14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3189 í B-deild Alþingistíðinda. (3205)

Almennar stjórnmálaumræður

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Góðir áheyrendur, ungir og gamlir, konur og karlar. Það gat ekki hjá því farið, þegar ég hlýddi á ræðu Vilmundar Gylfasonar hér áðan, að mér kæmi í hug gömul þingvísa eftir Eirík Einarsson frá Hæli:

Ertu ei þreyttur, munnur minn?

Mjög var reynt á þrekið.

Nú höfum við í sjötta sinn

sama rjómann skekið.

Það er fyrsta setning í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens: „Meginverkefni ríkisstjórnarinnar er að treysta íslenskt efnahags- og atvinnulíf, enda er það ein helsta forsenda fyrir sjálfstæði þjóðarinnar.“

Nú hefur ríkisstj. setið við völd í þrjú ár. Við heyrðum hér áðan hversu uppnæmir þeir ráðh. eru fyrir þessu samstarfi, viðkæmir fyrir ummælum hvers annars, að ekki sé talað um þegar imprað er á því hvar efndirnar séu. Kjarni málsins er að sjálfsögðu sá, að þeim hefur ekki aðeins mistekist að efla grundvöll atvinnulífsins, auka framleiðsluna í þjóðfélaginu, heldur er nú svo komið að verkefni næstu ríkisstjórnar verður að endurreisa efnahagslegt sjálfstæði hennar. Á tímanum frá 1978 hefur greiðslubyrði af erlendum lántökum vaxið úr 13% í 25%. Það er óþarfi að taka það fram að ríkisstj. setti sér það markmið að greiðslubyrðin færi ekki fram úr 15% af útflutningstekjum.

Hvernig skyldi nú standa á því að ríkisstj. hefur mistekist svo hörmulega? Ástæðan er í fyrsta lagi sú, að á þessum árum, sem síðan eru liðin, hefur margvísleg breyting orðið í efnahagskerfinu. Við höfum tekið upp verðtryggingu fjárskuldbindinga og atvinnuvegirnir verða að taka erlend lán í miklu ríkara mæli en áður. Til þessarar höfuðbreytingar á íslensku efnahagskerfi hefur ríkisstj. ekki tekið tillit. Af þeim sökum hafa atvinnufyrirtækin veikst efnahagslega.

Ég vil rifja upp að í árslok 1981, þegar mesta góðæri sem Íslendingar hafa lifað hafði gengið yfir þjóðina, var það helsti boðskapur hæstv. sjútvrh., að þótt verðbólgunni hefði að vísu tekist að ná nokkuð niður hefði það orðið á kostnað útflutningsatvinnuveganna. Slíku væri ekki hægt að halda áfram. Þess vegna yrði ríkisstj. að snúa við blaðinu og röðin væri komin að fyrirtækjunum. Að öðrum kosti væri útilokað að halda uppi atvinnu til frambúðar og viðunandi lífskjörum án þess að til verulegrar skuldasöfnunar erlendis kæmi. Auðvitað var þetta rétt hjá hæstv. sjútvrh. Niðurstaðan var rétt. Og ég efast ekki um að hann hafi á þeim tíma haft fullan vilja til þess að rétta efnahaginn við að nýju. Hann veit það vel, þm. þeirra Vestfirðinga, að fátt veikir byggðarlögin meir en atvinnustefna sem í því er fólgin að veikja undirstöðu framleiðslunnar í landinu.

Þegar við tölum um sjálfstæði byggðarlaga, sjálfstæði þjóðar, þá er auðvitað mikið undir því komið að hver einstakur landshluti, hvert byggðarlag geti verið nokkurn veginn fjárhagslega sjálfstætt. Hitt vitum við líka, Íslendingar, að ógerningur er fyrir okkur að halda hér uppi menningarþjóðfélagi, sem við viljum halda uppi, nema við hyggjum að undirstöðunni. Okkur hefði aldrei tekist að byggja hér upp þau lífskjör sem þó eru hér nema vegna þess að forverar þessarar ríkisstj. settu sjávarútveginn í öndvegi og útflutningsiðnaðinn í heild. Höfuðmistök ríkisstj. voru þessi: Hún skóp atvinnuvegunum ekki nægilega góð rekstrarskilyrði.

Við höfum heyrt það hér í kvöld, eins og oft endranær, að brbl. frá því í ágústmánuði hafi verið mikil bjargráð. Hæstv. forsrh. sagði áðan að þau hefðu valdið því að verðbólga væri nú 10–15% minni en ella mundi. Ekki hef ég tölur um það, en hitt veit ég, að ef sú var niðurstaðan í ágústmánuði að nauðsynlegt væri að skerða lífskjörin verulega og höggva á verðbætur launa hefði verið skynsamlegra og betra að gera það strax en draga það í þrjá mánuði. Ef þessi kjaraskerðing hefði komið 1. september í staðinn fyrir 1. desember hefði aldrei komið til gengisfellingarinnar í septembermánuði. Þá væri verðbólgan í dag ekki 70%, heldur á miklu lægri stigum. Þá væri efnahagur þjóðarinnar betri.

Við sjálfstæðismenn áttum fund saman um síðustu helgi upp í Borgarnesi, og hvort sem hæstv. forsrh. er það nú ljúft eða leitt tókst fullkomin samstaða með öllum frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins um þá leið sem við viljum ganga að næstu kosningum loknum. Við mörkuðum þar stefnu í höfuðmálum, og skal ég nú rekja nokkur atriði þeirrar stefnumörkunar, sem raunar hefur komið fram hér á Alþingi í tillögugerð og málflutningi okkar sjálfstæðismanna.

Eins og við vitum hefur efnahagsþróunin valdið því, að ungt fólk getur ekki með sama hætti og áður reist íbúðir vegna þess að lán til þeirra hafa mjög dregist saman. Þessu viljum við breyta. Við viljum lengja lánin í 42 ár og láta þá sem byggja í fyrsta skipti njóta betri lánskjara en aðra og fá lán að 80%. Svavar Gestsson hrósaði sér hér áðan af því að sér hefði vel tekist í húsnæðismálunum. Sannleikurinn er sá, að hann hefur staðið gegn því á Alþingi að nægilegt fé væri veitt til húsnæðismála og hann hefur einnig ásamt þessari ríkisstj. staðið gegn því að við fyrirheitin um lækkun húshitunarkostnaðar yrði staðið.

Góðir áheyrendur. Tíma mínum er lokið. Ég vil aðeins hafa það sem mín lokaorð: Við sjálfstæðismenn teljum að höfuðmeinsemdin í þjóðfélaginu í dag sé sú, að ríkið hefur tekið of mikið til sín frá þegnunum. Ef við ætlum að ná verðbólgunni niður, ef við ætlum að byggja atvinnulífið upp að nýju, þá verðum við að gera það með þeim hætti að ríkissjóður skili til baka nokkru af því sem hann hefur tekið. Við verðum að minnka eyðsluna, við verðum að lækka skattana og við verðum að reisa einstaklinginn til öndvegis íslensku þjóðlífi og atvinnulífi. — Góða nótt. Ég þakka þeim sem hlýddu.