14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3185 í B-deild Alþingistíðinda. (3204)

Almennar stjórnmálaumræður

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Undanfarið hefur verið starfað á Alþingi daga og nætur. Hv. alþm., sem margir hverjir hafa þann meginstarfa að sitja í sjóðum, nefndum og ráðum ríkisins og útdeila þaðan fjármagni og greiða án sjáanlegs ágreinings á milli flokka og fylkinga, eru nú allt í einu uppteknir á daginn og helst á nóttunni líka við að setja lög. Við þessar aðstæður er lagavinnan auðvitað hroðvirknisleg og í ólagi, en það skiptir þó ekki meginmáli. Fjórflokkarnir eru að fara í kosningar og að kosningum loknum ætla þeir ekki fyrst og fremst að setja lög, hvorki á daginn né nóttunni, heldur skipta upp á nýtt stjórnum, nefndum og ráðum á milli flokkanna í ljósi kosningaúrslita og halda síðan áfram með nákvæmlega sama hætti og verið hefur.

Það sem við erum að horfa á er sviðsetning til varnar hagsmunum. Fari svo að flokkarnir fjórir sigri í þessum kosningum með einum eða öðrum hætti er alveg ljóst að áfram verður haldið með nákvæmlega sama og óbreyttum hætti. Þá skipta kosningar í sjálfu sér ekki máli og ekki kosningaúrslitin. Þeir skipta aðstöðunni á milli sín. Sjálfstæðisflokkurinn í öllum sínum brotabrotum, þar sem Þorsteinn Pálsson hefur það hlutverk að koma hv. þm. Eggert Haukdal inn á þing og styrkja þar með Framkvæmdastofnun ríkisins og þar sem Pálmi Jónsson hefur það hlutverk að koma hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni inn á þing og styrkja þar með stjórnarandstöðuna, sá flokkur mun annaðhvort reyna að mynda stjórn með Framsóknarflokki eða, sem er líklegra, Alþb. og svo skipta þeir aðstöðunni á milli sín. Þetta mun gerast nema nýtt afl komi til.

Gjaldþrot stjórnmálaflokkanna nú, þegar ríkisstjórn dr. Gunnars er að hrökklast frá, blasir við. Og við skulum muna að sama gerðist með síðustu meirihlutastjórn og þá næstsíðustu. Þeir kenna því núna um að þeir hafi misst meiri hluta í annarri þingdeildinni. Þetta er auðvitað rangt. Slíkur örlagavaldur er hv. þm. Eggert Haukdal ekki. Ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar hafði meiri hl. og mistókst samt. Ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar hafði mikinn meiri hluta. Hún var sú sterka stjórn, sem hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson ákallar nú í tíma og ótíma, og mistókst samt einnig.

Það verður að leita dýpri skýringa á mistökum í stjórnarfari og efnahagslífi heldur en í hv. þm. Eggert Haukdal, sem fjórflokkakerfið hefur gert að skálkaskjóli ógæfu sinnar. Stjórnmálaflokkarnir sjálfir eru þröngar valdastofnanir sem standa ekki lengur fyrir stjórnmálaskoðanir, heldur fyrst og fremst fyrir hagsmunavörslu og þessa hagsmuni verja þeir af oddi og egg. Þeir eru stofnanir, en ekki hreyfingar. Ég spyr — og hugsi menn sig nú vandlega um: Hver er munurinn á stjórnmálaskoðun hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar og Guðmundar J. Guðmundssonar? Ég hef starfað hér í fjögur ár og ég svara: Enginn.

