14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3181 í B-deild Alþingistíðinda. (3203)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Forustumönnum stjórnarandstöðunnar þykir bera vel í veiði í komandi kosningum. Er ekki útlitið dökkt hjá atvinnuvegunum?, sagði Matthías Mathiesen hér áðan. Hefur ekki kaupmáttur launa minnkað?, spyrja þeir líka. Er ekki verðbólgan í hámarki? Og þeir bæta við: Allt er þetta ríkisstj. að kenna. Það sem nú þarf fyrst og fremst að gera er að losna við núv. ríkisstj. Svo einfalt er það, góðir hlustendur.

Talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki orð á því að nú sé kreppa í öllum nálægum löndum. Þeir ræða minna um það, að íslenskt efnahagstíf hefur orðið fyrir meira áfalli á seinasta ári en nokkru sinni fyrr um áratuga skeið. Nei, þetta er allt mjög einfalt. Við þurfum að losna við þessa ríkisstj. og síðan verður allt í lagi. En ég spyr: Eru þeir menn traustvekjandi, eru þeir menn verðir trausts, sem ekki viðurkenna staðreyndir veruleikans?

Staðreyndir veruleikans blasa við allt í kringum okkur: 30 millj. manna eru á Vesturlöndum án atvinnu. Þúsundum fyrirtækja hefur verið lokað. Ríkisgjaldþrot vofir yfir mörgum þjóðum. En ofan á það ástand, sem er allt í kringum okkur og hefur margvísleg áhrif til hins verra á ástandið hér heima, bætist það að loðnan veiðist ekki, skreiðin selst ekki úr landi og þorskafli hefur minnkað. Þess vegna eru atvinnuvegir okkar í kreppu. Þess vegna hefur orðið að fella gengið verulega til stuðnings útflutningi. Þess vegna hefur verðbólgan aukist aftur.

Alþb. hefur horfst í augu við veruleikann. Framleiðslan hefur dregist saman. Þess vegna tekur þessi forustuflokkur verkalýðshreyfingarinnar hiklaust þátt í því að draga úr neyslu þjóðarinnar, m.a. með því að draga úr kaupmætti launa. En Alþb. setur þrjú skilyrði: Tryggja verður atvinnu fyrir alla um land allt, samdráttur í kaupmætti á ekki að verða meiri en samdrátturinn í framleiðslu þjóðarinnar og aðgerðum stjórnvalda má ekki beina að laununum einum. Þetta er okkar stefna.

Við gerum ekki grundvallarbreytingar á verðbótakerfi launa nema jafnhliða séu gerðar breytingar á verðlagskerfi sjávarútvegs og landbúnaðar og á eyðslukerfi verslunar. Milliliðirnir verða að leggja sitt af mörkum. Við leysum ekki vandann með því að þykjast ekki sjá hann og enn síður leysum við vandann með því einu að skera niður verðbætur á laun, eins og Sjálfstfl. og Framsfl. hafa löngum hamrað á. Vísitölufrv., sem lagt var fram um daginn, hefði engan vanda leyst. Þar var till. um að fresta greiðslu verðbóta í einn mánuð, sem auðvitað hefði engu breytt nema því einu að valda launafólki stórfelldum vandræðum í marsmánuði. Hins vegar var ekki nokkur till. í þessu frv. um hámark verðbóta á hæstu laun, eins og við höfum oft lagt til og full þörf er á.

Núverandi vísitölukerfi má sannarlega breyta á ýmsa vegu, en breytinguna má ekki nota til að keyra almenn launakjör langt niður fyrir það sem samdrátturinn í þjóðfélaginu kallar á. Þetta er kjarninn í afstöðu okkar Alþb.-manna til efnahags- og kjaramála. Við viljum ekki að þjóðin lífi um efni fram. Við viljum ekki að þjóðarbúið sé rekið með halla. En þessu marki má ná án þess að skerða launakjörin meira en orðið er. Nákvæmlega sama gildir um rekstur ríkissjóðs.

Flokkur okkar, Alþb., er félagshyggjuflokkur. Við viljum auka félagslega þjónustu, t.d. þjónustu við sjúka og aldraða, þjónustu við börnin, þjónustu við lágtekjufólk. En samt er það grundvallarstefna okkar að ríkið eyði ekki meira en aflað er. Við gagnrýndum það harðlega á seinasta áratug þegar ríkissjóður var rekinn með miklum halla ár eftir ár og safnaði sívaxandi skuldum í Seðlabankanum með stöðugri seðlaprentun. En við höfum sýnt fram á það undanfarin þrjú ár að unnt er að reka ríkissjóð hallalausan og jafnvel skila afgangi upp í eldri skuldir, eins og gert hefur verið öll árin frá 1980, án þess að skerða félagslega þjónustu við fólkið í landinu.

Við höfum jafnvel sótt verulega fram á ýmsum mikilvægum sviðum. Ég minni á málefni fattaðra og þroskaheftra eða húsnæðismál aldraðra. Stórátak hefur verið gert í öllum þessum málaflokkum. Lítum á uppbyggingu vegakerfisins. Sjá ekki allir hvílík stökkbreyting til batnaðar hefur orðið í uppbyggingu vegakerfisins?

