14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3204 í B-deild Alþingistíðinda. (3213)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Fram undan eru erfið ár — tímar sem krefjast ábyrgðar og hreinskilni, forustu, samstöðu og sóknar. Reynsla milljóna í nágrannalöndum okkar sýnir okkur að vofur atvinnuleysisins, kjaraskerðingar og niðurskurðar á félagslegri þjónustu bíða við næsta horn. Íslendingar, sem hafa kosið okkur sem erum í þessum sal til ábyrgðar, eiga kröfu á það að flokkarnir sýni á slíkum tíma samstöðu og innri styrk, en því miður er það þannig, eins og umr. hér í kvöld hefur sýnt, að innan hinna flokkanna þriggja ríkir nú upplausn og ágreiningur.

Í Sjálfstæðisflokknum er vopnaglamrið í algleymingi. Gunnar birtist hér enn í kvöld í baráttu við Geir — og hvað gerði Albert svo? Hann kom upp og skammaði Gunnar. En utan þingsins bíður unga leiftursóknarsveitin með kenningar Thatchers og Reagans að vopni.

Hásetarnir hjá Verslunarráðinu og VSÍ bíða óþreyjufullir eftir því að komast hér inn í þingsalina eftir kosningar til þess að skora gömlu fyrirgreiðslujálkana í þingflokknum á hólm.

Og Alþfl. Hvað gerði Kjartan, sem var að tala hérna áðan? Hann rak Benedikt í útlegð. Og hvað gerði Karvel? Hann vó Sighvat úr launsátri. Og hvað gerði Jón Baldvin? Hann bíður eftir því að finna höggstað á Kjartani. Og Vilmundur? Vilmundur hljóp bölvandi burt þegar hann tapaði með sjö atkv. mun í vegtyllukosningu fyrir Magnúsi Magnússyni. Svo kemur hann hér í kvöld og segir: Það eru allir flokkarnir eins. Eru þeir allir eins? Hvar var Vilmundur þegar við börðumst heila nótt við álflokkana hér á Alþingi? Hvar var Vilmundur þegar við börðumst gegn vísitölufrv. Gunnars og Framsóknar? Ekki hér í þinghúsinu. Og hvar er Vilmundur í ágreiningnum um NATO? Hann er í miðri NATO-sveitinni, erfðaprins gamla NATO-kjarnans í Alþýðuflokknum, dyggur og trúr gömlu hugsjóninni. Svo kemur þessi maður hér í kvöld og segir: Ég boða ykkur nýja stefnu. Það eina sem gerðist var það, að fyrir fjórum mánuðum tapaði hann í vegtyllukosningu í Alþfl. með sjö atkv. mun.

Og Framsóknarflokkurinn. Þar hefur það nú gerst að þm. bjóða fram klofningsframboð hver gegn öðrum og hin þjóðlega rót frá tímum Hermanns og Eysteins er nú orðin að herleiðingu í þágu hagsmuna Alusuisse. Tómas Árnason birtist í ræðustól Ed. á föstudagskvöld og tilkynnti að að loknum næstu kosningum mundi Framsóknarflokkurinn mynda ríkisstjórn með Íhaldi, nýja íhaldsríkisstjórn, líkt og Ólafur Jóhannesson myndaði fyrir Geir Hallgrímsson forðum. Það er sterka stjórnin sem Steingrímur Hermannsson var að tala hér um fyrr í kvöld. Hann er meira að segja búinn að sætta sig við að Ólafur Jóhannesson eigi að vera forsrh. í þessari nýju stjórn.

Utan þings eru svo sveitir kvenna og karla að leita inngöngu í þetta hús í krafti sundurlyndis meðal þjóðarinnar.

Það er staðreynd að Alþb. er eini flokkurinn sem gengur til þessara kosninga heill og óklofinn. Alþb. er eini flokkurinn sem kemur fram sem órofin sveit. Engu að síður var klofningur hinna okkur áhyggjuefni, því að þjóðin þarf nú á því að halda að hér sé eining og sterk forusta, eining um íslenska leið út úr þeim erfiðleikum sem við blasa. Sú íslenska leið felur í sér virka atvinnustefnu í stað þeirrar leiftursóknar sem Verslunarráðið boðar nú. Hún felur í sér íslenskt forræði yfir auðlindum í stað arðráns útlendra auðhringa. Hún felur í sér félagslegan jöfnuð og velferðarþjónustu í stað markaðsdrottnunar hinna sterku. Hún felur í sér frið og afvopnun í stað vígbúnaðar og herstöðva. Það er sú íslenska leið sem við boðum, grundvöllur sóknar og samstöðu í íslensku þjóðfélagi á næstu árum.

