10.11.1982
Neðri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

33. mál, neyðarbirgðir olíu

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson furðar sig á að hér skuli vera fullt af olíu þegar olíuverð lækkar á heimsmarkaði. Síðast þegar þetta skeði var það í sambandi við afskriftir og skattframtöl til íslenskra skattyfirvalda.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir telur að við höfum ekki efni á því að borga þessi 1.6% sem olían hækkar. Auðvitað verðum við að borga fyrir aukið öryggi á þessum sviðum alveg eins og öllum öðrum. En ég vil bara minna á það, þm. virðast hafa gleymt því eða ekki vitað um það, að við vorum svo til olíulausir á árinu 1973. Rússar gátu ekki skaffað okkur olíu þó að þeir væru samningsbundnir til þess. Við vorum alveg við það að verða olíulaus, alveg stopp. Það voru Hollendingar, sem þó voru á svörtum lista hjá Aröbum um það leyti, sem björguðu okkur á síðustu stundu. Þetta sýnir að hættan getur verið til staðar.