Ef þetta er svo, af hverju eru fjórflokkarnir þá að bjóða fram í fernu lagi, þegar allir vita að að afloknum kosningum geta þeir ekki myndað ríkisstjórn nema sem verður nákvæmlega eins og sú sem nú er að hrökklast frá? Svarið er að höfuðskýringin á þessu skoðanalega öngþveiti er hin bitra barátta um yfirráðin yfir sjóða- og skömmtunarvaldinu. Orðum spurninguna öðruvísi: Hversu mikið af því valdakerfi sem eftir er í Sjálfstfl. rekur sig beint til yfirráða þeirra og fjármagnsskömmtunar í Framkvæmdastofnun ríkisins eða ríkisbönkum — og Framkvæmdastofnun þóttumst við þó ætla að leggja niður fyrir mörgum árum — og hvað eigum við hin að gera, sem höfum skömm og andstyggð á þeim atkvæðakaupum sem þar og annars staðar fara fram, stöndum fyrir utan þetta, viljum breyta því, en ekki og aldrei taka þátt í því?

En þarna er komið að kjarna málsins. Fjórflokkarnir eru í höfuðatriðum allir eins. Þeir eru ekki valkostur hver gegn öðrum. Blæbrigðamunur skoðana er meiri innan þeirra en á milli þeirra.

Þeir segja að við aðstandendur Bandalags jafnaðarmanna séum að spila á upplausnina, kynda undir óánægju, safna um okkur óánægðu fólki, eins og svo smekklega er orðað, en við spyrjum: Hver ber ábyrgðina á því hvernig komið er?

Auðvitað erum við, sem stöndum að Bandalagi jafnaðarmanna, gagnrýnin á stjórnarfarið samhliða bjartsýni á möguleika og getu fólksins í þessu landi. En mörg undanfarin ár hefur á vegum flokkakerfisins verið unnið að breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins. Árangurinn hefur séð dagsins ljós og verið samþykktur hér, en bæði í miklum flýti og að undangenginni lítilli kynningu á meðal almennings. Árangurinn er sá einn að því er stjórnkerfið varðar að fjölga á alþm. í 63. Árangurinn er sá einn. Þegar til átti að taka gat flokkakerfið ekki komið sér saman um neitt annað og ekki vegna hugsjóna, heldur vegna hagsmuna. Þetta frv. er fullkomin blekking, tilraun flokkakerfisins til að skrökva því að þjóðinni að eitthvert samkomulag hafi náðst í máli þar sem ekkert samkomulag hefur náðst nema um það að fjölga hv. þm. um þrjá. Það er allt og sumt.

Við höfum verið að lifa mestu aflaár í sögu lýðveldisins. Við erum matvælaframleiðendur á landinu og sjónum. Við höfum öll tækifæri til þess að byggja upp heilbrigt samfélag hins dreifða valds, hinna smáu eininga réttlætis, jafnaðar og mannlegrar reisnar. Samt horfum við á gegndarlausa skuldasöfnun, óviðráðanlega verðbólgu, efnahagskerfi sem er óheiðarlegt — ég nefni skattsvik og óeðlilegar pólitískar fyrirgreiðslur og stjórnkerfi þar sem Alþingi er og hefur verið í fullkominni upplausn. En við viljum að allt öðruvísi sé farið að.

Við viljum að algerlega verði skilið á milti löggjafarvalds og framkvæmdavalds, að þeir sem eru kjörnir til löggjafarstarfa setji landinu lög og leikreglur og hafi eftirlit með framkvæmd þeirra, að komið sé í veg fyrir þau ósæmilegu atkvæðakaup og þá útdeilingu pólitískra greiða sem nú á sér stað og hefur átt sér stað. — Fólk veit auðvitað mismikið um störf Alþingis, en ég get upplýst að hér um sali ganga hv. þm. sem sjaldan eða aldrei flytja lagafrv., en þar sem víxlabunkarnir standa út úr töskunum. Hér frammi á gangi er rekki fyrir dagblöð og fyrir óútfyllt víxileyðublöð. Vissum við þó ekki að Alþingi væri viðskiptabanki.

En það sem verður að skiljast er hvernig þetta kerfi, þetta samkrull löggjafarvalds og framkvæmdavalds, hefur valdið félagslegri og efnahagslegri ógæfu. Alþingi þarf að setja lög í verðbólgusamfélagi, t.d. um stig vaxta miðað við verðbólgu, en hvernig á Alþingi að geta það þegar annar hver hv. alþm. situr við það á morgnana að skammta fjármagn úr sjóðakerfinu, hvort sem það heitir Framkvæmdastofnun, ríkisbankar eða eitthvað annað?

