulagi milli allra flokkanna, en það er ekki það sem liggur mest á í þessu þjóðfélagi og það skiptir út af fyrir sig engu máli þótt það dragist í fjögur ár, þannig að það verði gert þegar kosið verður. Nú verður kosið á næstunni og ef allt gengur með eðlilegum hætti verður kosið næst 1987. Það væri algjörlega fullnægjandi, að mínu mati, að það samkomulag, sem menn höfðu gert með sér, komi til framkvæmda 1987, því það mun ekki af veita að nota fjögur ár til að koma efnahagsmálum þjóðfélagsins í sem best horf og takast á við þau vandamál sem að okkur hafa steðjað.

Ég vil þá enn leyfa mér að spyrja þá sem standa að þessu máli hvort það sé ekki réttur skilningur að með þessu vilji þeir tryggja það, þó að ég geti ekki séð að það sé einu sinni tryggt með því, að komið verði á tvennum kosningum á þessu ári og þeir séu þá tilbúnir að axla þá ábyrgð sem því fylgir, taka ábyrgð á stjórn þjóðfélagsins á meðan á því stendur. Og ég vildi einnig leyfa mér að spyrja þá að því, hvort þeir telji að það sé heppilegt að eyða svo miklum tíma í kosningar á þessu ári, hvort það sé ekki heppilegra að takast frekar á við þau alvarlegu vandamál sem að okkur steðja, hvort sem þau eru utanaðkomandi eða hafa sprottið upp í þjóðfélaginu sjálfu. (Forseti: Það var ákveðið að gera fundarhlé kl. 12.30. Vildi ræðumaður fresta ræðu sinni?) Er nokkuð ákveðið um næsta fund? (Forseti: Það er ekki endanlega ákveðið hvenær næsti fundur verði boðaður, en það kemur í ljós. Vill ræðumaður samþykkja það?) Já.