14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3192 í B-deild Alþingistíðinda. (3207)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í eldhúsdagsumræðum við lok kjörtímabils, en alþingiskosningar á næsta leiti, tel ég rétt að minnast örfáum orðum á þau ráðuneyti og málasvið sem ég hef farið með í ríkisstj., en það eru dóms- og kirkjumál og málefni er varða samstarf Norðurlanda. Þó verður á fátt eitt drepið á skömmum tíma.

Í stjórnarsáttmálanum frá 1980 segir svo um dómsmál: „Unnið verði að umbótum í dómsmálum og stuðlað að hraðari meðferð dómsmála, með því m.a. að einfalda meðferð minni háttar mála.“

Að þessu hefur verið unnið, bæði með nýrri og bættri löggjöf og lagaframkvæmd, og mikið áunnist, eins og glöggt má sjá á skýrslu um meðferð dómsmála sem ég lagði fram á Alþingi nú nýlega.

Í stjórnarsáttmála segir ennfremur: „Athugað verði, hvernig þeim efnaminni í þjóðfélaginu verði tryggð lögfræðiaðstoð til þess að ná rétti sínum.“

Að þessu hefur markvisst verið unnið, ekki með því að koma á fót ókeypis lögfræðiaðstoð fyrir hvern sem er, sem kostað gæti ríkið fúlgur fjármuna, heldur með því m.a. að styrkja lögfræðiaðstoð laganema við Háskóla Íslands við almenning, að hafa í rn. sérstakan starfsmann sem leiðbeinir og veitir upplýsingar um hin margvíslegustu málefni, að veita þeim gjafsókn eða gjafvörn sem á þurfa að halda að athuguðu máli og loks með því að bæta og styrkja aðstöðu dómara, fógeta og sýslumanna um allt land svo þeir eigi hægara með að greiða úr málum manna á allan hátt.

Um dóms- og löggæslumál er það annars að segja að þar er yfirleitt lítt á loft haldið öðru en því sem úrskeiðis kann að fara og fréttnæmt þykir. Menn átta sig ekki á því að það kostar mikla vinnu og vökult starf fjölda manna að halda uppi því sem stundum er kalláð almannafriður og allsherjarregla og á að veita hverjum og einum öryggi, vörn og skjól ef út af ber og á þarf að reyna.

Um kirkjumálin mun ég ekki orðlengja, aðeins geta þess að þar hefur verið reynt að vinna vel, svo sem stjórnarskrá og önnur lög mæla fyrir um, með því að styðja og vernda þjóðkirkjuna og búa í haginn fyrir starfsmenn hennar, styðja að góðri samvinnu kennimanna og leikmanna.

Um norræn samstarfsmál mætti margt segja. Ríkisstj. hefur lagt áherslu á að styrkja samstarf af því tagi og hygg ég að þar hafi vel til tekist í mörgum greinum.

Við meiri erfiðleika er nú að etja í efnahagsmálum þjóðarinnar en verið hefur á síðustu 15 árum. Rætur vandans má einkum rekja til tveggja grundvallaratriða. Langvinn kreppa hefur verið í alþjóðaefnahagsmálum, sem einkennst hefur af stöðnun í framleiðslu og vaxandi atvinnuleysi. Framleiðsla OECD-landa hefur nær ekkert aukist á síðustu þremur árum og atvinnuleysi nær tvöfaldast. Þetta eru alvarlegustu efnahagsþrengingar hjá vestrænum þjóðum frá stríðslokum.

Íslenskur þjóðarbúskapur hefur ekki farið varhluta af þessari öfugþróun og koma áhrifin bæði fram í afkomu íslenskra atvinnuvega og stöðu þjóðarbúsins út á við. Til viðbótar við þá erfiðleika, sem má rekja til þeirrar lægðar sem verið hefur í heimsbúskapnum, kemur mikill og óvæntur samdráttur í afla og framleiðslu sjávarafurða. Heildarafli landsmanna á árinu 1982 var tæplega 770 þús. tonn samanborið við rúmlega 1430 þús. tonna afla árið áður. Fiskafli 1982 var þannig einungis 54% af afla ársins 1981. Fiskafli í tonnum talið hefur ekki verið minni síðan árið 1972 og því miður sjást engin batamerki að því er fiskverð varðar enn.

Þegar vandamálin hrannast upp með þeim hætti sem hér hefur verið nefnt liggur í augum uppi að róttækra efnahagsaðgerða er þörf. Ríkisstj. steig þýðingarmikið skref með efnahagsráðstöfunum í ágústmánuði s.l., en með þeim tókst að sveigja nokkuð frá því ískyggilega ástandi sem við blasti að því er snerti stöðu þjóðarbúsins út á við og verðbólguþróun innanlands. Engu að síður er ljóst að þær aðgerðir sem þá voru ákveðnar duga ekki til að leysa þann efnahagsvanda sem þjóðarbúið stendur nú frammi fyrir. Þetta á ekki síst við þar sem ekki tókst að framfylgja einum mikilvægum þætti efnahagsaðgerðanna um breytingu á vísitölukerfinu vegna þess að einn stjórnarflokkurinn treysti sér ekki til að standa við það samkomulag sem gert var í ágúst um það efni. Þegar það tvennt fer saman að miklir erfiðleikar steðja að og kosningar nálgast virðist vera tilhneiging til þess að stýra undan öldunni og reyna að forðast verstu áföllin í stað þess að horfast í augu við vandann í heild og takast á við hann með þeim hætti sem mestum árangri skilar fyrir land og þjóð.

Við undirritun hafréttarsáttmálans seint á síðasta ári má segja að Íslendingar hafi unnið fullnaðarsigur í baráttunni fyrir 200 sjómílna auðlindalögsögu á hafinu umhverfis landið. Hafði þá baráttan fyrir stækkun fiskveiðilögsögunnar staðið yfir í meira en þriðjung aldar. Saga þessa máls sýnir að íslenska þjóðin getur unnið stóra sigra ef hún nær að keppa einhuga að settu marki, beitir þori og þrautseigju og styður mál sitt réttum rökum. Hún sýnir einnig að þrátt fyrir mikið ósamkomulag og harðar deilur milli þjóða tekst þó stöku sinnum að finna farsæla lausn á stórmálum með friðsamlegum hætti, þegar unnið er saman af heilindum og þekkingu.

En erfiðleikar eru ekki til að mikla þá fyrir sér, heldur til þess að sigrast á þeim. Óhjákvæmilegt er að brjótast út úr vítahring verðbólgunnar og treysta grundvöll atvinnulífsins. Við Íslendingar höfum öll skilyrði til að geta búið vel í landi okkar og haft stjórn á eigin málum. Verkefnin eru næg. Við viljum byggja landið allt, bæta og jafna aðstöðu þegnanna, ekki síst á sviði orku- og húshitunarkostnaðar þar sem misrétti nú er langt úr hófi fram, svo dæmi sé tekið.

En öll él birtir upp um síðir. Sjálfstæðismenn um land allt munu fylkja liði í komandi alþingiskosningum. Á stefnuskrá þeirra verða margþætt framfaramál auk nauðsynlegra viðnámsaðgerða. Þeir munu m.a. beita sér fyrir því að staðið verði við fyrirheit um stórátak í varanlegri vegagerð samhliða úrbótum í samgöngum á sjó og í lofti. En markmið og stefnumótun verða enn sem áður byggð á víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu, sem skírskotar til einstaklingsins hvar í stétt sem hann stendur og manngildis hans. Áfram verður unnið að þeim málefnum og því takmarki sem miðar að aukinni farsæld og hagsæld allra landsmanna. — Lifið heil.