14.03.1983
Neðri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3158 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Sjútvrn. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Undir þessum lið — um ofbeldiskvikmyndir — hafa menn einkum rætt ímyndað ofbeldi hæstv. forsrh. og jafnvel teygt þá sögu svo langt að fullyrða hér að hann muni beita ofbeldi til að sitja allt fram á haustdaga. Ég vil í þessu sambandi leggja á það ríka áherslu að við framsóknarmenn munum gera allt sem í okkar valdi er, og ég held að við höfum æðimikið vald á því satt að segja, til að sterkur meiri hl. geti tekið við eftir kosningar. Við munum því segja af okkur eftir kosningar og rýma fyrir sterkum meiri hluta, sem þarf að myndast til að taka á efnahagsmálum þjóðarinnar. Á þetta vil ég leggja mikla áherslu. Það verður enginn leikaraskapur í þeim efnum, um það er ekki að ræða.

Menn tala hér um þá till. sem lögð hefur verið fram í báðum deildum um samkomudag Alþingis. Ég vil andmæla því að við framsóknarmenn höfum iðkað málþóf í því sambandi. Við vildum hins vegar fá að ræða á eðlilegan hátt um þau mikilvægu málefni sem framundan eru. Hvernig á að halda á málefnum þjóðarinnar á næstunni? Þykir mönnum þetta þing hafa verið svo til fyrirmyndar og okkur svo til hróss að það sé ástæða til að kalla saman nýtt þing strax í maí og halda áfram þessum leikaraskap í allt sumar? (Gripið fram í.) Nei, áður en það er gert þarf að myndast meiri hluti sem leiðir þingið til aðgerða sem eru nauðsynlegar í íslenskum efnahagsmálum. (Gripið fram í: Á að leiða Alþingi?) Ég skora á hv. þm. sem hér hafa talað að beita sér fyrir slíku og taka ábyrgð á þeim málum sem knýja á hjá þessari þjóð.

Ég vísa því á bug að við munum á nokkurn hátt standa í vegi fyrir því að hér myndist meiri hluti. Við munum þvert á móti þrýsta á að svo verði. Ég vísa því algjörlega á bug að við höfum beitt málþóf við umræðu um þá sýndartillögu sem var á dagskrá. Ég vek athygli á því, eins og margsinnis hefur verið upplýst, að sú till. tryggir alls ekki á nokkurn máta að þing verði kvatt saman í maímánuði. Það hefur verið upplýst hér af þeim mönnum sem gerst þekkja til stjórnarskrár, að það er forseti Íslands sem ákveður hvenær þing verði kvatt saman að till. forsrh. Þetta þing getur ekki ákveðið hvenær næsta þing, sem kjörið verður í kosningum 23. apríl næstkomandi, kemur saman. Meira að segja verða sumir flm. að þeirri till., sem hér átti að vera til umr. og var reyndar til umr. fyrir hádegi, að öllum líkindum ekki á næsta þingi. Hvernig eiga þeir að ákveða hvenær næsta þing kemur saman? Það er mikill misskilningur sem komið hefur fram í þessu máli, að kosningum verði e.t.v. frestað.

Því hefur verið lýst yfir að kosningar fari ekki fram síðar en 23. apríl n.k. Það er tími til kominn að kosningar fari fram og þetta þing má reyndar ekki standa lengur til þess að frestir verði ekki of stuttir til framboðs fyrir þær kosningar. (Gripið fram í). Það má stytta fresti og kann að verða nauðsynlegt að gera það til að unnt sé að hafa kosningarnar 23. apríl, en ef þing stendur miklu lengur er það með hverjum deginum erfiðara.

Ég vildi aðeins með þessum orðum vísa á bug þeim fullyrðingum sem hér hafa komið fram.