14.03.1983
Sameinað þing: 65. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3138 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

34. mál, hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt málefni og raunar eru tvær till. aðrar hér til afgreiðslu. Önnur hefur raunar þegar verið samþ., þ.e. till. um Rockallsvæðið og samninga við Breta, Íra og Færeyinga um það, en samkvæmt greinargerð, sem Hans G. Andersen flutti í utanrmn., eru réttindi okkar á því svæði ótvíræð og ber að fylgja þeim fram nú alveg á næstu mánuðum og misserum — vonandi einungis mánuðum.

En sú till. sem sérstaklega er hér til umfjöllunar nú er varðandi Reykjaneshrygginn, að við helgum okkur hafsbotninn út að 350 mílum á Reykjaneshrygg.

Það má segja að við stöndum enn á ný á tímamótum í landhelgisbaráttu okkar. Það er nauðsynlegt að við rifjum upp að við höfum aldrei unnið neina sigra nema fyrir harða baráttu. Stundum höfum við verið taldir óbilgjarnir, en reynslan hefur sýnt að við höfðum rétt fyrir okkur og aðrir hafa fetað í fótsporin.

Því miður er sá misskilningur æðiútbreiddur að landhelgisbaráttu okkar sé lokið. Þegar við fyrst gerðum kröfur til réttinda á Jan Mayen-svæðinu varð að heyja harða baráttu hér innanlands til að gera mönnum grein fyrir að við ættum rétt að sækja, en sem betur fer tókst að lokum að sameina öll stjórnmálaöfl um gæslu réttinda okkar og það leiddi til glæsilegs sigurs í fullri vinsemd við vina- og frændþjóð okkar Norðmenn.

En nú er nýr þáttur landhelgisbaráttunnar hafinn og engum tíma má lengur glata til að fylgja réttmætum kröfum okkar fram. Á mestu ríður auðvitað að sameina kraftana nú sem fyrrum og hagnýta alla þá þekkingu sem við höfum yfir að ráða og þá fyrst og fremst að sjálfsögðu þekkingu Hans G. Andersens sendiherra, sem viðurkennt er að stendur engum að baki í hafréttarmálum og nýtur viðurkenningar og virðingar á alþjóðavettvangi. Ég vona að hans kraftar verði á næstu vikum og mánuðum nýttir og treystir í raun.

Ég mun leitast við í stuttu máli að gera grein fyrir því hvernig standa beri að þeirri baráttu sem fram undan er. Hún verður auðvitað háð á grundvelli þeirra þriggja þáltill. sem utanrmn. hefur orðið sammála um og væntanlega verða altar afgreiddar hér á þessum fundi.

Í fyrsta lagi er það till. um að stöðva laxveiðar Færeyinga, sem eru brot á 76. gr. hafréttarsáttmálans, en sú grein er löngu orðinn venjuréttur, eða lög de facto, en samkvæmt till. utanrmn. látum við ekki staðar numið við það, heldur munum við beita okkur fyrir því að alfriða Atlantshafslaxinn, þannig að engar veiðar verði heimilaðar í hafinu. Þetta er einfatt og sjálfsagt mál. Að því er Færeyinga varðar er þess að gæta að laxveiðar í hafinu hófu þeir eftir að bann við þeim var orðið að alþjóðalögum og enga stoð er unnt að finna í hafréttarsáttmálanum fyrir því atferli.

En þetta er þó kannske smámál á móti því sem nú er fyrir dyrum. Í allshn. Ed. hefur frv. til l. um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins verið til umr. á allmörgum fundum. Í frv. er gert ráð fyrir því að öll hafsbotnsréttindi heyri undir iðnrn. og þar með undirstrikað að auðæfi hafsbotnsins séu fyrst og fremst fólgin í einhvers konar vinnslu jarðefna. Allshn. deildarinnar hefur hafnað þessu sjónarmiði og leggur til að megináhersla verði lögð á að tryggja veiðirétt okkar á landgrunninu utan 200 mílnanna og varðveislu auðæfa hafsins þar sem það hljóti að vera meginhagsmunir okkar a.m.k. næstu áratugina.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér upp nál. allshn. því það skýrir þetta mál nokkuð. Í því segir:

„Nefndin hefur rætt málið ítarlega og komist að raun um að hér sé um að ræða svo þýðingarmikið og vandmeðfarið mál, að ógerlegt sé að afgreiða það efnislega án frekari athugunar. Ljóst er að í nánustu framtíð eru hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg, neðansjávarhásléttunni sem kennd er við Rokkinn, og á Jan Mayen-svæðinu fyrst og fremst tengd yfirborði hafsbotnsins. Samkv. 77. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna eigum við réttindi til þeirra lífvera, sem á þessum hafsvæðum finnast og botnlægar eru. Yfirborð hafsbotnsins er einnig ótvíræð eign strandríkisins.

Nefndin telur þess vegna að allri lagasetningu um hafsbotn þann, sem er utan 200 mílna efnahagslögsögunnar, en tilheyrir Íslandi samkvæmt 76. gr., sbr. 83. gr. hafréttarsáttmálans, eigi að haga þannig, að einkaréttur okkar sé sem best tryggður og allar veiðar útlendinga við botninn bannaðar. Hins vegar sé rétt að örva íslenska fiskimenn til að hagnýta þessi íslensku mið og bægja útlendingum af þeim í samræmi við alþjóðalög.

Með hliðsjón af framansögðu telur nefndin eðlilegt að þau málefni, sem varða yfirborð landgrunnsins utan 200 mílnanna á Reykjaneshrygg, Jan Mayen-svæðinu og Rockall-hásléttu falli undir sjútvrn., en leggur áherslu á að skynsamleg skipan þessara mála verði fundin sem skjótast og málið lagt fyrir næsta þing. Því leggur hún til að því verði nú vísað til ríkisstjórnarinnar til skjótrar, en ítarlegrar athugunar hæfustu sérfræðinga, þar sem framangreind sjónarmið sitji í fyrirrúmi.“

Eins og ég gat um voru allir nm. sammála um þessa afgreiðslu og mun ég nú nokkru nánar rökstyðja hvers vegna við hljótum að fylgja þeirri stefnu.

Það kann í fljótu bragði að virðast að hér sé ekki um veigamikla hagsmuni að ræða, en því fer víðs fjarri. Ef rétt er á málum haldið er ekki ósennilegt að við getum því sem næst tvöfaldað landhelgi Íslands á næstu misserum.

Í fyrsta lagi er þess að gæta, að samninga okkar við Norðmenn um Jan Mayen-svæðið ber að túlka þannig að við höfum helmings réttindi á móti þeim að því er allar veiðar varðar og raunar meiri þar sem við getum einir ákveðið hámarksveiðar loðnunnar. Þeim réttindum verður að halda til streitu af fullri einurð. Hitt er ekki síður mikilvægt, að við eigum hafsbotnsréttindin á Reykjaneshrygg út í 350 mílur og mest tilkall allra þjóða til Rockall-hásléttunnar, eins og glöggt kemur í ljós í þeirri skýrslu sem Hans G. Andersen hefur flutt utanrmn. eftir náið samráð við hæfustu sérfræðinga á sviði hafsbotnsmála.

Í 77. gr. hafréttarsáttmálans er það beint og skýrt tekið fram að hafsbotninum tilheyri allar lífverur sem botnlægar eru taldar, þ.e. öll skeldýr og krabbadýr. Engir erlendir aðilar hafa því heimildir til að raska einu eða neinu á hafsbotninum. Þannig eru t.d. botnvörpuveiðar Sovétríkjanna á Reykjaneshrygg lögbrot, þær eru brot á alþjóðalögum. Hvert það erlent skip sem kemur upp með skelfisk eða krabbadýr og jafnvel stein er að brjóta hafréttarsáttmálann. Það veiðiskip ber að færa til hafnar og skipstjórann á að sækja til ábyrgðar þegar við höfum lögfest ótvíræð réttindi okkar í þessu efni. Þetta sjónarmið má styðja með margháttuðum rökum.

