14.03.1983
Neðri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3165 í B-deild Alþingistíðinda. (3192)

Starfslok neðri deildar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar Nd.-manna þakka hæstv. forseta fyrir góðar óskir í okkar garð. Ég vil ennfremur þakka honum fyrir röggsama og glaðværa fundarstjórn. Hér í Nd. hefur nú um sinn verið forseti úr hópi stjórnarandstæðinga, en ég vil alveg sérstaklega sem stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar þakka hæstv. forseta fyrir mjög réttláta stjórn á fundum Nd. og lipurð, samviskusemi og lagni við öll þau stjórnarstörf.

Ég vil ennfremur fyrir hönd okkar dm. þakka skrifstofustjóra og starfsliði Alþingis vel unnin störf í okkar þágu. Ég vona að kosningabarátta hæstv. forseta verði ánægjuleg og við hittum hann heilan og hressan hér á næsta þingi. Ég árna fjölskyldu hans allra heilla og ég vil biðja hv. þm. að áréttaþökk mína með því að rísa úr sætum. — [Dm. risu úr sætum.]