11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þeir fáheyrðu atburðir hafa gerst, að annaðhvort hefur formaður þingflokks Alþb., 11. þm. Reykv., vísvitandi farið með lygar ellegar að málgagn hans, Þjóðviljinn, skýrir rangt frá staðreyndum um eignaraðild að fyrirtækjum vestur á fjörðum. Þar sem hér er um mjög alvarlegt mál að ræða leyfi ég mér, með leyfi forseta, að lesa upp úr pistli dagsins, Þjóðviljanum, 8. siðu, miðvikudaginn 10. nóv. 1982, en þar stendur svo, með leyfi forseta:

„HP bjargvætturinn. Hraðfrystihús Patreksfjarðar, sem lengi bjó við lakan kost, er nú loks komið í nýtt og gott húsnæði, en fé vantar til að ljúka byggingu þess og fullkomna vélakostinn. Fyrirtækið er 90% í eigu Kaupfélags Patreksfjarðar, og það verður að segjast eins og er, að það hefur alls ekki setið við sama borð hjá Byggðasjóði og aðrir hér, sem leitað hafa eftir lánum.“ (Forseti: Þetta er um þingsköp.)

Herra forseti. Að gefnu tilefni, vegna fullyrðingar sem fram kom hjá hv. 11. þm. Reykv. í ræðu um þingsköp um að það hefðu orðið eigendaskipti á þessu fyrirtæki, óska ég eftir því að Þjóðviljinn birti leiðréttingu í sínu blaði ef Bolli Ólafsson skýrir hér rangt frá, ella að Ólafur Ragnar Grímsson dragi til baka yfirlýsingar um eignaraðild að fyrirtækjum vestur á fjörðum. Eins og menn geta kynnt sér með lestri Þjóðviljans er hér um klárar lygar að ræða.