Í VI. kafla hafréttarsáttmálans, sem fjallar um landgrunnið utan 200 mílnanna, eru fiskveiðiréttindi erlendra þjóða hvergi nefnd á nafn. En hins vegar er rækilega undirstrikað í VII. kaflanum, sem fjallar um úthafið, að þau skuli vera frjáls. Þannig er gerður rækilegur greinarmunur á réttindum á hafsvæðum yfir landgrunninu annars vegar og úthafssvæðum hins vegar.

í 78. gr. hafréttarsáttmálans, sem er í VI. kaflanum, er siglingaréttur sérstaklega nefndur, en fiskveiðirétturinn hins vegar ekki. Tel ég alveg ótvírætt að gagnálykta megi frá 78. gr. á þann veg að á veiðiréttindi beri að líta með allt öðrum hætti en siglingarétt og auðvitað verður þróunin sú að sá sem hafsbotninn á eignast líka auðlindirnar yfir honum, ef hann hefur þá manndóm til að halda réttindum sínum til haga. Þess er þó skylt að geta, að allar þessar reglur eru nú í mótun og svo óákveðið er orðatag víða að það verður venjurétturinn sem úrslitum ræður. Þess vegna má engan tíma missa til að tryggja þann rétt. Þess vegna megum við ekki lengur hika eða bíða.

Í 79. gr. hafréttarsáttmálans er skýrt tekið fram að erlendar þjóðir megi leggja kapla og leiðslur á hafsbotninum. Frá þeirri grein má einnig gagnálykta að öll önnur snerting erlendra aðila við hafsbotninn sé óheimil. Það liggur raunar í augum uppi að það ber að gagnálykta á þennan veg.

Þau rök, sem ég hef nú nefnt fyrir því að við eigum þegar í stað að helga okkur landgrunnsréttindin á Reykjaneshrygg og hraða sem mest má verða samningaumleitunum við Færeyinga, Breta og Íra um Rockall-svæðið vegna fiskveiðiréttinda okkar og verndarráðstafana í bráð og lengd, ættu að nægja til að sýna mönnum fram á hve fánýtt hjal hefur stundum verið stundað hér í þingsölunum miðað við þau stórmál sem hér eru á ferðinni.

En meginröksemd okkar á að vera samanburður á VI. kafla hafréttarsáttmálans annars vegar, þar sem landgrunnið innan 350 mílnanna er rætt, og VII. kaflanum hins vegar, þar sem fjallað er um úthafið. Í VI. kaflanum eru fiskveiðar látnar liggja á milli hluta og gengið út frá því að þróunin muni þar ráða réttarreglum. En í VII. kaflanum er skýrt tekið fram að fiskveiðar séu öllum frjálsar.

Í VI. kaflanum er raunar enn ein réttarregla, sem gagnálykta má frá, en hún er í 82. gr. Þar er gert ráð fyrir að til Alþjóðahafsbotnsstofnunarinnar beri að greiða þóknun vegna vinnslu jarðefna úr hafsbotninum, en hins vegar er hvergi nefnt að eitthvert fé eigi að greiða vegna þess að strandríkin nýti sér lífverur á botninum, t.d. humar og skelfisk.

Þegar mál þetta allt er grannt skoðað hljóta menn að sannfærast um hve gífurlegra réttinda við eigum að gæta á þessu sviði. Við alþm. erum oft skammaðir og fyrir margt með réttu kannske, en þeim sem á næsta þingi kunna að sitja verður ekki fyrirgefið ef þeir glutra niður þeim gífurlegu réttindum sem við eigum ósótt á alþjóðavettvangi. Í þetta skipti verða menn bæði að hlusta og framkvæma og ég er ekki í vafa um að þingheimur muni sameinast um að afgreiða allar þessar hafréttartillögur og stjórnvöld fylgja rétti okkar eftir á alþjóðavettvangi.