14.03.1983
Neðri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (3184)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þessi umr. ætlar að verða gagnleg og taka á sig hinar ótrúlegustu myndir, ekki síst eftir að síðasti hv. ræðumaður tók til máls. Hér koma þeir til skiptis og tuða þetta uppáhaldsorð sitt „þingræði“, en í hinu orðinu er verið að leggja til að störf þingsins liggi niðri til hausts fyrir eitthvað sem þeir blygðunarlaust kalla „sterka stjórn“ — ég endurtek, herra forseti, að „sterk stjórn“ eru orðin sem þeir nota. Og ég spyr: Hvað er sterk stjórn, sem þessir herramenn eru að tala um og hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson nefnir hér aftur og aftur? Sterka stjórnin er væntanlega sú, að Sjálfstfl. muni að loknum kosningum velja á milli Framsfl. og Alþb. og sterka stjórnin verði mynduð — og sterk stjórn í hvaða skilningi? Í skilningi talinna höfuða í þessu húsi, sem kemur hins vegar þjóðinni lítið eða ekkert við frekar en fyrri daginn. Að þessu er blygðunarlaust stefnt.

Það er talað fyrir því að það verði ekkert þing. Jú, jú, við megum kjósa 23. apríl, en af hverju er verið að kjósa 23. apríl en ekki í júní, ef ekki stendur til að þingið komi saman fyrr en í haust, heldur bara sterk stjórn? Sterk stjórn, segja þeir. Svo koma þeir hinum megin úr kerfinu, hv. þm. Sjálfstfl., Pétur Sigurðsson og Friðrik Sophusson, og hella sér yfir þær till., sem við höfum flutt. (Gripið fram í.) Þakka þér fyrir stuðninginn um kosningalögin, hv. þm., um að kjósendur fái að velja sjálfir í kosningunum. Það verður ekkert prófkjör haft. (Gripið fram í.) Ó, já, já.

Kjarni málsins er sá, að raunverulega er verið samkvæmt hugmyndum þessara manna að leggja til að þingræðið sé afnumið í sex mánuði eða sjö mánuði. Það er út á það sem þessi leikur gengur og blygðunarlaust er talað fyrir. Hins vegar koma þeir og fjalla um það í umr. um ofbeldiskvikmyndir að forsrh. ríkisins sé kosinn af þjóðinni og ekki þessari samkomu hér, sem þeir hver á fætur öðrum lýsa sem skrípasamkomu, hann sé kosinn af þjóðinni og ekki af þingræðinu, og segja að það sé ákall á hinn sterka mann. Þó er ekki verið að leggja til nemar grundvallarbreytingar á embættinu sjálfu, aðeins aðferðinni við að kjósa í það. Vitaskuld eru þeir hræddir. Það er furðulegt að menn skuli í öðru orðinu halda uppi vörn fyrir þann orðaleik í þessu samhengi málsins sem er „þingræði“ og tala svo eins og hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson talaði áðan og efalítið fleiri hugsa.

Af hverju er verið að kjósa 23. apríl? Jú, til þess að það sé hægt að mynda sterka stjórn, segir hann. Sterka stjórn hverra? Reyni menn að skoða spilin frá sjónarhorni gömlu flokkanna. Þessi sterka stjórn er íhaldið og annaðhvort framsóknarmenn eða kommar. Það er ekki annað. Sterka stjórn, segja þeir. Sannleikurinn er sá, að það sem hér er að gerast er hnefahögg framan í það sem menn hafa kallað lýðræði. Það er af þeim ástæðum að kosningar eru ákveðnar einvörðungu með hagsmuni þessa kerfis fyrir augum. Auðvitað sjá þeir enga málefnalega niðurstöðu neins staðar bak við horn. Það eru engar till. um að breyta um stefnu. Það er ekkert slíkt á spilunum.

Þennan kjarna málsins, herra forseti, hefur þessi umr. leitt í ljós, að krafa hæstv. ráðh. Steingríms Hermannssonar er annars vegar um sterka stjórn og hins vegar þinglaust land til hausts. Ef tala má um pólitískt óhæfuverk er verið að vinna það með þessu.

En síðan koma þeir, einkum hv. þm. Sjálfstfl., og hella sér yfir þá hugmynd þegar ekki er verið að leggja til formbreytingu á framkvæmdavaldinu sjálfu, heldur formbreytingu á aðferðinni við að kjósa það, sem er allt og sumt, og dylgja með það í leiðurum Morgunblaðsins og hér í ræðustól og segjast ætla að gera það víðar að þar sé um að ræða ákall á hinn sterka mann vegna upplausnarinnar. Vitaskuld verður framkvæmdavald svo kosið að því leytinu til sterkara að það er einhver trygging fyrir því að það hafi þjóðarvilja að baki sér. En það er allt og sumt. Það gerist með því að einn maður hafi eitt atkvæði. Það er líka allt og sumt. En að það sé um að ræða breytingu á formi embættisins sjálfs er rangt hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni o.fl. sem hér hafa talað í þá veru.

En allt það sem hér er að gerast í dag, misbeiting þingrofsins, misbeiting á tímasetningu kosninga, ákall hæstv. ráðh. Steingríms Hermannssonar á sterka stjórn, hinn raunverulegi vilji fyrir þingleysi til hausts, það er undirstrikun á því að það er stjórnkerfið sjálft sem er orðið skakkt, og þegar við sjáum skekkjur fyrir framan okkur, þá lögum við þær.