11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

27. mál, nefnd til að spyrja dómsmálaráðherra spurningar

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Hér er til umr. till. til þál. um skipan nefndar til þess að spyrja dómsmrh. spurningar og sú spurning er flutt af hv. 4. þm. Reykv. Sú spurning er á þá leið, hvort dómsmrh. hafi talið ástæðu til að gera athugasemdir við embættisfærslu sýslumannsins á Höfn í Hornafirði hinn 18. ágúst s.l.

Ég gæti í sjálfu sér löngu verið búinn að svara þessari spurningu og hv. þm. veit fullvel að hann er hvenær sem er velkominn til mín í ráðuneytið og mun ég láta honum í té allar upplýsingar bæði um þetta mál og annað sem hæstv. fyrrv. dómsmrh. En þær umr. sem hafa farið fram á þessu haustþingi um málið hef ég talið að væru um formhlið málsins. Ég er reiðubúinn að svara þessari spurningu á þann hátt sem hv. alþm. telja rétt og á þeim stað þar sem hv. alþm. telja rétt að ég svari henni. Þess vegna hef ég ekki tekið til máls um þetta atriði fyrr. En nú segir hv. þm.till. sé eingöngu borin fram af tæknilegum ástæðum og vitum við þá hvað við er átt. Ég veit í raun ekki hvort ég á að fara langt út í efnislegt svar við till. enn, en mun þó segja um þetta örfá orð.

Það er í fyrsta lagi ávallt mikið matsatriði hvað mikið er sagt frá rannsóknum mála meðan á þeim stendur, einkum þegar um viðkvæm mál er að ræða svo sem þetta var. Fjölmiðlar eru ágengir, eins og við öll vitum, og sumir segja að þeir geti í eyðurnar þar sem upplýsingar vantar. Þess vegna er oft í það minnsta nauðsynlegt að láta í té einhverjar upplýsingar, en mikið matsatriði á hverjum tíma hvað þær eiga að vera miklar. Það viðurkenni ég.

Þá er ljóst að sýslumaður Austur-Skaftfellinga stjórnaði rannsókn þessa máls. Það er ekki talið að hin umrædda frásögn hans í fjölmiðlum hafi valdið réttarspjöllum eða neinum truflunum á rannsókninni. Þetta mál hefur að sjálfsögðu verið skoðað og hugsað frá öllum hliðum í ráðuneytinu, en ég hef ekki talið ástæðu til að gera sérstaka athugasemd við atferli sýslumanns eða veita honum sérstaka áminningu út af þessu máli.

Ég vil svo aðeins geta þess í lokin, að að sjálfsögðu fer þetta mál eins og því er háttað fyrir dómstóla landsins, bæði undirrétt og Hæstarétt, og munu dómstigin bæði leggja hlutlægt mat á málið í heild sinni og allt atferli við rannsókn þess. Þess vegna eru það dómstólar landsins sem eiga síðasta orðið í þessu máli.