14.03.1983
Neðri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3146 í B-deild Alþingistíðinda. (3177)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. um bann við ofbeldiskvikmyndum er táknrænt fyrir þau störf sem unnin eru í þessari virðulegu stofnun. Það væri mikil þörf á því að gera víðtækar breytingar á þessu ofbeldisfrv. og koma inn á ýmis önnur mál, þó að það sé ekki alveg stöðugt kvikmyndað frá því ofbeldi sem þar er verið að beita.

Á fyrsta tímanum í dag stóð varaformaður Framsfl. í ræðustól alveg þangað til fundi var frestað og lagði fjölda fsp. fyrir menn og fór vítt og breitt bæði innanlands og utan. Hann fór austur á firði og vestur á land, staðnæmdist um tíma í höfuðborginni, skrapp síðan þó nokkrum sinnum til útlanda í ræðunni og hann spurði og spurði. Og hann svaraði sjálfum sér og minnti á svör ýmissa ráðh. Hann bað menn að svara, sem væru umboðsmenn annarra þm. í annarri deild, og hann veitti mér þann vafasama heiður að gera mig að umboðsmanni Ólafs Ragnars Grímssonar, formanns þingflokks Alþb., og ég átti að svara fyrir hugrenningar Ólafs Ragnars úr þessum ræðustól. Ég leyfi mér, fyrst hér er bann við ofbeldiskvikmyndum á dagskrá, að nota þetta einstæða tækifæri, sem hæstv. forseti gefur loksins stjórnarandstöðu til að tala, eftir að ráðherrar hafa verið að hnakkrífast hér og halda uppi málþófi dag eftir dag.

Alþb. notar tíma þingsins, marga klukkutíma, og iðnrh., sem er þekktur fyrir að vera stuttorður og gagnorður, hefur meira að segja talað sennilega um fjórðung úr sólarhring um álverið. (Gripið fram í.) Ja, það hlustaði enginn maður á iðnrh. lesa sjö ára gamla skýrslu. Það er óvirðing við Alþingi. Er iðnrh. eitthvað slappur? Hefur orðið skammhlaup? Má ekki skipta um peru og jafnvel um tappa í töflunni? — Undir málflutning iðnrh. hafa tekið hæstv. félmrh., hæstv. fjmrh., hv. 4. þm. Suðurl. o.fl.

Jú, framsóknarmenn vildu nú ekki vera minni en Alþb.-mennirnir. Þeir hafa haldið uppi hér umr. um till. um samkomudag Alþingis í báðum deildum. Þeir hafa gert sig að viðundrum og meira að segja sá þm., hv. 3. þm. Austurl., sem hefur þó verið að rembast lengst af við það að halda virðuleika sínum og Alþingis hefur fallið í sömu gjótuna og kemst ekki upp úr henni aftur. Það verður að draga hann upp aftur af því að þetta er maður á besta aldri og synd að láta hann vera þarna lengi. — Þannig er nú spegilmyndin af löggjafarsamkundu þjóðarinnar í marsmánuði 1983.

En hvar er nú þriðja hjólið undir vagni ríkisstj.? Það fór loksins af stað líka, hæstv. forsrh., og fylgir nú úr hlaði frv. sínu um stjórnskipunarlög, sem er ávöxtur af starfi stjórnarskrárnefnda í fjöldamörg ár. Hann hefur verið lengst af í stjórnarskrárnefnd sjálfur eða a.m.k. heilan mannsaldur. Nú notar hann síðustu dagana til að flytja frv. til l. um stjórnskipunarlög, en tekur fram í ræðu sinni í Ed. að hann ætlist ekki til þess að þetta mál fari til nefndar. Hann segir það hreint og beint að hann ætlist ekki til annars en hann fái einn að eiga þetta barn — það vita allir hvað þetta barn kostar íslenska lýðveldið — og hann megi fá að bera sitt barn hér fram, en hann ætlast ekki til þess að það sé blásið neinum lífsanda í krakkann eftir allt saman. — Þetta er skemmtileg mynd af löggjafarsamkundu þjóðarinnar!

