16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra torseti. Mál það, sem hér er til umr., er þm. ekki alveg ókunnugt. Það er fsp. um afurðalán landbúnaðarins. Svipaðar fsp. hafa verið bornar fram þing eftir þing og lítil svör og nánast einskis virði hafa fengist. Fsp. er nú í fjórum liðum.

Í 1. lið er spurt: „Hvaða reglur hafa verið settar um rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins, sem tryggja að bændur fái fjármuni sína í hendur um leið og lánin eru veitt, í samræmi við ályktun Alþingis frá 22. maí 1979?“

Sú ályktun hljóðar þannig, með leyfi forseta, þ.e. fyrri liður þeirrar þál. sem samþykkt var 22. maí 1979: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að settar verði reglur um rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins, sem tryggi að bændur fái í hendur þá fjármuni, sem þeim eru ætlaðir, um leið og lánin eru veitt.“

Þessi ályktun er algerlega ótvíræð. Það er skylda hæstv. viðskrh. að sjá til þess, að bændur fái þessa fjármuni í hendur um leið og lánin eru veitt. Það hefur ekki verið gert fram til þessa og þess vegna er fsp. enn fram borin. Hæstv. viðskrh. hefur nú í 31/2 ár svikist um — ég get ekki notað um það vægara orðalag — að framkvæma skýlausan vilja Alþingis og þar með brotið viðurkenndar þingræðisreglur.

2. liður hljóðar þannig: „Er lokið undirbúningi þess, að ályktun Alþingis frá 22. maí 1979 komi til framkvæmda við veitingu afurðalána í nóv. n.k.?“

Afurðalánin munu verða veitt nú 25. nóv. og það er krafist svara við því, hvort undirbúningi sé lokið til þess að bændur fái þessa fjármuni sína í hendur, en ekki einhverjir allt aðrir, eins og verið hefur að undanförnu. Það má gjarnan skjóta því hér inn í að hæstv. landbrh. upplýsti í umr. fyrir nokkrum dögum að Samband ísl. samvinnufélaga tæki afurðalán fjölmargra afurðasölufyrirtækja, eins og hann orðaði það, í umboði þeirra. Það er sem sagt upplýst að mikið af þessum peningum rennur beint til Sambands ísl. samvinnufélaga, en alls ekki einu sinn til afurðasölufélaganna, hvað þá til bændanna sjálfra.

3. liður: „Hve mikil voru rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins á s.l. ári og hve mikil verða þau í ár?“ Þarna óska ég eftir að einnig verði greint frá því hvað haustlánin svonefndu séu mikil. Þau eru auðvitað rekstrarlán líka.

Og 4. liður: „Hvaða vexti greiða afurðasölufyrirtæki af lánunum og hvaða vexti taka kaupfélögin af bændum?“

Síðan þessi fsp, var borin fram hafa vextir breyst á afurðalánum, þeim og viðbótarlánum viðskiptabankanna, og þess vegna óska ég eftir að fá að vita bæði hvað þeir séu í dag og eins hvað þeir hafi verið þegar fsp. var fram borin.

Það má geta þess, að till. til þál., sem hér er vitnað til frá 22. maí 1979, var alllengi í smíðum. Ég flutti fyrst um þetta till. á haustþingi 1976 og var þá einn um þá till. Á næsta þingi voru flm. tveir. Þá hafði Jóhann Hafstein, þáv. hv. þm., bæst við. Síðan var það á árinu 1978 að meðflm. að þessari till. urðu þeir þm. Jónas Árnason og Sighvatur Björgvinsson. Till. var sem sagt samþykkt 22. maí 1979 og í 31/2 ár hefur hæstv. viðskrh. hliðrað sér hjá að framkvæma till.

Ég bíð nú spenntur eftir svörum ráðh. og vona að þau verði með öðrum hætti en áður hefur tíðast verið. Ég leyfi mér raunar að minna hann á að hann hefur æðioft lofað að vinna að málinu. T.d. gerði hann það 5. maí 1981 með þessum orðum héðan úr þessum ræðustól:

„Ég vil aðeins endurtaka,“ sagði hann, „sem ég sagði áður, að ég vinn að því og mun áfram vinna að því að framkvæma þessa þál. þannig að tryggja megi að tilgangi hennar verði náð. Það vil ég endurtaka og undirstrika. Ég hef sagt hér áður að það hefur verið bent á leið til þess sem margir telja að sé fullkomlega fær og muni þýða framkvæmd till. í reynd. Og ég vil endurtaka þetta, að ég mun vinna þannig að þessu máli. Hv. þm. verður svo sennilega í þriðja sinn að spyrja, kannske á næsta þingi, hvernig hafi miðað í þessu máli.“

Nú spyr ég: Hvernig hefur miðað í þessu máli? Á að framfylgja vilja Alþingis eða á að sniðganga hann og brjóta þingræðisreglur?