14.03.1983
Neðri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3156 í B-deild Alþingistíðinda. (3182)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er eðlilegt að þessar umr., sem hér hafa átt sér stað í dag, fari fram undir þessum dagskrárlið, um ofbeldiskvikmyndir, því að vissulega kemur það hugtak upp í hugann þegar þann veg er staðið að málum eins og gerst hefur hér í dag og útvarpsfréttir greindu frá.

Það hafa ýmsir talað fyrr í þessum umr., þar á meðal hv. 4. þm. Reykv. Honum hefur verið svarað að langmestu leyti. Ég sé enga ástæðu til þess að vera að hella mér yfir hann. Það er ekkert víst að hann verði efstur í prófkjöri í nýja flokknum, Bandalagi jafnaðarmanna. Það er ekkert víst að hann komist á þing. Það er beðið eftir því hvenær prófkjör verður í þessum nýja flokki. Hv. 4. þm. Reykv. er postuli prófkjaranna. Hann kom þeim á í Alþfl. Var það gamall flokkur á nýjum grunni eða nýr flokkur á gömlum grunni? Það skiptir ekki neinu máli hvort það var, en hv. þm. kom þessu í gegn. Hv. fyrrverandi tilvonandi varaformaður Alþfl., Vilmundur Gylfason. Við bíðum eftir úrslitum prófkjörsins hjá hv. núverandi þm. Ég tel enga ástæðu til þess að vera að skamma hann fyrr en við vitum hvort hann lendir í öruggu sæti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson fékk að kenna á því og hver veit nema kjósendur eigi eitthvað vantalað við Vilmund Gylfason. Við skulum bíða með að skamma hann meira þar til við sjáum hvernig prófkjörið fer hjá Bandalagi jafnaðarmanna.

Það sem hefur gerst í dag og þarf að taka skýrt og skorinort fram er það, að tveir minni hlutar á hv. Alþingi í tveimur málum, annars vegar Framsfl., sem ekki þorir að láta Alþingi koma saman eftir kosningar, og hins vegar Alþb., sem þorir ekki að hætta á að álmálið sé tekið úr höndunum á ónýtum hæstv. ráðh., hafa gert bandalag, bandalag óttans, bandalag valdahrokans hér á Alþingi og þeir hafa fórnað miklu til. Þeir hafa fórnað því til að hægt væri að setja með eðlilegum hætti lög um bráðnauðsynlega hluti, vegna þess að þessir sömu menn ætla núna út af hv. Alþingi og byrja sama leikinn og þeir hafa iðkað þegar Alþingi hefur ekki setið að störfum, en það er að stjórna með brbl. Þetta er það sem þeir ætla að gera. Annars vegar hefur Framsfl. fórnað hagsmunum Íslendinga í álmálinu í hendur á manni, sem hæstv. samgrh. hefur sagt að hafi með mjög klaufalegum hætti klúðrað samningunum við ÍSAL og Alusuisse, manni sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hefur sagt réttilega að hvorki gæti né vildi semja um þessi mál, og Alþb., hinn minni hl. í hinu málinu, fórnar því að fá tryggingu fyrir því að Alþingi verði kallað saman að loknum kosningum. Þetta er bandalag óttans og bandalag valdahrokans. Eftir því verður munað.

Eitt sinn var ritstjóri á Þjóðviljanum, sem hét Svavar Gestsson. Þessi sami Svavar Gestsson er nú hæstv. félmrh. Í febr. 1978 skrifaði Svavar Gestsson ritstjóri Þjóðviljans mergjaðar forustugreinar í Þjóðviljann. Þá sagði Svavar Gestsson ritstjóri þetta, með leyfi forseta: „Alþingi götunnar þarf að sýna hrokagikkjum valdsins víð Austurvöll hver það er sem ræður úrslitum um allt efnahagslíf þessa þjóðfélags.“ Þetta var tilvitnun í Svavar Gestsson, ritstjóra Þjóðviljans. Nú er þessi sami maður hæstv. félmrh. og formaður Alþb. Hver hefur sýnt meiri hroka í störfum en einmitt þessi maður? Hver hefur sýnt það með því að gera bandalag, eitthvert mesta aumingjabandalag sem hefur verið gert á síðari tímum í stjórnmálum, nema einmitt þessi hrokagikkur valdsins? En hann ætlar ekki að sitja við Austurvöll. Hann ætlar að sitja í rn. Þar ætlar hann að sitja á sinni boru og stjórna með brbl. Er hægt að láta viðgangast að slíkt geti skeð árið 1983 á Íslandi?

Hvar í heiminum, hvar í hinum vestræna heimi mundi slíkt geta gerst annars staðar en hér á landi, að slík siðspillingaröfl taki saman höndum um stjórn landsins? Á einni helgi féllu þeir frá öllum sínum málum, létu þau bara detta í ruslakörfuna og sögðu: Nú skulum við koma okkur saman um að verma ráðherrastólana nokkra mánuði í viðbót. Eftir þessu verður munað.

Það er kominn tími til að íslenska þjóðin fái að vita hvernig þetta bandalag er gert — þetta bandalag hrokans og bandalag óttans. Því þarf að koma til skila hvernig ofbeldi hefur verið notað og það er vel á síðasta degi þessa þings að það gerist í umr. um ofbeldi í kvikmyndum. Í raun og veru hefði þurft að kvikmynda þessa sögu alla og sýna hana hverju mannsbarni sem tryggingu fyrir því að lýðræði og þingræði verði ekki fótum troðið í framtíðinni.