14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3173 í B-deild Alþingistíðinda. (3199)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Helgason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Umr. um þau áföll sem íslenskur þjóðarbúskapur varð fyrir á s.l. ári munu ekki hafa farið fram hjá neinum. Fram að því höfðu þjóðartekjur farið vaxandi. En vandi landbúnaðarins á sér þó nokkru lengri aðdraganda, er verðfall á erlendum mörkuðum varð svo mikið að útflutningur margra búvara var útilokaður. Íslensk bændastétt hefur þó með sameiginlegu átaki til að miða framleiðslu við markaðsaðstæður komið í veg fyrir miklu meira tjón en ella hefði orðið.

Sem betur fer hefur þó ekki þurft að snúast til varnar eingöngu með neikvæðum aðgerðum. Loðdýraræktin hefur náð öruggri fótfestu svo að þar gætir vaxandi bjartsýni, enda gefur hún hlutfallslega miklar gjaldeyristekjur. Þar er einnig dæmi um hvernig hagsmunir og möguleikar atvinnuveganna tengjast, þar sem í fóður nýtist betur úrgangur við vinnslu sjávarafla, en betri nýting og úrvinnsla hráefnis er forsenda batnandi lífskjara.

Vonir hafa vaknað um að rækta megi hér nokkuð af því korni sem nú er flutt inn í svo miklum mæli til fóðurs. Þannig má rekja áfram. En á öllum sviðum þurfum við að leita nýrra leiða. Erfið staða Áburðarverksmiðju ríkisins veldur bændum áhyggjum. Framsfl. leggur áherslu á að eigandi verksmiðjunnar verði að hlaupa undir bagga svo að verðhækkun áburðar verði ekki meiri en almenns verðlags í landinu.

Því er ekki að neita að hagsmunir landbúnaðarins eiga nokkuð þungt fyrir fæti. Allir minnast útgönguliðsins hér á Alþingi vorið 1979, þegar verja skyldi bændur að nokkru fyrir þungu áfalli á hörðu vori. Og á s.l. sumri virtist Alþb. sameinast útgönguliðinu þegar það lagði til við samninga um efnahagsmál að útflutningsbótaréttur landbúnaðarins yrði afnuminn.

En tvímælalaust er það verðbólgan sem veldur þyngstum búsifjum hjá bændum eins og öðrum atvinnurekstri í landinu og einstaklingum. Það urðu framsóknarmönnum því ákaflega mikil vonbrigði þegar hinir flokkarnir fengust ekki til að styðja aðgerðir til að draga úr verðhækkunum 1. mars s.l. Fyrst lögðust þeir gegn vísitölufrv. og síðan fékkst ekki stuðningur við auknar niðurgreiðslur.

Það er ekki hægt að hafa nógu sterk orð um hversu ábyrgðarlaus slík afstaða er, sérstaklega þó með tilliti til þess, að á sama tíma kom fram í viðræðum um stjórnarskrármálið till. frá þessum sömu flokkum um að allir flokkar gerðu með sér samkomulag um tvennar kosningar á næstu mánuðum án myndunar ríkisstj. sem styddist við nægan meiri hl. til að taka á efnahagsmálum. Framsóknarmenn höfnuðu þessu algerlega. En hinir flokkarnir hafa nú myndað nýjan meiri hl. til að stýra gangi íslenskra stjórnmála að kosningum loknum og innsigla bræðralagið með óvenjulegum tillöguflutningi hér á Alþingi. En hvernig verður forusta þar?

Framsfl. telur þessa stefnu hins nýja meiri hluta óábyrga.

Framsfl. stendur að stjórnarskrárbreytingunni, enda hefði margt farið þar á verri veg að okkar mati án hans áhrifa. En Framsfl. telur að sú breyting geti náð fram með eðlilegum hraða án þess að valda öngþveiti í efnahagsmálum og stofna atvinnulífinu í hættu. Framsfl. leggur því áherslu á að mynduð verði sterk meirihlutastjórn þegar að loknum kosningum 23. apríl n.k. Slík stjórn mun síðan kveðja saman þing til að samþykkja nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum og breytingarnar á stjórnarskránni.

Um þessar andstæðu skoðanir Framsfl. og þríflokkabandalagsins verður kosið í komandi kosningum. Úrslit kosninganna munu ráða hve staða Framsfl. verður sterk til að koma á festu í íslenskum stjórnmálum. Vandi þjóðfélagsins verður ekki leystur með því að auka á úlfúð og sundrungu í þjóðfélaginu. Hann verður ekki leystur með ásökunum um illar hvatir og mannvonsku þeirra sem hafa önnur sjónarmið. Í kosningum á að velja forustu til að byggja upp fyrir framtíðina, en ekki rífa niður. Kosningar eiga að vera jákvæð athöfn. Framsfl. leggur áherslu á, að aðeins með samstarfi og samvinnu leysum við vandamál okkar. Með tilliti til þess ástands sem nú ríkir í stjórnmálum er Framsfl. eina aflið sem getur haft forustu um það.