16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég get ekki annað en lagt svolítið til þessara umr., ekki síst vegna ummæla Sverris Hermannssonar áðan um bréf frá kaupfélagsstjóranum á Vopnafirði, sem hann kenndi við Örum & Wulff. Þarna er kannske einmitt komið að kjarna málsins, sem þyrfti að ræða í þessum sölum, að rekstrarlánin eru alls ekki nógu há og kaupfélögin þurfa að veita fyrirgreiðslu langt fram yfir það sem þessi lán hrökkva til. Þetta held ég að Sverrir Hermannsson ætti að kynna sér á Austurlandi frekar en að sitja hér í Reykjavík yfir lestri þessa bréfs.

Það er annað sem stakk mig svolítið í þessari umr. áðan. Það voru ummæli Eyjólfs Konráðs Jónssonar um að Samband ísl. samvinnufélaga hirti þessa peninga og hefði þá af bændum. Hann orðaði það þannig, að Samband. ísl. samvinnufélaga og samvinnuhreyfingin þar með hefði þessa peninga af bændum. Þetta eru mikil öfugmæli, því að mér er fullkunnugt um að sambandið veitir kaupfélögunum mikla fyrirgreiðslu og þar á meðal með rekstrarvörur til landbúnaðarins. Kaupfélögin og Sambandið starfa á jafnréttisgrundvelli og þau afurðalán, sem Sambandið tekur í umboði kaupfélaganna, fara þar inn á reikning þeirra. Í flestum tilfellum eru kaupfélögin búin að taka rekstrarvörur og aðrar vörur til bænda út á þessi afurðalán.

Ég vildi láta þetta koma fram hér, því að mér finnst þessar umr. villandi svo ekki sé meira sagt.