14.03.1983
Neðri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3161 í B-deild Alþingistíðinda. (3186)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég spurði formann Alþýðubandalagsins, hæstv. félmrh., í dag að því, hvort Alþb. hefði ekki örugglega gert samning við Gunnar Thoroddsen og Framsóknarflokkinn um að beita hér þingrofsvaldi í kvöld eða nótt. Hann hefur ekki svarað og er horfinn út úr þingdeildinni, en ég sé að hæstv. fjmrh. er hér.

Við áttum samleið í breytingum á stjórnskipunarlögum og samleið í sambandi við flutning á þáltill. um samkomudag Alþingis. Í þeim umr. og viðræðum, sem fóru fram á milli okkar, kom það fram að um þingrofsréttinn var samið sérstaklega. Hann er ekki birtur í stjórnarsáttmála þessarar hæstv. ríkisstj. heldur um hann samið, að til hans yrði ekki gripið nema með samþykki allra aðila stjórnarsamstarfsins. Og nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Það er þá rétt að Alþb. hefur svikið till. um að samþykkja þáltill. um samkomudag Alþingis eigi síðar en 18 dögum eftir næstu kosningar? Það var þá ekki meira á þessari samvinnu að græða en þetta að ekki var hægt að standa við þetta samkomulag lengur en raun ber vitni. Ástæðan til þess að þetta samkomulag var svikið var að það þurfti að fá Framsfl. til þess að svíkja það samkomulag sem fulltrúar hans höfðu gert í sambandi við álmálið. Það þurfti að skera iðnrh. niður úr snörunni því hann var kominn að því að hengjast í öllum sínum skýrslum og álitsgerðum sem fyrir lágu í álmálinu. Þegar sterkur þingmeirihluti var fyrir öðru — yfir 40 þm. eða sennilega 49 þm. — má ekki þingviljinn koma fram. Það verður að fótumtroða þingræðið og lýðræðið og þessir hrossaprangarar semja um þetta sín á milli yfir helgina.

En hafa þeir ekki samið um meira en þetta? Hafa þeir ekki samið um að sitja áfram? Hafa þeir sýnt ykkur hv. þm., sem hafa staðið með þeim hér, þá virðingu að ræða þetta mál við ykkur? Nei, það er farið á bak við ykkur marga hverja. Það eru vanir hrossaprangarar sem ganga frá þessum málum. Svo kemur formaður Framsfl., hæstv. samgrh., hér og er alveg undrandi yfir því að Alþingi vilji lýsa yfir þeim vilja sínum að þing verði kallað saman 18 dögum eftir kosningar og segir: Það er ekki Alþingi sem á að ráða því hvenær þing kemur saman, heldur er það forseti Íslands sem kallar þingið saman að till. forsrh. Það er aðeins formsatriði að forseti Ístands kalli þing saman, það er forsrh., það er sem sagt hann einn, það er gamli maðurinn, sem búinn er að leika svikahlutverkið í þrjú ár, sem á að ráða því hvenær þing kemur saman. g hef fengið nóg af þeim manni og þeir eru fleiri og þeir voru orðnir þreyttir, bæði í Alþb. og Framsfl., á þessum hæstv. karli.

En hvar stendur lýðræði og þingræði í þessu landi? Stjórnarskrárnefndin, sem hæstv. forsrh. hefur verið í í heilan mannsaldur og formaður í síðustu tæp fjögur ár, hefur lagt til, og þar með hæstv. fjmrh., ég o.fl., að þingrofsréttinum væri beitt á þann veg að þing yrði ekki rofið nema meiri hl. Alþingis væri því samþykkur. Nú er vitað og hefur verið vitað að meiri hl. Alþingis er því ósamþykkur að beita þingrofsréttinum strax, ekki fyrr en ákveðin mál eru afgreidd, en þá er farið í hrossakaupin. Sami maður, hæstv. forsrh., tekur öll verk stjórnarskrárnefndar og gerir þau að sínum, flytur þau í frv.-formi í Ed., og hann leggur svo mikið kapp á að fylgja málinu úr hlaði í morgun að það er gert. Það er látið eftir honum á meðan mikilvæg þingmál bíða, en hann tekur það jafnframt fram að hann vilji ekki einu sinni að málið fari til n. Hann tók það fram í þingræðu sinni. Maður sem leggur til að breyting sé gerð á þingrofsréttinum hefur gert það að till. sinni. Ég, hæstv. fjmrh. og fleiri erum siðferðilega skuldbundnir að þingrofsrétti sé ekki beitt nema meiri hl. Alþingis sé því samþykkur. Þarna er því verið að fótumtroða lýðræði og þingræði í þessu landi.

Nú á að afgreiða mál, eins og t.d. vegáætlun, með brbl. eða kannske að hafa enga vegagerð. Það er ekki einu sinni hægt að afgreiða þetta mál. Hæstv. samgrh. finnst þetta sennilega miklu betra en eiga við þetta árans Alþingi. Verður ekki langbest að leggja þing niður eða þá að fækka þm. niður í einn eða kannske þrjá? Þeir geta verið hérna þrír, Gunnar Thoroddsen, Svavar og Steingrímur. Það verður þá þingræðið sem við höfum í framtíðinni. Þetta er siðlaust. Það er siðlaust athæfi sem þessir menn eru að framkvæma hér og það er furðulegt að þingmenn úr þessum flokkum skuli láta þessa hrossaprangara bjóða sér þetta. Það sýnir geðleysi þm. sem láta bjóða sér þetta.

Það fer vel á því að umr. sem þessi fari fram undir dagskrárliðnum banni við ofbeldiskvikmyndum. Það er alveg í samræmi við annað hjá þessari hæstv. ríkisstj. Hún var mynduð með svikum og hún hefur verið að svíkja allt frá því að hún var mynduð. Hún hefur misst alla stjórn og öll tök á efnahagsmálum þjóðarinnar og þessi þjóð er stjórnlaus. Í framhaldi af því stjórnleysi sem hér ríkir ríkir upplausn á ýmsum öðrum sviðum í þjóðfélaginu. Nú segja allir undir slíkri upplausn: Við viljum bara fá þetta eða hitt. Þessi stjórn er því stórsek og hún er hættuleg, þessi stjórn, og það vita það allir. Ég trúi að til sé það sterkur vilji meðal þessarar þjóðar að menn sem þannig haga sér fái eftirminnilega hirtingu þann 23. apríl. Ég vona svo sannarlega að það verði, enda er það eina leiðin til að bjarga heiðri þingræðis og lýðræðis í þessu landi að veita þessum lýðskrumurum og hrossapröngurum almennilega hirtingu 23. apríl.