Framlög til lista hafa tvöfaldast að raungildi á fáum árum, bæði til starfsemi atvinnufólks og áhugamanna. Félagslegar íbúðabyggingar á vegum Byggingarsjóðs verkamanna hafa aukist mjög verulega og stuðningur við námsmenn stóraukist. Þannig mætti lengi telja. Ég ítreka að þetta hefur tekist um leið og jafnvægi hefur verið skapað í rekstri ríkissjóðs. Þetta sama, nákvæmlega þetta sama, þarf að gerast í rekstri þjóðarbúsins. En þá þarf að gera fleira en fikta við vísitölu, sem sumir halda að sé allra meina bót. Við þurfum kerfisbreytingu á mörgum sviðum samtímis og róttækar aðgerðir, bæði til að spara í rekstri þjóðarbúsins og til að auka tekjur þess. Öðruvísi ná endarnir aldrei saman.

Í komandi kosningum standa Íslendingar frammi fyrir mörgum spurningum. Flokkum fjölgar, framboðum og flokksbrotum fjölgar. Varla verður það til góðs. Hvað tekur við að kosningum loknum? Framsóknarmenn eru að áfellast okkur fyrir að vilja fyrst gefa flokkunum 18 daga hlé til stjórnarmyndunar, en síðan komi þing saman aftur. Þetta felur alls ekki í sér neina ákvörðun um nýjar kosningar, eins og þeir hafa haldið fram. Það verður algerlega á valdi nýrrar ríkisstjórnar að ákveða hvenær hún telur heppilegast að ákveða hvenær síðari kosningarnar fari fram.

Hlálegt er að horfa á tilburði forustumanna Framsfl. til að þyrla því moldviðri upp að sameiginleg ósk þriggja flokka um samkomudag Alþingis jafngildi því að þessir þrír flokkar ætli senn að fara að mynda stjórn. Þannig tala þeir einir sem vita upp á sig skömmina. Tvisvar sinnum á skömmum tíma hefur Framsfl. farið í bónorðsferð til sjálfstfl. í stjórnarandstöðu og beðið um nýjan meiri hluta í veigamiklum málum þrátt fyrir yfirlýsta harða andstöðu okkar. Fyrst var það kuklið í vísitöluna 1. mars, sem ég nefndi áðan. En þá voru þeir hryggbrotnir af Sjálfstfl. Sjálfstæðismönnum líkar ekki svona kukl. Þeir vilja afnema verðbætur á laun.

Í seinna sinnið leitaði Framsókn til stjórnarandstöðunnar, hvort hún vildi ekki afhjúpa Hjörleif Guttormsson og skelegga stefnu hans gagnvart Álfélaginu. Þá sló Sjálfstfl. til ásamt Alþfl. og saman brugguðu þessir þrír flokkar nýja stefnu í álmálinu, sem felst í því að semja frið við auðhringinn. Í fyrsta lagi um smávægilega hækkun á raforkuverði til álhringsins, þótt ljóst sé að tvöföldun á raforkuverði sé það minnsta sem sanngjarnt getur talist ef unnt á að reynast að lækka raforkuverð til innlendra neytenda. Í öðru lagi að gefa þessum erlenda auðhring forgang um frekari aukningu álvinnslu á Íslandi. Þetta erlenda fyrirtæki, sem hefur blekkt okkur árum saman, bæði í skattamálum og ekki síður í mengunarmálum, á að fá það í morgungjöf á fyrsta samningadegi samkv. þál. Alþingis að það megi auka og stækka umsvif sín á Íslandi, og þessa þokkalegu stefnu sóttu forustumenn Framsfl. af slíku ofurkappi s.l. föstudag að umr. um till. var haldið áfram til kl. hálffimm um nóttina. Eftir þessa nótt er farið að tala um álflokkana þrjá manna á meðal — flokkana þrjá sem leggja slíkt ofurkapp á að koma höggi á okkur Alþb.- menn að þeir eyðileggja samningsstöðu okkar gagnvart erlendum andstæðingi með tillöguflutningi á Alþingi. En hver skyldi hafa glaðst meira yfir till. Halldórs Ásgrímssonar og Friðriks Sophussonar en einmitt svissneski álforstjórinn, sem væntanlegur er til landsins eftir nokkra daga.

Góðir Íslendingar. Það hefur margsinnis sýnt sig að einbeitt stefna Alþb. getur borið sigurorð af hólmi, þótt við ofurefli sé að etja við fyrstu sýn. Þetta gerðist í landhelgismálinu. Þar sigraði djörf stefna Alþb. að lokum. Þetta hefur einnig verið að gerast í flugstöðvarmálinu, svo að annað dæmi sé nefnt. Ef álflokkarnir svonefndu hefðu þar mátt ráða væru Íslendingar á annað hundrað millj. kr. skuldugri við erlenda banka, en ættu hins vegar mannvirki í sameign með bandaríska hernum, sem væri a.m.k. þrisvar sinnum of stórt fyrir þarfir landsmanna.

Þegar Íslendingar reisa nýja flugstöð af hæfilegri stærð eiga margir eftir að þakka okkur fyrir að hafa stöðvað risaútgáfu af flugstöð, sem orðið hefði okkur eilíf byrði í rekstri. Í álmálinu hefur Alþb. líka nokkra sérstöðu í svip. En í baráttunni við svissneska álhringinn treystum við því að fólkið í landinu muni hjálpa okkur að fylkja öðrum íslenskum stjórnmálamönnum bak við þá ófrávíkjanlegu kröfu að orkuverðið til álversins verði a.m.k. tvöfaldað svo að lækka megi innlent heildsöluverð á raforku um þriðjung. — Góða nótt.