14.03.1983
Neðri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3163 í B-deild Alþingistíðinda. (3187)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar vil ég aðeins segja að ég tel ekki að það hafi neitt komið fram á þessum fundi eða á fyrri fundum í dag sem leiði líkur að því að meiri hl. Alþingis sé á móti því að þingrof fari fram. Þvert á móti hygg ég að leiða megi nokkrar líkur að því að þessu sé öfugt farið. Ég hygg líka að flestir geri sér grein fyrir að þingstörfin eru komin í nokkra sjálfheldu. Ég efast ekki um að allir hv. þm. gera sér ljóst að við erum komnir með mjög mörg mál í sjálfheldu og það er því óhjákvæmilegt að þing verði rofið senn hvað líður, enda dregur óðfluga að því að kosningar fari fram, miðað við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið, og auðvitað verður að ætla mönnum hæfilegan framboðsfrest. Þetta vildi ég láta koma fram vegna þess að ég gat ekki fallist á þau orð hv. þm. að hugsanlega væri verið að rjúfa þing gegn meirihlutavilja Alþingis. Ég held að það sé á einhverjum misskilningi byggt.

Ég vil hins vegar vegna orða hans taka skýrt fram, að það er eindregin ósk og vilji okkar Alþb.-manna að þing komi saman að hæfilegum tíma liðnum eftir næstu kosningar. Við höfum t.d. verið reiðubúnir að fallast á að gefinn yrði 18 daga frestur til stjórnarmyndunar, — kannske þrjár vikur ef menn kysu að frekar eða fjórar, — en síðan kæmi þing saman. Ég hygg að það hafi komið fram nokkuð skýrt í umr. hér á Alþingi að mikill meiri hl. þm. óskar eftir þessu og vill að þing komi saman að kosningum loknum.