Svo koma hinir alvöruþrungnustu framsóknarmenn, eins og Halldór Ásgrímsson, og segja: Hvað á að gera í efnahagsmálunum? Formaður fjh.- og viðskn. Nd. Voru ekki gefin út brbl. í ágúst, sem áttu að duga um ófyrirsjáanlega framtíð, en allt var komið í harðan hnút þegar komið var að áramótum? Hefur ekki Framsfl. setið í ríkisstj. í allan vetur án þess að gera nokkurn skapaðan hlut? Hafa þeir ekki verið að hæla sér af því að þeir hafi farið niðurtalningarleið? A.m.k. hef ég oft heyrt hæstv. viðskrh. nefna þá leið og segja að hún hafi tekist bara ljómandi vel á árinu 1981. Þeir hafa komið framleiðsluatvinnuvegunum alveg í harðan hnút og þeir hafa ekki beðið þess bætur síðan. Hvað hefur svo gerst í þessu máli? Nákvæmlega ekki neitt. Það vita allir menn. Svo furða þessir menn sig á að það skuli vera svo ósvífnir menn hér á Alþingi Íslendinga að þeir ætlist til þess að Alþingi verði kallað saman 18 dögum eftir næstu kosningar. Ætli það hafi ekki verið þörf á því að kalla Alþingi saman þegar í haust eftir útgáfu brbl., láta þá reyna á þessi úrræði, sem þá var verið að boða þjóðinni með miklum fjálgleik. Þegar séð var að þessi úrræði komu of seint og þau voru of lítil, eins og hæstv. utanrrh. hefur best lýst stjórnarathöfnum þessarar stjórnar í efnahagsmálum, átti að rjúfa þing og ganga til kosninga á haustdögum og fá landinu sterka stjórn. Svo kemur maður eins og 3. þm. Austurl. og ber fram hér sæg af fsp., sem hann ýmist svarar sjálfur eða aðrir eiga að svara þegar vitað er að aðrir eiga ekki að komast að. Það er svo tekið fyrir frv. um bann við ofbeldiskvikmyndum á eftir. Þetta er í fullu samræmi við gerðir þessarar hæstv. ríkisstj.

Ég vil nú spyrja hæstv. félmrh. að því, því að það á vel heima undir þessum lið, í umr. um frv. um bann við ofbeldiskvikmyndum: Hvar stendur hann í þessu máli? Þrír stjórnmálaflokkar hafa orðið sammála um að flytja tillögur um samkomudag Alþingis. Hefur hæstv. félmrh. samið við hæstv. forsrh. og hans flokkur um að rjúfa þing áður en þessar tillögur fá afgreiðslu hér á hv. Alþingi? Hefur hann samið við forsrh. og Framsfl. um að falla frá þeim till., sem þeir standa að í Alþb., fyrir það að bjarga iðnrh., þ.e. að álmálið verði ekki tekið úr hans höndum?

Hér hafa átt sér stað, eftir því sem best er vitað, viðamestu hrossakaup sem farið hafa fram. Það er ástæðulaust að tala um önnur hnossakaup á meðan jafnstórfelld hrossakaup og þessi hafa farið fram. Er ekki næg sönnun fyrir því að það er tilkynnt í Ríkisútvarpinu að þingrof eigi að fara fram eftir útvarpsumr. og sjónvarpsumr. í kvöld? Þjóðinni er tilkynnt það á öldum ljósvakans, en kjörnir fulltrúar þjóðarinnar þeir sem gátu hlustað á fréttir — fengu það þaðan. Þetta eru vinnubrögðin, þetta er þingræðið sem íslenska þjóðin á við að búa. Hver er sá sem stýrir þessu? Formaður stjórnarskrárnefndar í heilan mannsaldur, í heilan mannsaldur, stýrir þessu. Mikil lifandis ósköp verður þetta skemmtileg áletrun á einu leiði síðar meir fyrir mann þingræðis og lýðræðis. Ég vona að einhverjir vinir hans verði þá til að mála yfir það bara vegna hans fyrri daga. Þetta á að mínum dómi skylt við það frv., sem hæstv. forseti var að leggja hér fram til umr., um bann við ofbeldiskvikmyndum.

Það er svo komið að maður fagnar því að komast orðið út úr þessu húsi eftir allt sem á undan er gengið, eftir öll óheilindin sem hér hafa átt sér stað. Hér hefur enginn vitað neitt frá stund til stundar, hvað þá heldur frá degi til dags. Hér er þm. í öllum flokkum haldið í spennu á meðan hrossaprangararnir eru að ráða sínum ráðum. Er ekki ástæða til að gera brtt. við frv. um bann við ofbeldiskvikmyndum?