Alþýðubandalagið býður í einlægni öllum almenningi í landinu til umr. og þátttöku í sköpun þeirrar einingar. Við höfum sýnt ábyrgð og hollustu í þessari ríkisstj. Það er vissulega rétt að við erum ekki alls kostar ánægðir með allt það sem þar hefur gerst. En engu að síður er það staðreynd að Ísland er eina landið í Evrópu sem tekist hefur að verja gegn atvinnuleysinu. Ísland er eina landið í Evrópu þar sem félagslegur jöfnuður, framlög til menningar og mennta hafa aukist að raungildi, og Ísland er eina landið í Evrópu þar sem tekist hefur að snúa halla á ríkisfjármálum á réttan kjöl á skömmum tíma. Á þessum sviðum hefur vel tekist. Á þessum sviðum höfum við haft forustuna.

Það er á grundvelli þessarar reynslu sem við teljum að við séum bærir til þess að meta hvaða leið sé best fyrir íslensku þjóðina þegar markaðskreppur kreppa að, þegar hrun verður á skreiðarmörkuðum erlendis, þegar sjávarafli minnkar og þegar þrengir að stóriðjunni í landinu. En við vörum kröftuglega almenning í landinu, launafólk og ungt fólk, við þeirri leiftursóknarstefnu, sem birtist nú hjá nýju öflunum í Sjálfstfl., og við biðjum umbótasinna og félagshyggjufólk, vinstrimenn og verkalýðssinna, raunverulega jafnaðarmenn og alla þá sem unna auknu lýðræði í landinu að hugleiða hætturnar sem felast í því að dreifa kröftunum þegar íhaldið sækir nú fram hér á landi og um allan heim. Þá síst á vinstra fólk á Íslandi að dreifa kröftunum. Þess vegna býður Alþb. nú til umr. um víðtækt einingarafl um samstöðu okkar allra í stað sundrungar. Við boðum íslenska leið sem setur á oddinn eflingu atvinnulífsins, aukna og fjölþætta útflutningsstarfsemi, varðveislu félagslegra réttinda, eflingu menningar og almennrar velferðar. Og við vörum, eins og hér hefur verið gert í kvöld, við áhrifum erlendra stóriðjurisa sem kappkosta arðrán um heim allan, sem knýja smáþjóðir eins og okkur til að selja orkuna á gjafverði á grundvelli úreltra samninga sem skammsýnir menn gerðu fyrir mörgum árum.

Baráttan við álhringinn er ekki aðeins brýnt hagsmunamál. Hún er þjóðfrelsismál. Hún er spurningin um rétt lítillar þjóðar til þess að sækja arðinn frá eigin auðlindum. Því miður hafa sundrungaröflin í hinum flokkunum myndað varnarsveit í þágu Alusuisse, sem hér hefur birst í kvöld og veikt þannig möguleika Íslendinga til að ná samningum. Skammsýni þessara manna getur reynst okkur dýrkeypt. Það er því brýnt að þjóðin grípi í taumana á næstu vikum og dragi álflokkana þrjá burt úr herbúðum Alusuisse.

Þetta er okkar þjóðfrelsisbarátta. Hún á að tengjast friðarbaráttu um heim allan, þar sem milljónir í Evrópu og Bandaríkjunum hafa nú tekið höndum saman í baráttunni gegn vígbúnaðarkapphlaupinu, því risaveldin hafa nú tortímingu jarðarinnar í höndum sér, og annað þeirra, eins og við vitum, hefur í áratugi búið sér víghreiður hér á Íslandi. Stefna Alþb. í þeim efnum er ljós og hún er skýr, en hún dugir ekki hér ein sér til árangurs. Þess vegna verður nú að mynda breiðfylkingu um áfanga í friðarbaráttu — áfanga sem fela í sér bann við öllum frekari vígbúnaði á Íslandi, fela í sér löggjöf um þátttöku Íslands í kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum og bann við því að kjarnorkubátar sigli um fiskimið okkar, því geislavirkni getur á örskotsstund gereyðilagt dýrmætustu auðlindir okkar.

Góðir Íslendingar. Sjálfstæðið er dýrmætur fengur. Áratugum saman var í þessu húsi settur fram sá draumur forfeðranna áð það gæti orðið að veruleika. Sjálfstæði, friður og farsæld voru þær framtíðaróskir sem fluttar voru í þessum stól. En sundrungin ógnar nú sjálfstæði þjóðarinnar. Næstu ár knýja því á um einingu, um kröftugar athafnir, um samstöðu og sókn. Alþb. hefur sýnt það öðrum fremur að við setjum á oddinn umræðu um sköpun slíkrar einingar — einingar gegn því að framkvæma hér erlendar íhaldskenningar, einingar gegn ítökum erlends hers, einingar gegn arðráni erlendra stóriðjufyrirtækja, einingar sem byggist á samstöðu um íslenska leið út úr þeim erfiðleikum sem við blasa. En við sköpum þá einingu ekki nema almenningur í landinu veiti okkur liðsinni. Þess vegna skulum við öll taka höndum saman Íslandi til heilla. — Góða nótt.