14.03.1983
Neðri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3154 í B-deild Alþingistíðinda. (3181)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til l. um bann við ofbeldiskvikmyndum og þær brtt. sem gerðar voru við frv. þetta í hv. Ed. Þegar frv. þetta var rætt hér í Nd. við 3. umr. lögðum við fram brtt. við frv., ég og hv. 4. þm. Reykv., sem var samþykkt, en þá var mikið að því fundið að fram færu of miklar umr. um þetta mál við 3. umr., jafnvel þótt um brtt. væri að ræða.

Ég hef ekki heyrt á þm., sem hér hafa talað til þessa, að nokkuð hafi verið minnst á þær brtt. sem koma til okkar nú frá Ed. til samþykktar án þess að yfir þær sé farið. Ég vil með örfáum orðum lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel að þær séu til bóta. Það má t.d. benda á að sú breyting sem hefur verið gerð á 2. gr. fjallar m.a. um að það verði fleiri aðilar kallaðir til að borga þann óhjákvæmilega kostnað sem verður af því að skoða það myndefni sem flutt er til landsins. Hingað til hafa það aðeins verið kvikmyndahúsin, sem flytja inn kvikmyndir, sem hafa þurft að gera þetta, en við vitum að nú eru ekki tugir heldur kannske á annað hundrað innflytjendur myndefnis sem sýnt er í myndböndum.

Í flestum ofbeldiskvikmyndum er leikið og það er oft leikið hart í þessum myndum. En við vitum að í leiknum kvikmyndum jafnvel leyfa margir leikstjórar sér að „improvisera“ og breyta frá handriti. Hér hafa einmitt komið til umr. í dag þau verk sem verið er að vinna á hv. Alþingi af þeim sem ráðin hafa. Þeir eru áð „improvisera“, þeir eru að breyta frá því handriti sem við eigum að fara eftir á Alþingi Íslendinga, handritinu sem segir okkur að fylgja lýðræði og þingræði. Við fáum að heyra það í hádegisfréttum hjá Ríkisútvarpinu að það eigi að rjúfa þing strax að loknum útvarpsumræðum í kvöld. Þetta kalla ég ofbeldisleik. Eins og hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, vakti athygli á í dag, þegar þetta mál kom til umr., er hér um ofbeldisverk að ræða gagnvart okkur þm. og gagnvart þingræðinu í landinu.

Það er vitað mál að hér á Alþingi hefur skapast meiri hluti fyrir tveimur þáltill. Annars vegar er þáltill. um nýja viðræðunefnd í sambandi við álverið í Straumsvík. Í raun fjallar þessi þáltill. um vantraust á hæstv. iðnrh. Það hefur skapast meiri hluti hjá öðrum þingflokkum en þingflokki Alþb. fyrir þessu vantrausti á hæstv. iðnrh. Alþb. hefur hins vegar haldið uppi málþófi um þetta mál sólarhringum saman. Það hefur verið upplýst að sjálfur iðnrh. hafi talað hér í nær fjórðung sólarhrings og þó aðeins haldið sig við gömul skjöl, sem hann fann í iðnrn., varðandi þá samninga sem gerðir voru þegar verksmiðjan var sett á stofn. Eftir því mætti halda að það mundi taka hann næstu 10 ár ef hann kæmist að sínum eigin pappírshlaða, og bið ég þá guð að hjálpa okkur ef honum tækist að gera það.

Hin þáltill. var um samkomudag Alþingis, um það að Alþingi yrði kallað saman 18 dögum eftir næstu alþingiskosningar, sem eru fyrirhugaðar 23. apríl, en þó hefur engin opinber tilskipun verið gefin út um að kosningarnar fari fram þá. Viðkomandi ráðh. hefur ekki tilkynnt það ennþá. Forsrh. hefur lýst yfir á Alþingi í umr. að þær eigi að fara fram þá, en það hefur engin opinber tilskipun verið gefin út um það ennþá. Hæstv. ráðh., sem sitja í ríkisstjórninni núverandi, geta því þess vegna svikið það loforð sem þeir hafa gefið og þær yfirlýsingar sem þeir hafa gefið varðandi þetta mál, eins og þeir eru að svíkja það samkomulag sem hefur verið gert í viðkomandi tveim þáltill. Um þáltill. um samkomudag Alþingis var fullt samkomulag á milli stjórnarandstöðu hér á Alþingi og þingflokks Alþb.