Það er þetta sem hefur ekki gengið upp, hefur meira og minna lamað alla hagstjórn, gert stjórnsýsluna forspillta og hefur t.d. gert prófkjörin víða svo bitur og ofsafengin sem raun ber vitni. Flokkarnir gömlu eru ekki að takast á um stjórnmálaskoðanir, heldur um aðgöngumiða að skömmtunarkerfinu.

Við viljum jafna kosningarrétt með því að í stað þingkjörs og þingræðisríkisstjórnar komi þjóðkjör og þjóðræði, m.ö.o. að forsrh. sé kosinn beinni kosningu með einu og jöfnu atkv. allra, án tillits til búsetu, í tvöfaldri umferð, hljóti enginn meiri hl. í þeirri fyrri. Með þessu er kosningarréttur raunverulega jafnaður að svo miklu leyti sem hægt er og um getur náðst skynsamlegt samkomulag. Ég spyr einfaldrar spurningar, án þess að leggja dóm á þann mann að öðru leyti: Hver kaus hæstv. núv. forsrh. til slíkrar stöðu í des. 1979?

Við leggjum til að að þessu gjörðu sé hagur hinna dreifðu byggða réttur með því að hafa kjördæmaskipan og tölu þm. óbreytta. Með þessu á að nást fullkominn friður og skynsamlegt jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis, stjórnkerfi í okkar stóra landi sem leiðir annars vegar til styrkari efnahagsstjórnar og hins vegar mikillar valddreifingar til landshluta og sveitarfélaga.

Fjórflokkarnir snúast auðvitað gegn þessum hugmyndum. Þeir segja að verið sé að afnema þingræðið. Þetta er útúrsnúningur og orðaleikur. Að því er tekur til ríkisstjórnar er verið að leggja til það eitt að hana kjósi þjóðin en ekki þingið, enda má nú segja að þinginu hafi tekist misjafnlega til. Það er breytingin sem verið er að leggja til. En aðalatriðið er þó hitt, að fjórflokkarnir vita að ef skilið verður á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds er um leið klippt á hin spilltu og óeðlilegu flokkavöld. Þá verða t.d. flokkablöðin ekki lengur rekin af pólitískum sjóðum. Þá mun aðstöðubraskið a.m.k. minnka.

Við skulum ævinlega hafa hugfast að ríkisbankarnir í þessu landi eru eldri en sósíalismi, enda mundi heiðarlegur heiðursmaður eins og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson ekki taka til máls eins og hann gerði hér í kvöld að tala um Weimarlýðveldið og Adolf Hitler — þannig tala ekki sómamenn — nema mikla hagsmuni sé verið að verja.

Sem þáttur í sömu valddreifingarhugmyndum leggjum við til að þegar menn og konur greiða atkv. í kosningum geti þau merkt við og raðað upp á lista — tekið einstaklinga af einum eða fleiri listum — allt upp í tölu kjörinna þingmanna. Slíkar hugmyndir viljum við útfæra um samfélagið allt. Slík till. fjallar auðvitað um að flokkakerfið í landinu er ekki lengur mælikvarði á lífsskoðanir fólks og langanir. Ef einhverjir vilja t.d. kjósa konur sérstaklega eða einhver sjónarmið önnur, þá skipta þau sjónarmið máli og eiga sinn lýðræðislega rétt. Allt er þetta hægt og þetta er skynsamlegur valkostur gegn uppgjöf og upplausn flokkanna fjögurra.

Við trúum því, að hljóti þessar hugmyndir brautargengi fólksins í landinu muni félagskerfið einnig taka örum breytingum, lýðræði aukast og ábyrgð aukast. Við trúum því, að við séum valkostur gegn flokkakerfi sem var eðlilegt á sinni tíð, en er það ekki lengur. Annaðhvort gerist að hugmyndir okkar hljóta brautargengi eða hin félagslega stöðnun heldur áfram og upplausn fjórflokkanna heldur áfram.