Nú yfir þá helgi sem við höfum haft hið mesta að vinna, ýmsir þm., utan þings hafa ráðherrar og þingflokkarnir tveir, Alþb. og Framsfl., skriðið saman og náð samkomulagi um að svíkja hvort tveggja. Það er lítilmannlegt, enda er svo komið að við stöndum frammi fyrir því hér á Alþingi, eins og þegar hefur verið drepið á, að það á eftir að samþykkja fjáröflun til vegagerðar, sem er á dagskrá þingdeildarinnar í dag. Hingað koma menn úr fjölmennri stétt og pípa og pípa á hæstv. ráðh. Þeir flykkjast hingað í nágrenni Alþingis með atvinnutæki sín og pípa á formann Framsfl., formann Alþb. og aðra hæstv. ráðh. Við eigum eftir að afgreiða lánsfjáráætlun. Þjóðin á að vita hvernig hún er og hvenær hún kom fram. Hún kom fram mörgum mánuðum eftir að gildandi lög segja að hún hafi átt að koma fram. Það átti að leggja hana fram með fjárlögum, en hún er ekki lögð fram fyrr en fyrir nokkrum dögum og við eigum að fara heim af þingi án þess að hún sé afgreidd. Á það hefur verið bent að dynja munu yfir þjóðina brbl. frá þessari hæstv. ríkisstj., frá viðkomandi ráðh., sem hafa ekki meiri hl. hér á Alþingi og hafa ekki lengur meiri hluta meðal þjóðarinnar. Ef þetta er ekki brot á þingræði og lýðræði er ekki til brot á þeim hugsjónum.

Ég hef m.a. kvatt mér hljóðs hér vegna orða sem komu fram í ræðu hv. 4. þm. Reykv., Vilmundar Gylfasonar. Á það hefur verið bent, í ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar, hve fráleitar þær kenningar eru, sem þessi hv. þm. boðar. Að sjálfsögðu munum við taka upp áskorun hans, ekki aðeins í Vestfjarðakjördæmi heldur í öllum kjördæmum landsins, og benda á hve fáránlegar kenningar hans eru. Það sem hv. þm. vill og hans nýi flokkur boðar er að fela hinum sterka manni, sem nú er hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen, enn meira vald, fela honum ennþá meira vald en hann hefur og sem hann hefur beitt fram til þessa hér á Alþingi með því að ganga á lýðræðis- og þingræðishefðir. Jú, hv. þm., við skulum koma því áleiðis til kjósenda hvað felst í till. þínum í sambandi við stjórnskipulag landsins. En það er merkilegt með þennan hv. þm., að hann kvartaði yfir því hér, þegar hann stóð í ræðustól áðan, að svona sé það búið að vera í þrjú ár, allt þetta kjörtímabil sé þetta ástand búið að vera eins og það er, en það er ekki fyrr en hann fellur í framboði sem varaformaður í Alþfl. að honum finnst ástæða til að vekja athygli á þessu máli, fyrir aðeins örfáum vikum. Við munum líka benda á þetta í þeirri kosningabaráttu sem fram undan er, hv. 4. þm. Reykv.

Ég tek undir þau aðvörunarorð, sem hér hafa komið fram frá hv. þm. sem hér hafa talað, að við getum fengið að búa við það þrátt fyrir alþingiskosningarnar, ef þær þá verða 23. apríl, að þing verði ekki kallað saman fyrr en í haust eins og lög kveða á um, og vissulega gæti hæstv. forsrh. með stuðningi sinna samráðherra gefið út brbl. í sumar um að samkomudegi Alþingis 10. okt. verði frestað. Annað eins hefur þessi hæstv. makalausa ríkisstj. gert.