Hin heimatilbúna kreppa, sem þeir tala um, hið heimatilbúna vonleysi, á að vera ástæðulaust. Í almennum efnahagsmálum leggjum við til að tímabili ábyrgðarleysis og inngripi ríkisvalds í samninga ljúki og um leið hefjist tímabil ábyrgðar einstaklinga og samtaka þeirra. Við viljum að einstaklingar og samtök þeirra semji með frjálsum hætti og beri að fullu og öllu ábyrgð á því sem samið er um. Þegar samið er um fiskverð t.d. á ríkisvaldið engin afskipti að hafa af því, heldur eiga kaupendur og setjendur að semja eins og frjálsir menn og bera að fullu og öllu ábyrgð á því sem samið er um. Það gengur ekki að ríkisvaldið beri ábyrgð á slíkum samningum, sem síðar eru innistæðulausir, og millifæri síðar til óhæfra atvinnurekenda með því að lækka gengið, skattleggi innflutning til að millifæra til þeirra sem sömdu um pappírsverðmætin.

Sama verður að gilda um kaup og kjör. Það er ekki og á ekki að vera hlutverk ríkisvaldsins að grípa inn í gerða samninga vegna þess að ábyrgðarlaust hefur verið samið. Mönnum og samtökum þeirra mun undrafljótt lærast að beri þeir ábyrgð á samningum, sem gerðir eru, er skynsamlega samið á grundvelli þeirra verðmæta sem til skipta eru. Við eigum að hafa trú á mannfólkinu og samtökum þess.

Þetta eru tillögur um grundvallarbreytingu í efnahagsgerðinni, þar sem ábyrgð á því sem menn gera og frelsið til þess skipta meginmáli. Inngripin í þágu hagsmuna hefur reynst röng leið og úr sér gengin og sem auk þess hittir ævinlega launafólkið fyrir. Þeir spyrja: Hvað ætlið þið að gera í efnahagsmálum? Við svörum og segjum: Þetta er það sem við ætlum að gera. Þetta eru till. sem munu leiða til jafnvægis á skömmum tíma vegna þess að fólki er treystandi ef stjórnkerfið er heilbrigt.

Herra forseti og góðir áheyrendur. Ég hef ekki séð ástæðu til þess að leika hinn hefðbundna leik flokkakerfisins og vil ekki vera að metast um fortíðina. Okkur er líka alveg sama. Fortíðin skiptir ekki meginmáli að þessu leyti. En við horfum til framtíðar. Við horfum á fjörbrot flokkakerfis, sem stendur ekki lengur fyrir mismunandi skoðanir fólksins í landinu, heldur forskrúfaða hagsmuni fárra, en um leið er þó atlaga að hinum mörgu. Þeir eru nú að sviðsetja ágreining til þess að geta skipt með sér upp á nýtt að afloknum kosningum.

Félagskerfið á Íslandi er staðnað og það er hættuleg stöðnun. Það svarar ekki lengur til þeirra meginhugmynda sem bærast í brjóstum fólksins í þessu landi. Það býst ekki til varnar á tölvuöld. Það er ekki fulltrúi fyrir þann húmanisma, fyrir það manngildi sem hlýtur að vera svar næstu framtíðar. Ef svo fer engu að síður að fjórflokkarnir hljóti brautargengi mun hin félagslega stöðnun halda áfram.

Bandalag jafnaðarmanna, hugmyndir okkar um breytt stjórnkerfi og dreift vald, ábyrgð og frelsi hinnar litlu einingar, er kall nýrrar tíðar gegn þessari þróun. Við erum bjartsýn vegna þess að þetta er hægt. Við erum bjartsýn vegna þess að við trúum því að þessar skoðanir eigi samhljóm um landið vítt og breitt, að tímabili stöðnunar og þessarar upplausnar ljúki og við taki ný hreyfanlegri og betri tíð. Það vorar brátt í þessu landi og við viljum að það vori víðar. — Ég þakka þeim sem hlýddu.